14.05.1927
Neðri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í D-deild Alþingistíðinda. (3391)

129. mál, verslanir ríkisins

Jón Guðnason:

Það hefir áður, í Sþ. í vetur, legið fyrir svipuð mál og fyrsti liður þeirrar till., sem hjer er til umr., en var þá felt. Verð jeg því að lýsa ánægju minni yfir því, að málið er tekið aftur upp, þótt í öðru formi sje og þó að hjer sje ekki jafnskorinort eða fast að kveðið og jeg hefði óskað.

Skuldalisti sá, er lesinn var upp áðan, sýnir nauðsyn till. þeirrar, er jeg mintist á, að feld hefði verið. Þess vegna er mjer óskiljanlegt, að sú till. skyldi ekki hafa þann byr, að hún næði samþykki Alþingis.

Annars væri ekki mikið um þessar skuldir að segja, ef hjer væri um nauðsynjavöru að ræða. En það er nú eitthvað annað. Hjer hefir verið lánuð vara, sem teljast verður með öllu óþörf, en neytt hefir verið upp á okkur.

Ýmsir ágætir læknar álíta sig geta gegnt störfum sínum til fullrar hlítar án áfengislyfja. En af skuldalistanum liggur jafnvel beint við að ætla, að minst af því áfengi, sem lánað hefir verið, muni hafa farið til lyfja eða lækninga, enda ber skýrsla hv. fjhn. það með sjer, að þessi áfengisverslun muni vera alt annað en glæsileg.

Nú vildi jeg óska í þessu sambandi að fá að heyra, hvað hæstv. stjórn hugsar sjer að gera, hvort hún ætlar að láta halda áfram að lána læknum og lyfjabúðum áfengi ótakmarkað, eins og verið hefir, eða hvort hún hugsi sjer að takmarka þessi áfengisútlán að einhverju leyti framvegis. Þessar misfellur, sem orðið hafa á útlánum áfengisverslunarinnar, eru svo miklar, að hjá einum viðskiftamanni hennar nemur skuldin tug þús. kr., og er sá maður þó ekki embættislæknir. Er og upplýst, að sumt af þessum útlánum muni vera tapað fje. Þessi útlán áfengisverslunarinnar eru því varhugaverðari sem læknarnir sjálfir eru ekki sammála um nauðsyn áfengislyfja, enda skiftir mjög í tvö horn um notkun lækna á áfengi til lyfja.

Jeg hefi í höndum skýrslu, gefna samkv. rannsókn, sem fór fram á útgáfu áfengislyfseðla hjá læknum í Reykjavík mánuðina maí og nóv. árið 1924. Þar eru taldir upp 31 læknir, sem þá voru starfandi í höfuðstað landsins. Af þeim voru 7, sem enga áfengisseðla höfðu látið úti, 10, sem látið höfðu af höndum 1–14 áfengisseðla, og 3, sem voru með í kringum 50 slíka lyfseðla hver. En þegar þessum læknum sleppir, koma um 10 læknar, sem gefið hafa út þetta frá 115 og upp í 471 áfengislyfseðla, og mikill sægur af þeim seðlum var upp á yfir 210 gr., en fram úr þeirri grammatölu má hver einstakur lyfjaskamtur ekki fara að öllum jafni, og er annað því að eins heimilað, að alveg sjerstaklega standi á.

Annaðhvort er nú, að mjög misjafnt hlýtur það að vera, sem læknar líta á nauðsyn áfengis til lyfja, eða þá að hjer er um stórkostlega misbrúkun að ræða, sem margir læknanna hafa gert sig seka í. Einkum hefir maður ástæðu til að álykta, að svo sje, þegar þess er gætt, að á meðal þeirra, sem örfáa eða enga áfengislyfseðla hafa látið úti, eru sumir bestu og frægustu læknar landsins. Mætti þar til nefna Guðmundana þrjá, Björnson, Hannesson og Magnússon, og af yngri læknum, sem mikið eru sóttir, þá Gunnlaug Claessen og Halldór Hansen. Þar sem allir þessir læknar, sem kunnugt er um, að haft hafa og hafa mikla aðsókn, gera svona lítið að því að nota áfengi til lyfja, og á hinn bóginn að á landsfundi lækna, þingi Læknafjelags Íslands, hefir verið samþ. áskorun til heilbrigðisstjórnarinnar um að fá áfengislyfseðlaleyfi lækna aftur numið úr lögum, þá virðist hjer ekki um þá nauðsynjavöru að ræða, sem ástæða sje til að lána út, og það eins takmarkalaust og gert hefir verið að undanförnu.

Það er ljóst af ræðu hv. frsm. (MJ), að hv. fjhn. telur þetta vandræðamál, sem þarfnist skjótrar og góðrar úrlausnar. Og þar sem hv. fjhn. hefir riðið á vaðið, þá ætti að vera hægra um vik fyrir hæstv. stjórn að framkvæma vilja þingsins. Mjer skilst, að þessar ráðstafanir til að hætta útlánum við verslanir ríkisins eigi fyrst og fremst að hefjast við þá verslunina, sem að flestra dómi verslar með tóman óþarfa, og það óþarfa, sem er og getur orðið til bölvunar og spillingar í þjóðfjelaginu.

Annars verð jeg að segja það, að mjer þykir undarlegt, hvað hæstv. stjórn hefir verið róleg fyrir þessu og látið reka á reiðanum á meðan skuldirnar voru að safnast. Einkum finst mjer þó þetta stinga í stúf við kenningar þær, sem haldið hefir verið fram af stuðningsmönnum hæstv. stjórnar — íhaldsflokknum — sem hefir hampað því utan þings og innan, að öll ríkisverslun sje óheppileg og að ríkið megi ekki við því að binda fje sitt í slíkum rekstri. Það voru einmitt þessir sömu menn, sem feldu niður tóbakseinkasölu ríkisins, verslun, sem jafnvel hæstv. atvrh. (MG) kvað hafa uppfylt sínar bestu vonir. Þó feldi stjórnarflokkurinn hana niður og hjelt því fram, að ríkissjóður mætti ekki festa fje sitt í henni. Þess vegna undrar mig, að frá þessum sama flokki og stjórn hans skuli engin óánægja heyrast um rekstur áfengisverslunar ríkisins, og er þó ástandið svo, að verslunin á útistandandi mörg hundruð þús. kr., og hjá einstökum læknum svo að skiftir þúsundum. Væri hjer um verslun með einhverja nauðsynjavöru að ræða, þá væri minna að segja. En þar sem eingöngu er um óþarfa varning að ræða, og það slæman varning, sem bæði veldur og getur valdið heilsu- og efnatjóni einstaklinganna, þá er undarlegt, að íhaldsflokkurinn og hæstv. stjórn skuli hafa gengið þegjandi fram hjá því, að fje ríkissjóðs er fest í þessum ríkisrekstri, eins og raun hefir orðið á. Og jeg vil segja, að það sje raunalegt, að á sama tíma og tóbakseinkasalan er afnumin, sem hæstv. atvrh. (MG) gaf þó svo góðan vitnisburð, sem jeg áður sagði, skuli rekin í bannlandi verslun með áfengi fyrir ríkisfje, og henni auk þess hagað svo, að líkindi eru til, að mikið af hinum stórmiklu útistandandi skuldum hennar tapist.

Að svo mæltu vildi jeg geta þess í sambandi við 1. lið till., að þó að ekki yrði gengið lengra en svo, að lyfjabúðir fengju einhvern mjög takmarkaðan gjaldfrest hjá áfengisverslun ríkisins, þá ætti þó a. m. k. að taka fyrir það með öllu að veita einstökum læknum nokkurn gjaldfrest á áfengi. Þeir myndu þá e. t. v. nota dálítið minna af því, sumir hverjir, og verð jeg að álíta það alveg óhætt, þar sem sumir okkar bestu og frægustu lækna nota lítið eða jafnvel alls ekki neitt áfengi til lyfja.