26.02.1927
Neðri deild: 16. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í D-deild Alþingistíðinda. (3432)

42. mál, milliþinganefndir fyrir tolla- og skattalöggjöf

Jakob Möller:

Hv. flm. (HStef) hefir tvísagt, að það hefði verið betra 1924, að við hefðum hallast að því að hækka þágildandi tolla, mjer skilst með gengisviðauka, heldur en að lögleiða verðtoll. Þetta kemur mjer undarlega fyrir, af því að við tveir vorum saman í minni hluta fjhn. um að vera á móti gengisviðauka, og fjhn. komst að þeirri niðurstöðu samróma, að það væri ógjörningur að hækka gengisviðaukann. Annars er ekki í sambandi við þetta mál ástæða til að fara út í þetta. Ef milliþinganefnd verður skipuð, verður þetta að sjálfsögðu tekið til íhugunar.

Hv. þm. Str. (TrÞ) var að tala um að koma skatta- og tollalöggjöfinni í frjálslynt horf. Ummælum hans má ekki vera ómótmælt í sambandi við einkasölu og verndartolla. Jeg þekki ekki þá frjálslyndu stjórnmálastefnu í nokkru landi, sem mundi ljá þessu fylgi.