14.05.1927
Neðri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í D-deild Alþingistíðinda. (3388)

129. mál, verslanir ríkisins

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er engin ástæða til annars af hálfu stjórnarinnar en taka þessari till. vel. Jeg get lýst yfir því, að það mun reynt að uppfylla þær kröfur, sem hún gerir, ef hún verður samþ. hjer. Að því er snertir fyrsta lið till., um áfengisverslunina, þá veit jeg ekki betur en það sje siður þar að gera upp bækur verslunarinnar 1. jan., en það er víða siður að halda bókunum opnum 2–3 fyrstu mánuði ársins. En þetta gerir það að verkum, að það sýnist minna útistandandi, þegar reikningunum er haldið opnum. Forstjóri verslunarinnar segir, að á fyrsta ársfjórðungnum komi inn mikið af þeim skuldum, sem útistandandi eru um áramót. Ef sú regla yrði upp tekin að taka við innborgunum frá liðnu ári fyrstu mánuði ársins, þá yrði minna reikningslega útistandandi. Þessi verslun veitir læknum þriggja mánaða gjaldfrest, en út sölunum tveggja mánaða. En af því leiðir, að það, sem sent er út á síðasta ársfjórðungnum, hlýtur að standa í skuld við áramót.

Þá vil jeg spyrja hv. frsm. (MJ), hvort hann eða nefndin telji vínanda undir lyf. Vitaskuld ætlast löggjafinn til þess, að vínandi sje aðeins notaður sem lyf, en jeg vil biðja um skýringu á því, hvort hv. nefnd ætlast til þess, að greint sje á milli þessara lyfja og annara.

Þá mintist hv. frsm. á skuld eins læknis og gat þess, að hann væri ekki embættislæknir. í tilefni af þessu vil jeg upplýsa það, að þessi skuld stafar frá þeim tíma, er hann var embættislæknir.

Viðvíkjandi 2. liðnum, að gerð verði upp til fullnustu viðskifti eldri landsverslunarinnar og tóbakseinkasölunnar, skal jeg geta þess, að verið er á hverju ári að innheimta þessar skuldir, eftir því sem fært þykir. En þetta eru slæmar skuldir, sem orðnar eru eftir, og verður því að fara með lagi að þessu. Það er ekki hægt að heimta þær allar inn í einu, heldur hefir við suma verið samið um árlegar afborganir. Sumar skuldirnar standa líka inni í dánar- og þrotabúum, og verður því að bíða eftir skiftum.

Að því er snertir 3. lið till., um steinolíuverslunina, þá skal jeg geta þess, að hún mun nú eiga um 100 þús. kr. í varasjóði. Þótt mönnum þyki háar upphæðir útistandandi, þá er þess að gæta, að það er erfitt að neita um lán í þessum tilgangi, sjerstaklega þegar það hefir sýnt sig, að sama sem ekkert af steinolíu er flutt inn af öðrum, þótt ekki sje nú einkasala á steinolíu, svo sem kunnugt er. En eigi að síður er það sjálfsagt að gæta allrar varúðar við útlánin, og mun framkvæmdarstjórinn hafa haft það hugfast. En það er ekki gott fyrir hann að koma í veg fyrir lán útibúanna.

Að því er snertir skuldirnar á Seyðisfirði, þá er mjer kunnugt um, að þar hefir verið tekið veð fyrir stærstu skuldinni, og hún hefir lækkað á síðasta ári, og lítur út fyrir, að hún muni einnig minka á þessu ári.