14.05.1927
Neðri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (3392)

129. mál, verslanir ríkisins

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það eru aðeins örfá orð til hv. þm. Dal. (JG). Hann getur ekki sannað neitt með margra ára gömlum upplýsingum, sem hann kom með, að læknar misnoti þann rjett, sem þeir hafa til þess að gefa út áfengislyfseðla. Síðan hefir ný reglugerð verið sett og eftirlitið miklu strangara en áður var.

Þá verð jeg að mótmæla því, að stjórnin eða íhaldsflokkurinn hafi ekkert gert til þess að draga úr því, að lánað væri jafnóspart við verslanir ríkisins eins og átt hefir sjer stað. Og þar sem einn maður úr flokknum hefir nú í dag sagt, að það væri fyrir tilmæli stjórnarinnar, að hv. fjhn. hefði tekið þetta mál til rannsóknar, þá verð jeg að segja, að menn, sem þannig haga orðum sínum eins og hv. þm. Dal. (JG), sjeu ekki vandir að virðingu sinni.

Það er rjett, að það er nokkuð misjafnt, sem læknir líta á notkun áfengis til lyfja. En á meðan læknar eru ekki á einu máli um að taka það út úr lyfjaskrá, verður ekki hægt að taka þennan rjett af læknunum, sem þeir hafa til þess að gefa út áfengislyfseðla. En hitt er reynt, að ganga svo frá þessu, að það verði ekki misnotað.

Um áfengismálið hefir annars verið rætt svo mikið á þessu þingi, að tæplega er ástæða til að bæta miklu við það. Það er alkunnugt, að Spánarvínunum var þröngvað að oss, og þar sem vjer getum alls ekki af fjárhagsástæðum sagt þeim samningi upp við Spánverja, sem nú gildir, er ekkert ráð vænna en fara að eins og Bandaríkjamenn gerðu, þegar Englendingar lögðu háan toll á te. Þeir hættu að drekka te. Það besta, sem við getum gert, er að drekka ekki vínin. Og það væri miklu sæmra að fara þannig að. Þetta ætti hv. þm. Dal. (JG) að athuga, og heldur berjast fyrir bindindi, og helst ganga í bindindi sjálfur, en ekki að reyna að nota þetta mál til pólitískra árása á andstæðingana, því að hann er ekkert síður sekur í þessu máli en aðrir, sem hann er að reyna að kasta steini að.

Annars virðist mjer það lítil sanngirni í garð stjórnarinnar að segja, að hún vilji ekkert gera í þessu máli, þegar hún hefir lýst því yfir, að hún ætli að taka till. til greina.

Út af því, sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) sagði um útibússtjóra landsverslunarinnar, að þeir hefðu reynst misjafnlega hæfir, þá er ekki nema sjálfsagt að taka það til athugunar og skifta þá um mann, ef ástæða er til þess.