24.03.1927
Sameinað þing: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í D-deild Alþingistíðinda. (3455)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Flm. (Jónas Kristjánsson):

Jeg get ekki orða bundist um það, að mjer finst mál þetta komið í mesta óefni. Jeg skal enn taka það fram, að það hefir aldrei verið meiningin fyrir mjer, að þessir piltar ættu að sleppa með ljettara próf heldur en tíðkast hjer syðra. Frá upphafi hefi jeg litið á kostnaðarhlið þessa máls, vegna fátækra pilta, sem þarna eiga hlut að máli.

Jeg vil segja, að það sje óheppileg leið, sem sumir vilja upp taka, að segja háskólanum stríð á hendur, því hvar kemur það niður annarsstaðar en á piltunum, sem meiningin var að bjarga. Með því tiltæki er málefnum stúdentaefnanna stofnað í hið mesta óefni. Það skynsamlegasta, sem jeg held þá, að hægt sje að gera, er það, að við flm. till. slökum til að þessu sinni og sættum okkur við, að þessum fátæku piltum verði veittur styrkur til þess að standast kostnað þann, sem það bakar þeim að taka prófið hjer syðra. Með því að piltarnir taki prófið hjer, er hrundið því ámæli, að við ætlumst til, að þeir komist ljettara frá prófinu fyrir norðan. Því að vitanlega hefir með framhaldsnáminu þar aldrei verið annar tilgangur en sá, að gera fátækum piltum hægara fyrir að stunda skólanám sitt, af því að ódýrara er að lifa á Akureyri en hjer. Og hvar standa svo þessir ungu og efnilegu piltar í haust, ef háskólinn neitar að veita þeim upptöku í deildir sínar? Ekki er hægt að búast við, að þeir hafi greiðan aðgang að erlendum skólum. Jeg get vel skilið, að háskólinn vilji ekki lækka prófkröfur, sem gerðar er til þeirra, sem háskólanám ætla að stunda, því það gæti hæglega rýrt álit háskólans í augum erlendra háskóla og dregið ef til vill úr stúdentaskiftum þeim, sem hafa verið upp tekin á síðari árum.

Þess vegna vil jeg mælast til við hv. meðflytjendur mína, að þeir fallist á dagskrártill., þar sem farið er fram á að veita piltum ferðastyrk hingað suður. Jeg held, að þessi leið sje hin eina viturlega í þessu máli. Jeg fyrir mitt leyti lýsi því yfir, að jeg mun greiða rökstuddu dagskránni atkvæði mitt, til þess að forðast þau vandræði, sem annars geta af þessu hlotist. Ef prófið gengur vel — en jeg hygg, að nemendur geti talsverðu bætt við sig enn þá, — þá býst jeg við, að stórum steini sje rutt úr vegi skólans á Akureyri fyrir því, að fá máli sínu framgengt. En ef þetta mál er sótt af of miklu kappi, hygg jeg, að það leiði ekki neitt gott af sjer.