26.02.1927
Neðri deild: 16. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (3427)

42. mál, milliþinganefndir fyrir tolla- og skattalöggjöf

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Það getur vel verið, að þess verði langt að bíða, að við fáum verðfasta peninga og fast verðlag. Jeg skal engu spá um það. En jeg held hinu fram, að meðan ekki eru meiri líkur en nú til þess, að verðlag haldist óbreytt, sje ekki tímabært að reikna út, hvernig ná megi hæfilegum tekjum með einhverju skattakerfi. Við vitum ekki, hve margar krónur ríkið þarf í framtíðinni, nje hve mikið þjóðin getur borgað.

Mjer skilst nú á hv. flm. (HStef), að það, sem hann á við með hreyfanlegum tollum, sje aðeins það fyrirkomulag, sem nú er. Tollar eru einmitt nú hreyfanlegir með lögum. Alþingi getur breytt tollaákvæðum hvenær sem það vill, og sú heimild hefir verið notuð óspart. Það þarf alls enga milliþinganefnd til þess að útvega landinu þetta bjargráð.

Hv. flm. (HStef) spurði, hvaða áhrif við gætum haft á verndartollastefnuna í heiminum. Jeg treysti mjer ekki að meta, hvaða áhrif það kynni að geta haft, hvort hann legðist með eða móti. En það er sagt, að muni um mannsliðið, og jeg býst við, að það taki einnig til þessa hv. þm. Það hefir nú orðið æðimikið ofan á þessi síðustu erfiðleikaár að gjalda líku líkt í tollamálum, og jeg býst ekki við, að það mundi vekja neitt hneyskli í heiminum, þótt við gerðum það. En okkur hefir tekist hingað til að sleppa að miklu leyti við þau bönd, sem af verndartollum leiða, og því tel jeg varhugavert að þjóta nú upp og segja: Við tökum upp verndartollastefnu, af því að slíkt viðgengst annarsstaðar. Ef við erum svo miklir menn að geta rekið utanríkispólitík á þessu sviði, þá held jeg, að okkur henti best að bekkjast ekki við neinn að fyrrabragði í tollamálum, a. m. k. ekki þar sem við þurfum að hafa opinn markað fyrir afurðir okkar.

Mjer þótti hv. 4. þm. Reykv. (HjV) taka skynsamlega í málið. Hann sjer algert vonleysi fyrir sína skattamálastefnu, þótt skipuð sje milliþinganefnd, og þótt hann tali borginmannlega um lagfæringar, ef stjórninni yrði steypt, þá er hann nógu vel að sjer til þess að vita, að það er ekki stjórnin, sem stendur í vegi fyrir stefnu socialista, heldur kjósendur landsins. Hann verður því að byrja á því að steypa öllum þorra kjósenda.