07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (3352)

127. mál, ríkisrekstur útvarps

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal fyrir hönd stjórnarinnar lýsa því yfir, að hún hefir ekkert á móti því, að skipuð verði nefnd til að athuga og gera till. um þetta mál, eins og gert er ráð fyrir í till. Og jeg skal bæta því við, að jeg held, að það sje hyggilegt að rannsaka það, hvort ekki sje rjett að taka útvarpið til opinbers rekstrar.

Þó að fjelaginu, sem útvarpsleyfið fekk, hafi tekist að fá það fje, sem minst var áskilið, þá hefir það sýnt sig, að það var of lítið. Það hefir líka sýnt sig, að fjelagið á mjög erfitt uppdráttar án sambands við landssímann; einkum kemur það mjög ljóst fram, hve erfitt er að ná inn gjöldunum án hans stuðnings. En aðalþröskuldurinn í vegi þessa fjelags er það, hvað erfitt það hefir reynst að fá nóg fje til rekstrar fyrirtækinu. Ef nóg fje hefði fengist, hygg jeg, að hefði mátt reka það með arði, svipuðum og t. d. síminn gefur. Jeg álít því margt mæla með því, að landssíminn taki við fyrirtækinu, því að það er ekki sjáanlegt, að hægt sje að fá nóg fje til að reka það með öðru móti. Ef það yrði ofan á, að það þætti ráðlegast, geri jeg ráð fyrir. að stjórnin mundi koma fram með frv. í þá átt á næsta þingi.

Í þessu sambandi vil jeg benda á það, að mjer er kunnugt um, að ungur Íslendingur dvelur nú erlendis, sem leggur fyrir sig aðallega þær greinar, sem að þessu lúta, og jeg veit, að hann mundi heldur vilja starfa hjer heima en erlendis, að loknu námi, og ef við fáum hann til að starfa við útvarpið, er þess að vænta, að hægt verði að koma þessum málum í gott horf. Af hálfu h. f. „Útvarps“ hygg jeg, að ekkert sje því til fyrirstöðu, að það vilji framselja sjerleyfið með góðum kjörum.

Jeg skal að lokum taka það fram, að jeg tek með ánægju við till. hv. 1. þm. Reykv. (JakM) og álít rjett að taka til athugunar, hvort ekki sje heppilegast að breyta um aðferð í þessu máli.