24.03.1927
Sameinað þing: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í D-deild Alþingistíðinda. (3453)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) sagði þessa þáltill. óþarfa og bygði það á því, að stúdentar frá Akureyrarskólanum ættu heimting á upptöku hjer í háskólann. En hræddur er jeg um, að flestir skilji það ekki svo, því að annars væri ekki um neitt að deila, og gætu þá þeir, sem að till. standa, fallist á að taka hana aftur. En mjer hefir nú heyrst annað á sumum þeirra.

Viðvíkjandi hinni rökstuddu dagskrá, þá er það rjettilega tekið fram, að hún er ekki nægileg skipun um að borga þennan ferðastyrk. En jeg áleit, að hún gefi fyllilega í skyn, að stjórninni sje óhætt að greiða fjeð, því að það muni samþ. síðar. Það var þetta, sem jeg átti við í dag, þegar jeg sagði, að stjórnin mundi sjá sjer fært að greiða skólasveinunum að norðan ferðastyrk hingað suður, ef dagskrártill. yrði samþ.

Hv. þm. Dal. (JG) sagði, að á sinni háskólatíð hefði það komið fyrir, að ungum manni, sem var stúdent frá einhverjum háskóla í Ameríku, hefði verið veitt upptaka í háskólann hjer. Þetta getur vel verið rjett og í fullu samræmi við 17. gr. háskólalaganna, því að þar stendur skýrum stöfum, að upptöku í háskólann megi veita stúdendum frá hinum almenna mentaskóla og öðrum lærðum skóla. Ekkert tiltekið, að sá lærði skóli geti ekki verið erlendur, svo að dæmið um þennan Ameríkupilt er því ekki hliðstætt því, sem hjer er um að ræða.

Út af því, sem jeg sagði áður um umsögn háskólans um þetta mál í fyrra, þá vil jeg benda á, að þá sló hann þann varnagla, er hann var spurður um, hvort hann mundi veita upptöku stúdentum þeim, sem útskrifaðir væru á Akureyri, að hann mundi gera það, „svo framarlega sem það verður ekki talið koma í bága við háskólalögin“. Nú hefir háskólinn rannsakað þetta, og afstaða hans til málsins er svar háskólaráðsins, sem vitnað hefir verið í í dag, og þar er tekið fram, að háskólinn geti ekki tekið við stúdentunum að norðan vegna þess, að það komi í bága við þá löggjöf, sem háskólinn starfar undir. Það má kannske segja, að það sje vingjarnlegri tónn í svari háskólaráðsins í fyrra en nú, en efni brjefanna verður ekki skilið nema á einn veg.

Það er rjett hjá hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), að Alþingi er yfir háskólanum, en til þess að breyta þessu, sem um er deilt, þarf sjerstök lög. Í 3. gr. háskólalaganna stendur, að háskólinn ráði einn öllum sínum málum. Það er því ekki hægt að kúga hann til að taka við þeim stúdentum, sem hann telur sig ekki skyldugan til, samkv. lögunum. Að aðrir háskólar taki pilta þessa, má vel vera, þó held jeg, að óþarft sje að leggja svo mjög mikið upp úr því. En út úr landinu mundu þeir varla leita nema með styrk. En um utanfararstyrk háskólastúdenta fer svo, að hann er veittur eftir till. þriggja manna: rektors mentaskólans, manns, sem til er nefndur af háskólaráðinu, og manns, sem tilnefndur er af stúdentaráðinu, svo að eftir þessu held jeg, að ekki mundi blása byrlega fyrir þessum fátæku piltum að fá meðmæli um styrk til utanfarar. Bláfátækum piltum gagnar lítið á mentabraut sinni stúdentstitill frá gagnfræðaskólanum á Akureyri, ef þeir geta á engan háskóla komist, nema þá ef þeir hugsa ekki til frekara náms, og þá er titillinn ekki mikils virði. Ef við viljum gera eitthvað fyrir þessa fátæku pilta, þá eigum við að veita þeim þá hjálp, sem að gagni kemur, og það gerum við best með því að gera þeim kleift að taka stúdentspróf hjer syðra og opna þeim þannig leið að öllum háskólum á Norðurlöndum, og þó að víðar vildu þeir leita fyrir sjer.

Viðvíkjandi því, að það sje erfiðara fyrir utanskólasveina að taka próf, þá má það til sanns vegar færa, að aðstaða þeirra er dálítið verri en þeirra, sem lesið hafa við skólann og taka próf hjá sínum kennurum. En vitanlega veltur það mest á undirbúningnum. Það er enginn það gáfnaljós, að hann geti ekki fallið í gegn við próf, ef hann er illa undirbúinn. Aftur á móti getur hver greindur maður með sæmilegri kenslu tekið próf, þótt það sje hjá öðrum en kennara sínum.

Því hefir verið spáð, að háskólinn mundi beygja sig. Um það skal jeg ekkert segja, þótt jeg hinsvegar búist fastlega við, að svo verði ekki, þar sem hann nú hefir athugað málið og komist að þessari niðurstöðu.

Samkv. 3. gr. er háskólinn einn um að ákvarða, hvort hann skuli veita þessum stúdentum viðtöku eða ekki, og með tilvitnun í 17. gr. segir háskólaráðið, að hjer í landi sje enginn lærður skóli hliðstæður hinum almenna mentaskóla.

Það hefir verið bent á að fara þá leið í þessu máli að láta dómstólana skera úr þessum ágreiningi, en jeg fyrir mitt leyti sje ekki, hvernig þetta ætti að vera dómstólamál. Hvernig ætti t. d. hæstirjettur að dæma um það, hvort stúdentarnir frá Akureyrarskólanum hefðu fengið þann undirbúning, sem ætlast er til, að lærður skóli veiti?

Hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hafði eftir mjer, að kenslan á Akureyri væri öðruvísi en hjer. En það sagði jeg ekki, heldur hitt, að kenslan væri að því leyti öðruvísi þar en hjer, að norðurfrá væru engin vorpróf haldin, sem svaraði til bekkjarprófanna hjer syðra. En það þekkja allir, sem í skóla hafa verið, að það er dálítið annað að vita af því allan veturinn, að ekki verði sloppið við prófið að lokum. Þessi árlegu próf eru því mikið aðhald fyrir nemendur, og síður hætta á, að þeir slái slöku við námið. Auk þess eru próf þessi „praktisk“, því að með þeim geta nemendur losað sig við sumar námsgreinir jafnóðum og þeir taka bekkjaprófin og þurfa svo ekki að ganga upp í þeim greinum, er þeir taka stúdentspróf.

Fyrir stjórninni liggja engar upplýsingar um það, hvernig kenslunni hefir verið hagað norðurfrá. Og í greinargerð þáltill. stendur ekkert annað en að sótt er um rjettindi handa þeim skólasveinum að taka stúdentspróf á Akureyri, „sem notið hafa framhaldsnáms í gagnfræðaskólanum á Akureyri, sem er hliðstætt námi í hinum almenna mentaskóla í Reykjavík“. Nú hefi jeg fengið að vita í samtali við einn af kennurum Akureyrarskólans, að kenslan í framhaldsdeildinni væri ekki með sama sniði og hjer, sjerstaklega þó að því leyti, að þar hafa engin vorpróf verið haldin.