14.05.1927
Neðri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í D-deild Alþingistíðinda. (3393)

129. mál, verslanir ríkisins

Pjetur Ottesen:

Jeg ætla mjer ekki að tala langt mál, enda geri jeg ráð fyrir því, að tillaga sú, sem hjer liggur fyrir, verði samþ. í þessari till. er farið fram á það eitt, sem nauðsynlegt er og sjálfsagt að gera, og að því sje undið sem allra fyrst.

Í 1. lið till. er það skýrt tekið fram, að alls engan gjaldfrest má veita á neinum vínum öðrum en þeim, sem tekin eru upp í lyfjaskrá lækna og heimilt er, samkv. lögunum um aðflutningsbann á áfengi, að nota sem lyf. En jafnframt er það skýrt tekið fram, að gjaldfrest á lyfjum skuli jafnan sem stystan veita.

Þó að vitað sje um, að sumir af læknum landsins hafi misnotað læknisleyfi sitt að því leyti, að láta af hendi vín til nautnar, og hætt við, að freistingin til þess sje ekki með öllu útdauð enn, þá er ekki rjett, frá sjónarmiði bann- og bindindismanna, að stuðla að því, að nokkuð sje gert, sem talist geti viðurkenning á því, að eigi skuli altaf og undir öllum kringumstæðum skoða þann vínanda, sem tekinn er upp í lyfjaskrá, sem önnur lyf.

Þess vegna er rjett að láta, hvað þetta snertir, eitt og hið sama gilda um öll lyf.

Um hitt má altaf deila, hvort nauðsynlegt sje að taka vínanda upp í lyfjaskrá lækna, og innan sjálfrar læknastjettarinnar eru allskiftar skoðanir um þetta. En eins og kunnugt er, hefir þetta ákvæði verið þyrnir í augum bannmanna frá fyrstu tíð, en um það á ekki við að vera að fjölyrða frekar hjer, því að málið liggur ekki fyrir á þeim grundvelli.

Eins og minst hefir verið á, var till. ekki alls fyrir löngu til umræðu í Sþ., sem meðal annars fór fram á það að banna öll útlán á víni og vínanda úr áfengisverslun ríkisins. En af þeirri ástæðu, sem jeg áður nefndi, og að vitað var um, að sú till., sem nú liggur fyrir, mundi koma fram, náði þetta ekki fram að ganga.

Hvað þá till. snertir að öðru leyti, sem borin var fram í Sþ., þá stendur hún ekki í svo nánu sambandi við þetta mál, að það sje í rauninni heimilt eftir þingsköpum að ræða um efni hennar nú. En hv. þm. Dal. (JG) fór samt að draga hana inn í þessar umræður, sýnilega í þeim vesæla tilgangi annarsvegar að reyna að kasta skugga á núverandi stjórn og Íhaldsflokkinn, en hinsvegar til að leiða athygli að því, hvað hann sjálfur væri hreinn og flekklaus.

Hv. þm. fór að blanda tóbaksverslun ríkisins, sem hann sagði, að hefði verið augasteinn og framtíðarvon þjóðarinnar, inn í þetta mál og kasta hnútum að núverandi stjórn og Íhaldsflokknum fyrir að hafa beitt sjer fyrir því, að hún var lögð niður. Jeg held, að reynslan sje nú búin að sýna, að tóbaksverslun ríkisins var enginn sjerstakur bjargvættur fyrir þjóðina.

Hv. þm. Dal. (JG) þótti ekki gott samræmi í því hjá Íhaldsflokknum að vilja leggja niður einkasölu á tóbaki, en halda uppi ríkisverslun á áfengi. Það kemur mjög skýrt fram í þessum ummælum hv. þm., að hann læst ekki skilja eða skilur ekki, Hvaða ástæður það voru, sem lágu til grundvallar fyrir því, að eigi varð hjá því komist á sínum tíma að ganga að samningunum við Spánverja, og að þessar sömu ástæður eru þess enn valdandi, að það er ekki hægt að segja upp þessum samningum, nje á það hættandi að gera nokkrar þær ráðstafanir, sem komið gætu í bága við þá.

Jeg get sagt hv. þm. Dal. það, að jeg þyrfti ekki neina brýningu eða eggjun, hvorki frá þessum hv. þm. eða öðrum, til þess að ganga fast fram í því að ljetta af okkur þessu oki, ef jeg sæi, að þær kringumstæður væru fyrir hendi, sem gerðu okkur það kleift. Jeg vænti þess, að ef hv. þm. í raun og veru getur gert sjer nokkra grein fyrir tilfinningum þeirra manna, sem eru andstæðir víni og vínnautn, þá sje honum það ljóst, hvað það hefir verið með ljúfu geði, er þessir menn neyddust til að greiða atkv. með því, að slík skerðing á aðflutningsbanninu væri gerð með samningunum við Spánverja.

Það er þess vegna harla hart og leiðinlegt, þegar verið er að núa gömlum, góðum og einlægum bann- og bindindismönnum því um nasir, að það sje áhugaleysi þeirra og kæruleysi að kenna, að svona er komið fyrst og fremst, og að þessu oki er ekki ljett af okkur.

Jeg vil svo að lokum segja hv. þm. Dal. (JG) það, að það skiftir miklu, þegar bornar eru fram till. um eitthvert mál, hverjir það eru, sem að þeim till. standa. Jeg held, að það þurfi ekki að gera sjer neitt glæsilegar vonir um mikinn árangur af starfi þeirra manna fyrir bindindis- og bannmálið, sem eru sjálfir með opið ginið í hvert skifti, sem tappi er tekinn úr Spánarvínsflösku, og mæna gráðugum girndaraugum á hvern dropa, sem fer ofan í aðra.