24.03.1927
Sameinað þing: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í D-deild Alþingistíðinda. (3445)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það hefir verið vitnað í brjef háskólaráðsins um þetta mál frá í fyrra og sagt, að það væri í ósamræmi við brjef það, sem nú liggur fyrir. Jeg hefi ekki sjeð það brjef, en skólameistarinn á Akureyri hefir sent mjer útdrátt úr því, og jeg man ekki betur en að háskólaráðið segi þar, að það hafi ekkert á móti stúdentsprófi við Akureyrarskóla, ef það geti samrýmst gildandi lögum. Jeg býst við, að hægt verði að útvega brjefið, svo að úr þessu verði skorið. En mig minnir mjög fastlega, að þessi varnagli sje þar sleginn. Jeg stend því í þeirri meiningu, að munurinn sje ekki eins mikill á brjefunum og hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) vill láta í veðri vaka. Annars er auðvitað æskilegast að ná afriti af brjefinu, til þess að hægt sje að sjá, hvort háskólaráðið hefir snúist í þessu máli. En jeg geng út frá, að svo sje ekki.

Það hefir verið tekið fram, að lögfræðingar væru ekki sammála um skilninginn á 17. gr. háskólalaganna. Það getur vel verið, og skal jeg ekki neita því. En sá aðilinn, er hjer ræður, er auðvitað háskólaráðið. Það er því ekki til neins að vera að deila um þetta. Þegar háskólaráðið hefir sagt, að það geti ekki tekið við stúdentum nema frá mentaskólanum, þá er ekki hægt að neyða það til þess, nema með því að breyta lögunum.

Þá er því haldið fram, að námið sje hið sama fyrir norðan og hjer. Það getur verið, en það vantar bara sannanir. Jeg hefi átt tal við mann, sem tekið hefir þátt í kenslunni þar. Hann er nú kominn hingað, en hefir verið kennari við Akureyrarskólann. Og hann dró ekki dul á það, að kenslan væri töluvert öðruvísi. Einnig tók hann það fram, að það væri galli, að próf skuli ekki haldin að vorinu til. Var hann mjög óánægður yfir þessu og sagðist hafa gert það að skilyrði fyrir kenslu sinni þar, að vorpróf yrðu haldin, en samt var það ekki gert. Mál þetta mun hafa verið borið undir hann, er það var sent til mentaskólans, og mun hann ekki hafa mælt með því. Mjer dettur ekki í hug að kveða upp neinn dóm yfir kenslunni fyrir norðan. Til þess hefi jeg ekki nægilega þekkingu á skólanum. En jeg get skilið það, að þeir, sem taka við stúdentunum, vilji hafa tryggingu fyrir því, að námið sje ekki lakara en við þann skóla, sem nú hefir rjett samkvæmt lögum til að útskrifa stúdenta, sem háskólinn er skyldur að taka við.

Sumir hv. þm. hafa efast um, að rektor mentaskólans væri hjer rjettur aðili. En jeg efa ekki, að stjórnin hafi haft rjett til að leita álits hans, þar sem skóli sá, er hann veitir forstöðu, hefir um langan tíma haft rjett til að útskrifa stúdenta, og þess vegna ætti hann að vera færastur um að segja, hvaða skilyrði beri að setja í þessum efnum.

Hvað afstöðu rektors hins almenna mentaskóla snertir, þá er það satt, að álit hans er enginn hæstarjettardómur í þessu máli. Öðru máli er að gegna um álit háskólaráðs Íslands. Undir það verða menn að beygja sig. Jeg er því fullkomlega samþykkur, að þeir nemendur, sem koma utan af landi og verða að ganga undir próf hjá öðrum kennurum en þeim, sem þeir hafa notið kenslu hjá, standi að nokkru ver að vígi en þeir, sem prófaðir eru af þeim, sem hafa kent þeim. En samt sem áður verður því ekki neitað, að það eru fjöldamargrir utanskólanemendur, sem tekið hafa próf við hinn almenna mentaskóla hjer, án þess að það hafi komið að nokkurri sök. Það má vera, að það hafi munað 2–3 stigum, sem þeir hafi fengið lægra en ella myndi orðið hafa, en það hefir eigi verið meira en svo, að fjöldamargir hafa tekið þannig próf, enda ætti það að vera vorkunnarlaust fyrir menn, sem eru sæmilega að sjer. Jeg verð því að mæla með dagskrártill. hv. þm. Ak. (BL), og skal benda á það, að ef till. verður feld, þá tel jeg vafasamt, hvort heimilt er að veita þessum mönnum styrk til þess að fara hingað suður og taka hjer stúdentspróf. Jeg skal og taka það fram, að þar sem í till. stendur ferðakostnaður, þá lít jeg svo á, að þá sje einnig átt við uppihald og dvalarkostnað, á meðan á prófinu stendur. Jeg skil ekki, að það geti verið mönnum neitt keppikefli að samþykkja till., sem ríkisstjórnin getur ekki borið neina ábyrgð á, að hlutaðeigendur, þ. e. háskólaráðið, telji löglega. Og það er óneitanlega lítil forsjá í því að halda svo fast fram þessari þáltill., þegar þess er gætt, að eigi er að vita nema háskólaráðið neiti að skrá þessa menn sem háskólaborgara. Jeg get því ekki sjeð, að það sje betra að haga málinu eins og farið er fram á í þáltill., heldur en að nemendur fái styrk til að fara hingað suður til þess að taka próf hjer. Annað mál væri það, ef skólinn væri búinn að sýna það með því að senda hingað stúdentaefni, sem væru vel undirbúin, að hann væri fær um að útskrifa stúdenta. En háskólinn getur eins og nú stendur með sanni sagt, að hann viti ekki, hvernig kenslunni er háttað þar eða hvernig fyrirkomulag skólans er.

Hv. fyrri þm. Eyf. (EÁ) fór með 17. gr. háskólalaganna, en gleymdi, að það stendur þar „annan lærðan skóla honum jafngildan“. En eins og menn vita, þá er Akureyrarskólinn ekki lærður skóli, og því ná þessi orð 17. gr. ekki til hans. Þessu heldur háskólaráðið einnig fram. Þá sagði hv. þm. (EÁ), að Alþingi hefði viðurkent þessa framhaldsnámsdeild með styrkveitingu til hennar. Þetta er að vísu rjett, en þar fyrir hefir þingið aldrei látið í ljós, að þessi deild ætti að útskrifa stúdenta, enda væri þá engin þörf á að fara fram á slíkt nú.

Jeg veit, að þessi þáltill. er borin fram af góðri meiningu, með það fyrir augum að gera mönnum námið ódýrara og þar með auðsóttara, en leið sú, sem farin er með því að veita mönnum styrk til þess að taka próf hjer syðra, leiðir til sama árangurs.

Þá mintist hv. fyrri þm. Eyf. (EÁ) á það, að menn hefðu hjer áður getað tekið stúdentspróf annarsstaðar en í skólum, og hann nefndi sem dæmi þess ákveðinn mann, en þeir menn þurftu að taka sjerstakt próf við þá háskóla, sem þeir ætluðu að stunda nám við.

Hv. þm. (EÁ) talaði um blekkingar í máli þessu frá minni hendi. Það er hinn mesti misskilningur hjá hv. þm. Hann spurði, hvort hinn almenni mentaskóli hefði einkarjett til þess að útskrifa stúdenta. Það hefir skólinn samkvæmt löggjöfinni, en hver sem er getur undirbúið menn og látið þá taka próf við skólann.