26.02.1927
Neðri deild: 16. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í D-deild Alþingistíðinda. (3430)

42. mál, milliþinganefndir fyrir tolla- og skattalöggjöf

Flm. (Halldór Stefánsson):

Jeg hefi ekki ástæðu til að segja margt. Það var auðskilið á hv. 5. þm. Reykv. (HjV), að hann vill ekki ljá tillögunni fylgi. Hann vill ekki viðurkenna neina skoðun aðra en skoðun jafnaðarmanna. Þó að svo mætti skilja á honum, að ekki væri til nema ein allsherjarstefna, sönn og rjett, í þessu máli, skilst mjer, að hann eigi eftir að vinna það almenna samkomulag um þá stefnu. Það mátti heyra, að fyrir honum vakti, að það gæti verið kosningabeita, að þessi mál væru í sem mestri óreiðu. Hann um það. En jeg harma ekki svo mjög, þó að hann vilji skerast úr leik.

Hæstv. fjrh. (JÞ) þarf jeg engu að svara. Hann vjek ekki að svo mörgu. Þó hjelt hann því fram um hreyfanleik tollanna, að það væri ekkert nýtt, ef gera ætti það með lögum. Jú, það er rjett, en hefir því oft verið beitt? Jeg tel það hafa verið miklu rjettara að fara þá leið eingöngu 1924, að hækka tollana með gengisviðaukanum, ef tollkerfið hefði verið svo undirbygt, að það hefði verið hægt. Það sýnir sig best á hvaða ringulreið þetta er, að bæði skuli vera þungatollur og verðtollur á sömu vörunni. Jeg hefi vikið að þessu áður og lýst, hvað það ylli miklu hringli og væri auk þess fyrirhafnarsamt og dýrt í framkvæmdinni.

Þá skildist mjer svo, að hæstv. fjrh. (JÞ) vildi láta skína í, að það væri lítið lið að mjer í þessu máli, og yfirleitt lítið lið að mínu fylgi hvar sem væri. (Forsrh. JÞ: Alls ekki!). — Um það skal jeg ekki deila, en jeg tel það meira máli skifta, til hverra hluta maður leggur lið. Hann hugsar sjer, hæstv. fjrh., að við gengjum fram fyrir aðrar þjóðir og segðum við þær: Gætið að ykkur. Nú ætlum við að fara að leggja á verndartolla. Mjer fjnst nú satt að segja, að það væri ekki alt of mikil lægni, að gera það á þann hátt. Jeg held, að við gerðum það þegjandi og hljóðalaust.

Annars sje jeg ekki, að það sje til nokkurs að fara að deila hjer um stefnur í tollmálum. Tillagan er borin fram til þess að fá gaumgæfna athugun á þessum málum, ef ske kynni, að það gæti hjálpað okkur að því takmarki að finna þá leið, sem oss hentar best.