24.03.1927
Sameinað þing: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í D-deild Alþingistíðinda. (3450)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Jón Guðnason:

Mjer kemur einkennilega fyrir sjónir mótstaða háskólaráðsins gegn því, að stúdentar frá Akureyrarskóla fái inngöngu í háskólann. Jeg man eftir því, að á stúdentsárum mínum kom stúdent frá Ameríku hingað til landsins, og var hann umyrðalaust innritaður í háskólann. Hygg jeg þó, að kennarar háskólans hafi ekki haft neina aðstöðu til þess að tryggja sjer það, að skóli sá, sem stúdentinn útskrifaðist úr, væri svo líkur hinum almenna mentaskóla hjer sem þeir virðast nú álíta, að slíkur skóli þurfi að vera. Mjer skildist þá, að háskólinn ætlaði að hafa frjálslegt fyrirkomulag á því að veita inngöngu stúdentum frá öðrum háskólum, og er þá ekki ástæða til þess að gera strangari kröfur til innlendra manna en erlendra, nema síður sje. Það er auðvelt að hafa eftirlit með því, að stúdentspróf frá Akureyrarskóla jafngildi stúdentsprófi frá mentaskólanum, með því að hafa prófdómendur skipaða af stjórnarráðinu.

Hæstv. atvrh. (MG) lagði áherslu á það, að stúdentarnir fengju ekki inngöngu, í háskólann nema trygging væri fyrir því, að þeir hefðu notið samskonar kenslu og í mentaskólanum. En mjer virðist fyrirkomulag kenslunnar ekki vera aðalatriðið; aðaltryggingin liggur í prófinu sjálfu. Jeg fæ ekki betur sjeð en ef þessi þáltill. verður samþ. og stjórnarráðið semur reglugerð um stúdentspróf við Akureyrarskóla, þá geti háskólaráðið með góðri samvisku tekið við stúdentunum, ekki síður en stúdentum frá skóla í Ameríku, sem það veit engin deili á. Í þessu áliti háskólaráðsins, sem hv. 2. þm. Reykv. (MJ) las upp, lýsir það sjer, að háskólaráðið hefir alls ekki viljað taka þá afstöðu að lýsa því yfir, að háskólalögin færu í bága við rjettindi stúdenta að norðan. Enda leiðir það af sjálfu sjer, þar sem háskólinn hefir gengið inn á að taka á móti stúdent frá erlendum skóla og leyft honum að ganga undir embættispróf, þá er eins auðvelt að veita skólanum á Akureyri sama rjett, þar sem það er innan handar að tryggja það, að þekking og þroski stúdentanna þaðan sje nægilegur. Jeg sje t. d. ekkert á móti því, að háskólaráðið fengi að ráða skipun annars prófdómarans, ef það vildi.

Ef háskólaráðið sýndi skólanum á Akureyri sama velvilja sem hinum útlenda skóla, þá sje jeg ekki neitt því til fyrirstöðu að samþykkja þessa þál. Jeg mun því óhikað greiða henni atkvæði í trausti þess, að háskólaráðið sjái sig um hönd í þessu máli.