14.05.1927
Neðri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í D-deild Alþingistíðinda. (3387)

129. mál, verslanir ríkisins

Frsm. (Magnús Jónsson):

Fjhn. flytur þáltill. þá, sem hjer liggur fyrir. Það hefir tíðkast hin síðari ár að prenta með landsreikningunum rekstrar- og efnahagsreikninga þeirra fyrirtækja, sem rekin eru af ríkinu, og er þar bæði átt við verslanir og skip ríkisins. Þessir reikningar, þó birtir sjeu með landsreikningunum, tilheyra þeim auðvitað ekki á sama hátt og aðrir liðir. Yfirskoðunarmenn hafa þó farið yfir þessa reikninga, og sjerstaklega í þetta sinn skoðað vandlega bækur landsverslananna og fengið ítarleg plögg um allan hag þeirra, og út frá þeirri skoðun eru gerðar aths. 18, 19 og 20 í landsreikningunum nú síðast.

Mjer finst annars hálfóviðkunnanlegt að tala hjer um þetta mál, þar sem hvorugur hæstv. ráðh. er hjer viðstaddur til þess að andmæla. En það verður nú ekki í alt horft að því leyti.

Hv. þm. hafa sjeð, að það eru gerðar aths. við fleira en útistandandi skuldir. En jeg ætla eingöngu að halda mig við það, sem till. hljóðar um, sem sje skuldir þessara verslana. En hitt ætla jeg að láta bíða og ekki fjölyrða um, og setja aðeins fram málstað nefndarinnar með sem fæstum orðum.

1. liður till. er um áfengisverslunina. Skuldir hennar í árslok 1925 voru kr. 467,133,28, en skuldir í árslok 1926 kr. 430,679,16. Mismunur kr. 36,454,12.

Því verður ekki neitað, að þetta er geysilega mikið hjá verslun, er reka ætti svo að segja án útlána.

Í brjefi frá áfengisversluninni til fjhn. er að vísu gefin sú skýring á þessu, að þar sem viðskiftin eru gerð upp til fullnustu um áramót, þá sjeu útistandandi skuldir hærri en vera mundi, ef beðið væri með að gera upp reikningana, því að talsvert er lánað með 2 og 3 mánaða gjaldfresti. Þetta er að vísu rjett, en eins og reikningarnir nú eru, sýna þeir einmitt alveg rjett útistandandi skuldir verslunarinnar á hverjum tíma.

Það er nú sameiginlegt álit yfirskoðunarmanna landsreikningsins og fjhn., að áfengisverslunin eigi ekki að reka lánsverslun. Með öllu er þó ekki hægt að komast hjá útlánum, vegna þess. að verslunin er í raun rjettri tvískift; hún verslar bæði með áfengi og lyf. Mun varla hægt að komast með öllu hjá því að veita læknum og lyfjabúðum ofurlítinn gjaldfrest með lyf. Þess vegna var ekki hægt að samþykkja þetta eins og það var orðað í þáltill. í Sþ. nú fyrir nokkru.

En um áfengisútsölurnar er alt öðru máli að gegna. Þær verða á engan hátt taldar þau nauðsynja- eða þjóðþrifafyrirtæki, að ástæða sje til þess að veita þeim gjaldfrest og stórlán til þessa atvinnurekstrar. Öllum hv. þm. er kunnugt um það, hvernig á því stendur, að þessar útsölur starfa, og jeg hefi enga löngun til þess að koma inn á það. En það sýnist engin ástæða til þess, að landið láni þeim stórfje, þegar svo mörg þörf og góð fyrirtæki eru lömuð af fjárskorti. Þótt eitthvað kynni að kippa úr þessari verslunargrein, þá mundu menn standa jafnrjettir eftir og vel það.

Eins og jeg sagði, mun ekki hægt að komast hjá því að láta eitthvað af lyfjum með nokkrum gjaldfresti. En þetta sýnist hafa verið gert í óhófi. Lyfjabúðirnar skulda t. d. um síðustu áramót kr. 162.580. Þetta er að mestu óþarfa útlán. Margar lyfjabúðirnar eru svo settar, að vel gætu tekið lyfin eftir hendinni, og engum ætti að lána mjög mikið. Sum af þessum fyrirtækjum munu að vísu vera traustir og góðir skiftavinir. En þó hefir svo farið, að margir tugir þúsunda munu vera tapaðir. Lyfjabúðirnar geta brugðist eins og önnur fyrirtæki.

Það er ekki nema eðlilegt, að læknar fái einhvern dálítinn gjaldfrest, en skuldir sumra eru alveg óeðlilegar og munu tapast. Einn læknir skuldar t. d. 10.000 krónur og nokkrir svo skiftir þúsundum. Varasjóður mun bera töp þessi, en þau eru jafnóafsakanleg og ill fyrir því. Þarf að taka hjer örugt og fast í taumana.

Þá kem jeg að öðrum lið till. Útistandandi skuldir gömlu landsverslunarinnar eru í árslok 1926 (aurum slept):

Reykjavík . .

Ísafjörður..

kr. 252.176

— 28.626

Akureyri . .

— 60.034

Seyðisfjörður..

. — 54.774

Kr. 395.610

Við síðustu áramót (1925) voru skuldirnar kr. 445.129. Borgast hefir því á árinu 1926 tæpar 50.000 kr., og af þeim eru 30.000 kr. borgaðar í Reykjavík og um 19.000 kr. á Akureyri. Hin útibúin standa í stað.

Það er um þessi viðskifti eins og önnur gömul viðskifti, sem löngu er lokið, að mjög erfitt mun verða um innheimtuna. Má sjálfsagt gera ráð fyrir því, að bróðurparturinn af þessum skuldum sje tapaður, líklega ekki minna en 300

þús. kr. í sjálfu sjer er ekki hægt að segja, að þetta sje neitt sjerlega stórkostlegt, og varasjóður verslunarinnar ber þetta tap vel, en rjett sýnist að vera ekki að halda þessum stóru upphæðum á pappírnum, heldur gera öll þessi gömlu viðskifti upp.

Útistandandi skuldir tóbakseinkasölunnar um síðustu áramót voru kr. 71.554. Þessi viðskifti eru ekki jafnfyrnd eins og hin, en þó mun óhætt að fullyrða, að aldrei náist inn nærri helmingur af þessu.

Þá kemur steinolíuverslunin. Hún hefir þá sjerstöðu, að þar er um verslun að ræða, sem enn er í gangi. Þar er því ekki aðeins að ræða um útistandandi skuldir, heldur og um rekstur verslunarinnar. Skuldir hennar eru (aurum slept):

Skuldir í árslok 1925

Skuldir í

árslok 1926

Athugasemd

Reykjavík

112.343

132.601

Hækkun um 20.000

Akureyri

}296.886

170.204

} Lækkun um 20.000

Siglufjörður

104.66/

Seyðisfj.

258.918

301.315

Hækkun um 42.000

Eyrarb. Ö. Þ.

7.568

6.886

— S.P.J.

9.159

13.051

Vestm.eyjar

50.785

66.671

Hækkun um 16.000

Hafnarfj.

19.748

35.423

Hækkun um 16.000

Ísafjörður

24.881

72.005

Hækkun um 48.000

Samtals

780.288

902.823

Hækkun 122.535

Skuldirnar hafa hækkað hvorki meira nje minna en um liðlega 122½ þúsund krónur á árinu, og þar á meðal um 42000 hjá því útibúinu, sem varhugaverðast var áður. Að vísu hefir skuld reikningshaldarans sjálfs lækkað, að minsta kosti á pappírnum, um h. u. b. 15 þús., en hún er þó enn afarmikil, og þegar skuldaupphæð útibúsins í heild hefir hækkað svo gífurlega, má segja, að ekki hafi snúist til lagfæringar á árinu þar eystra. Því miður var ekki hægt að bera saman, hvar hækkanirnar liggja helst, en þó veit jeg að minsta kosti um einn viðskiftamann, sem í fyrra skuldaði mikið, og mjög er hæpið að geti staðið í skilum, en hefir samt hækkað skuld sína um mörg þúsund kr. á árinu. Þetta er náttúrlega alveg óafsakanlegt.

Reynt hefir verið að athuga með aðstoð kunnugra manna, hvernig skuldir verslunarinnar væru. Sú áætlun er auðvitað ekki nema mjög lausleg. En svo hefir talist til, að tapast muni:

Reykjavík um

42000 kr.

Ísafjörður um

24000 —

Vestmannaeyjar …………… um

15000 —

Eyrarbakki um

10000 —

Hafnarfjörður um

5000 —

Seyðisfjörður um

90000 —

Siglufjörður um

44000 —

Akureyri um

70000 —

Samtals um 300000 kr.

Áætlun þessi er, eins og jeg sagði, aðeins lausleg, en hætt er þó við því, því miður, að hún reynist fremur of lág en of há. Reynslan ein getur úr því skorið með vissu.

Þessi skýrsla um væntanleg töp steinolíuverslunarinnar er hjer ekki sett af neinni löngun til þess að lasta þá, sem með þessi mál hafa farið, heldur til þess að færa ástæður fyrir niðurlagsorðum tillögunnar, að framvegis verði gætt varúðar um útlán.

Það er einmitt sú hætta, sem því fylgir að láta landið reka þessa verslun, að gerðar eru meiri kröfur til hennar um útlán í vondu árferði en hægt mundi vera að gera til einstakra manna. Þeir, sem versluninni stjórna, ráða ekki við, og áður en varir getur verslunin tapað stórfje. Það er því áreiðanlega ekki óþarft, að Alþingi sýni eindreginn vilja sinn í þessu efni og styðji með áhrifavaldi sínu þá forstjórn verslunarinnar, sem sýna vildi fulla gætni um útlánin.