07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (3351)

127. mál, ríkisrekstur útvarps

Flm. (Jakob Möller):

Á tveim þingum, 1924 og 1925, bar jeg fram frv. til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að veita sjerleyfi til að reka útvarpsstarfsemi. Frv. þetta var samþ. á þinginu 1925 og sjerleyfið veitt hlutafjelagi, sem stofnað var hjer í bænum, og hefir fjelag þetta nú starfrækt útvarpið um tíma.

Nú er það kunnugt, að allmikið hefir borið á óánægju meðal útvarpsnotenda með rekstur og fyrirkomulag útvarpsins, en út í það ætla jeg ekki að fara hjer. Jeg býst við, að menn geti orðið sammála um þessa till., þó að ekki sje þeim ástæðum til að dreifa.

Eins og sagt er í greinargerðinni, er það fyrirsjáanlegt, að útvarpið verður ekki rekið til lengdar á þeim grundvelli, sem nú er, og jeg hygg, að það sje skoðun manna, að þessari starfsemi verði best borgið í höndum hins opinbera, þegar til lengdar lætur. Þessari skoðun var líka haldið fram í upphafi, en hún mætti mótspyrnu, ekki síst af hálfu þáverandi landssímastjóra, sem nú er nýlátinn. Um afstöðu núverandi landssímastjóra er mjer ekki kunnugt, en þar sem nú útvarpið er komið á, og hinsvegar svo ástatt með það fjelag, sem hefir rekstur þess með höndum, að búast má við, að það verði að gefast upp vegna fjárhagsörðugleika, þá er það nauðsynlegt, að stjórnin taki málið til athugunar sem fyrst, til þess að vera viðbúin, ef að þessu rekur. En ef fjelagið getur haldið áfram, þá er það vitanlega í fullum rjetti sinn sjerleyfistíma, sem mun vera 7 ár.

Till. mín er bygð á þessu, að það hljóti innan skamms að reka að því, að hið opinbera verði að taka ákveðna afstöðu til þessa máls. Jeg sje ekki, að hægt sje að hreyfa rökstuddum andmælum gegn till., en geymi mjer rjett til andsvara, ef til kemur.

Jeg geri ráð fyrir, að skipun nefndar ætti ekki að verða sundurþykkjuefni. En hvort stjórnin telur sjer fært að ætla nefndinni að vinna kauplaust, veit jeg ekki. En fyrir hönd fjelags víðvarpsnotenda get jeg lýst því yfir, að það mun ekki verða til fyrirstöðu af þess hálfu.