26.02.1927
Neðri deild: 16. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (3429)

42. mál, milliþinganefndir fyrir tolla- og skattalöggjöf

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg hjelt, að jeg mundi ekki þurfa að segja það tvisvar sinnum, svo að hv. þm. Str. (TrÞ) skildi, af hverju jeg tel ekki þörf á milliþinganefnd í skattamálum. Jeg held, að flokkarnir hafi hver um sig nokkuð ákveðna skoðun um það, hvernig skattamálum skuli skipað, svo að skoðanaleysi standi ekki í vegi fyrir breytingu á löggjöfinni um þessi mál. Jeg geri því ráð fyrir, ef íhaldinu verður steypt, að þá verði hægt að koma á frjálslyndari löggjöf í þessu efni, þó að besta fyrirkomulaginu fáist að vísu ekki framgengt fyr en jafnaðarmenn komast í meiri hluta. Því má bæta við, að þótt milliþinganefnd væri kosin nú, yrði hún ekki farin að starfa 1. júlí, þann dag, sem Framsóknarflokkurinn vill gera að kjördegi. Störf hennar gætu því ekki vakið umræður um málið fyrir kosningar.

Það virðist eðlilegast að líta svo á, að till. þessi sje borin fram í þeim tilgangi að svæfa málið við kosningar, enda skein út úr ummælum flm. (HStef), að hann ætlaðist til, að flokkarnir bræddu sig saman, nefndin yrði einskonar pólitískur grautarpottur, sem soðin væru saman í bæði íhöld deildarinnar.