13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (3375)

131. mál, uppmæling siglingaleiða og rannsókn hafnarbóta

Tryggvi Þórhallsson:

Á þskj. 539 á jeg brtt. um að skora á stjórnina, að samhliða þeim uppmælingum, sem getið er um í þáltill., verði framkvæmd mæling á tveim stöðum í mínu kjördæmi, í Bjarnarfirði og hafnarstaður við Kaldrananes og innsigling á Kollafjörð. Engum getur komið á óvart það, sem brtt. mín fer fram á, því að það hefir áður fram komið á Alþingi og þá jafnan samferða því, er þáltill. ræðir um.

Eins og aðalflm. gat um, liggja fyrir áætlanir um hvorttveggja, og eins samþ. frá fyrri þingum. Tilgangur minn er sá, að ítreka þá ósk, að þessi leið verði mæld, þar sem þetta er á sömu slóðum, eða rjettara sagt framhald af leið þeirri, er mæla á eftir þáltill. Jeg legg áherslu á, að þessar mælingar fari fram samhliða hinum. Jeg þarf ekki að gera grein fyrir því, hvað þetta er nauðsynlegt, vegna þess, að áður hafa legið fyrir þinginu rökstuddar áskoranir um þetta. Nú hefir enn á ný komið fram mjög eindregin áskorun frá þingmálafundum í mínu kjördæmi, að þessar leiðir verði mældar. Skildist mjer á hv. flm. (ÞórJ), að hann hefði ekkert við þessa brtt. að athuga.

Vegna þess, að hv. flm., sem er þm. eins kjördæmisins við Húnaflóa, hefir bæði nú og fyr á þinginu látið í ljós óánægju yfir því, hvernig Eimskipafjelag Íslands hefir búið við íbúa þess hjeraðs, vil jeg um leið taka undir þær umkvartanir. Í mínu kjördæmi ríkir mjög mikil óánægja af sömu sökum.

Jeg býst ekki við því, að menn grípi til neinna sjerstakra ráða út af þessu, enda vonandi, að hægt verði að setja niður óánægjuna án þess.