07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (3354)

127. mál, ríkisrekstur útvarps

Jón Guðnason:

*) Jeg vil mæla hið besta með þeirri till., sem hjer liggur fyrir, og jeg veit, að mjög mikill hluti þjóðarinnar óskar, að málið verði tekið upp í þessu formi. Það eru ekki margar nýjungar, sem hafa vakið eins mikinn áhuga hjá almenningi og útvarpsmálið, en því miður verð jeg líka að segja, að það eru ekki margar nýjungar, sem hafa brugðist eins vonum manna og það hefir gert.

Um það, hvort fjelagið, sem hefir haft útvarpið með höndum, hefir rækt hlutverk sitt vel eða ekki, skal jeg ekki segja. Það er annað atriði í þessu máli, sem jeg vildi vekja athygli á og óska eftir, að yrði tekið til nákvæmrar íhugunar, sem sje sölufyrirkomulagið á viðtækjunum, sem notuð eru. Um þau er það að segja, að úti um sveitir landsins, að minsta kosti þar sem jeg þekki til, hafa þau reynst mjög svikul. Menn hafa ekki skilyrði til að geta metið gæði þeirra og kasta svo mörgum hundruðum króna alveg út í bláinn. Tækin eru í sífeldu ólagi, sem að vísu stafar að einhverju af því, að menn kunna ekki með þau að fara og sjá ekki, í hverju bilunin liggur. En til þessa hljóta að liggja fleiri orsakir, því að þó að fagmenn komi sunnan úr Reykjavík til að gera við tækin, bila þau jafnharðan aftur. Það er því ósköp eðlilegt, að þetta fyrirtæki verði fyrir tortrygni almennings, og ef ekki verður undinn bráður bugur að því að koma þessu í lag, hlýtur að reka að því, að menn verði beinlínis ragir við að taka upp þessa nýjung. Þýðingarmesta atriðið er einmitt það, að trygt sje, að tækin komi að tilætluðum notum og sjeu ekki of dýr. Það hefir að minsta kosti heyrst, að meira en lítið sje lagt á þessi tæki.

*) Ræðuhandr. óyfirlesið.