14.05.1927
Neðri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (3390)

129. mál, verslanir ríkisins

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vil benda á það, sem hv. frsm. (MJ) drap á, að það virðast hafa verið allmikil mistök á útlánum steinolíuverslunarinnar á hinum ýmsu stöðum. Það er enginn að kenna forstjóranum um þetta; það leiðir af svona fyrirkomulagi. En það er undarlegt, að á Austurlandi, þar sem miklu minni olía er notuð en á Vesturlandi, skuli skuldirnar vera ferfaldar og oft sjö- til áttfaldar á við það, sem þær eru á Vesturlandi. Þetta er ófært, því að það eru skilamennirnir, sem verða að borga fyrir vanskilamennina. Flestir þessir menn selja sína síld að haustinu, en reikningum þeirra við landsverslun haldið opnum fram í febrúar og marsmánuð, og þó hafa þeir ekki lokið olíuskuldinni.

Eftir því sem jeg veit best, er það t. d. svo á Ísafirði, að þar er heimtuð trygging af bönkunum, ef hætta virðist á, að útgerðarmenn standi ekki í skilum. Nú er það undarlegt, að þessu skuli sjerstaklega hafa verið beitt við Vestfirðinga, og þeir hafa sennilega ekki betri ástæður til þess að greiða skuldir sínar heldur en Austfirðingar eða aðrir.

Jeg get heldur ekki látið vera að minnast á, út af þessum skuldalista, sem nefndin hefir fengið, að mjer finst óviðkunnanlegt, að útibússtjórar landsverslunarinnar skuldi stórar upphæðir, eins og t. d. á sjer stað um einn þeirra, sem skuldar versluninni nálægt 100 þús. kr. Jeg get ekki betur sjeð en að slíkur maður hafi fyrirgert svo trausti sínu, að það sje beinlínis skylda forstjóra landsverslunar að skifta þar um útibússtjóra. Það er líka vitanlegt, að þessi maður hefir varið fje, sem hann átti að gæta og ábyrgjast, í sinn eigin atvinnurekstur.

Annars er er mjer kunnugt um, að einhverjir menn eystra hafa ekki þóst skulda það mikið, sem reikningur landsverslunarútibúsins þar ber með sjer. Það væri því sjálfsagt, að verslunin taki upp þá reglu, sem víða tíðkast, að heimta af útibúunum, að kvittanir skuldunauta fylgi eða viðurkenningar þeirra fyrir því, að skuldin sje rjett talin hjá útibússtjóra.

Að lokum vildi jeg aðeins segja það. að mjer finst óviðkunnanlegt að sjá í þessum skuldalista skuldir þrotabúa, sem færðar eru ár frá ári. Þær upphæðir eru vitanlega tapaðar og ættu því að strikast út. Að láta þær standa í reikningnum, gefur ranga hugmynd um afkomu landsverslunar.