13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í D-deild Alþingistíðinda. (3409)

102. mál, rannsókn á hafnarbótum og vörnum gegn snjóflóðum

Frsm. (Árni Jónsson*):

Allshn. hefir haft þetta mál til meðferðar og orðið ásátt um að mæla með því.

Viðvíkjandi sjálfri till. hefi jeg engu við að bæta þá ítarlegu grg., sem henni fylgir. En um síðari lið till. hefir nefndin átt tal við vitamálastjóra, og er hann vonlítill um árangur af því starfi, sem þar er talað um.

Við fyrri lið till. hefir nefndin borið fram brtt., að komið verði á hafnarbótum á Vopnafirði í Norður-Múlasýslu, og er það samkv. óskum, sem komu fram á þingmálafundi þar eystra síðastliðið haust, og raunar oftar.

Það er líkt á komið með Vopnafjörð eins og Hnífsdal, að höfnin þar er ekki góð og liggur að nokkru leyti fyrir opnu hafi. Það hefir lengi verið áhugamál manna á Vopnafirði að bæta höfnina og koma þar helst upp hafskipabryggju. Var mál þetta vel undirbúið, áætlun gerð, og hefði að líkindum komist í framkvæmd, ef stríðið hefði ekki skollið á. Nú hefir áætlun verið gerð að nýju, og kostnaður við að gera bátabryggju er talið að muni nema eins miklu og kostað hefði að gera hafskipabryggju fyrir stríð. Það er líka svo, að hæpið þykir, að hægt verði að koma þessari bátabryggju svo fyrir, að hún komi að fullu gagni. S. l. haust lá t. d. skip inni á aðalhöfninni, en vegna brims og storma var ekki hægt að athafna sig við það, vegna þess að bátarnir gátu ekki komist að því.

Með þessari till. er því tilætlunin, að láta rannsaka, hvort ekki sje hægt, án alt of mikils kostnaðar, að gera varnargarð úr skeri, er liggur í miðju sundinu milli Skipshólmans og lands. Jeg get að svo stöddu ekkert sagt um þann kostnað, því að vitamálastjóri gat ekkert um hann vitað. En tækist þetta, er jeg viss um, að það yrði til mikilla hagsbóta fyrir sveitirnar, sem sækja þangað í kaupstað, auk þess sem útgerð mundi vaxa þar til stórra muna. Fyrir 20–30 árum var Vopnafjörður einhver stærsti útgerðarstaðurinn á Austurlandi, en hefir hnignað, meðal annars vegna þess að höfnin er svo slæm og þykir ekki tryggileg fyrir vjelbátaútgerð.

Að endingu skal jeg geta þess, að vitamálastjóri hefir tekið vel í þetta, og vænti jeg því, að hv. þdm. geti fallist á till., með þeirri breytingu, er nefndin leggur til.

*) Ræðuhandr. óyfirlesið.