24.03.1927
Sameinað þing: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (3456)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Árni Jónsson:

Jeg skal ekki blanda mjer í deilur þær, sem hafa orðið um þetta mál, aðeins með fáeinum orðum leitast við að gera grein fyrir minni afstöðu til þess.

Það, sem er hjer sjerstaklega deilt um, er afstaða háskólaráðsins til þessa máls. Verð jeg að lýsa því yfir fyrir mitt leyti, að jeg sje ekki, hvernig verður komist fram hjá yfirlýsingu háskólaráðsins í þessu efni. Það tjáir ekki að vitna í það, að ýmsir lögfræðingar utan háskólaráðsins líti þannig á, að það hafi ekki rjett til að meina stúdentum þeim, sem útskrifast samkv. þessari þáltill., inntöku í háskólann. Þeir hafa þar ekki valdið. Háskólaráðið eitt hefur lyklavöld þessarar stofnunar og hindrar eða veitir inntöku í háskólann. Nú er það svo um þessa menn, sem hjer er um að ræða, að þeir munu sennilega flestir leggja stund á háskólanám hjer í Reykjavík. Og jeg vil þá beina því til hv. flm., hvort þeir hafi athugað nógu vel, hvernig þessir menn líta á málið, eins og því er nú komið. Það hefur komið fram í umræðunum, að svar háskólaráðsins frá í fyrra hefur verið skilið á nokkuð annan veg en svar háskólaráðsins í ár. Jeg geri ráð fyrir, að þeir, sem ganga erinda Akureyrarskólans, byggi skoðun sína um það, að háskólinn muni veita Akureyrarstúdentum inntöku, á svörum háskólaráðsins í fyrra. En nú hefir komið skýlaus yfirlýsing háskólans um það, að hann taki ekki þetta próf gilt til inntöku í háskólann. Mjer finst, að það sje ekki rjett að fara að hvetja þessa nemendur fyrir norðan til þess að taka próf þar, með háskólanám fyrir augum að hausti, með því að samþ. till. þá, sem hjer liggur fyrir. Mjer finst þeim enginn greiði gerður, heldur beinlínis ógreiði, vegna þess að jeg geri ekki ráð fyrir, að háskólaráðið muni breyta afstöðu í þessu efni.

Þessu vildi jeg skjóta til hv. flutningsmanna til athugunar.

Því hefir verið haldið fram, að erlendir háskólar mundu líta öðru vísi á þetta. Má vera sumstaðar; en jeg hika ekki við að fullyrða, að hjer í nágrannalöndunum, þar sem yfirleitt eru sett samskonar skilyrði til stúdentsprófs og hjer, mundu háskólarnir ekki veita viðtöku þeim nemendum, sem háskólinn hjer heima synjaði viðtöku. Svo að þeir yrðu þá að leita eitthvað lengra. Mjer finst valdið í þessu efni einmitt vera háskólans, þvert á móti því, sem hv. 2. þm. Eyf. (BSt) heldur fram. Og þessu hæstarjettarvaldi háskólans verður alls ekki hrundið með þessari þáltill., heldur verður beinlínis að breyta lögum háskólans, ef þessu á að fá framgengt.

Með þessu er vitanlega ekki sagt, að nemendur frá Akureyri verði ver undirbúnir en nemendur hjeðan úr mentaskólanum. Jeg þekki þetta frá gamalli tíð, því að sjálfur er jeg einn af þeim fyrstu, sem komu hingað frá Akureyrarskóla. Þá var töluverður rígur á milli, en yfirleitt var það álitið, að norðanpiltar væru ekki lakar undirbúnir en þeir, sem lærðu hjer syðra. Og jeg fyrir mitt leyti vil ekki efa það fyrirfram, að þeir sjeu lakar undirbúnir en nemendur hjer.

Það er vitanlegt, að margir góðir menn hafa útskrifast áður úr heimaskólum, og er búið að vitna í það. En það kemur ekki þessu máli við, þó vitnað sje í það, að t. d. Jón Sigurðsson hafi útskrifast hjá presti, því að jeg hefi ekki heyrt neinar till. um að heimta af háskólanum að veita skilyrðislaust inntöku öllum, sem einhver mentamaður úti um landið kann að gefa vottorð um, að hann sje fær um að takast upp í háskólann.

Jeg get heldur ekki sjeð, að norðanpiltar sæti neitt illri meðferð, þótt rökstudda dagskráin yrði samþ. Mjer finst það þvert á móti mjög góð meðferð að greiða þeim bæði allan ferðakostnað og dvalarkostnað úr ríkissjóði. Og þegar tillit er tekið til þess, að þeir hafa notið þeirra hlunninda, sem alment eru skoðuð sem aðalmeðmæli með Akureyrarskóla, þ. e. a. s. ódýrari dvalar á Akureyri þrjá undanfarna vetur, þá skil jeg ekki, hvernig menn geta talað um vonda meðferð á þessum mönnum.

Hv. þm. Dal. (JG) sagði, að aðaltrygging háskólans lægi í sjálfu prófinu, og er það auðvitað alveg rjett. En það má einnig segja, að aðaltrygging fyrir nemendurna sjálfa liggi í prófinu, að þeir taki ekki próf fyrir norðan, þar sem háskólinn ekki viðurkennir það gilt. Jeg vil í þessu sambandi benda formælendum Akureyrarskólans á það, að bestu meðmæli með stofnun mentaskóla á Akureyri væri það, að þessir nemendur, sem hafa verið undirbúnir fyrir norðan, kæmu hingað og stæðust próf sitt, að minsta kosti á borð við utanskólanemendur alment. Það má ekki ætlast til, að þeir taki eins gott próf og nemendur, sem hjer læra; því að eins og menn þekkja, kemur þar margt til greina, en sjerstaklega það, að betra er að ganga undir próf hjá kunnugum kennurum.

Eins og sakir nú standa, vill háskólinn ekki viðurkenna próf frá Akureyrarskóla. Það er ómögulegt að hrinda þeim úrskurði, nema með því að breyta háskólalögunum og með því að stofna sjerstakan mentaskóla á Akureyri. En hvorugt þetta liggur fyrir. Þess vegna er farinn þessi millivegur, sem hv. þm. Ak. (BL) bendir til með þeirri dagskrártill., sem hann ber fram.

Eins og hv. aðalflm. (JKr) gat um, stendur það sem aðalástæða í greinargerð fyrir till., að þetta sje kostnaðaratriði. En ef þessi rökstudda dagskrá verður nú samþ., þá er þetta aðalatriði úr sögunni. Hinsvegar, ef menn hafa trú á kenslunni á Akureyri, sem jeg efa ekki, að forgöngumenn Akureyrarskólans gera, þá ættu þeir ekki að óttast það, þótt nemendur þaðan gangi undir próf hjer. Og ef þeir virkilega stæðust það próf „með glans“, þá er það langsterkustu meðmæli með stofnun mentaskóla á Akureyri, sem gætu fengist.

Mjer finst þess vegna, að ef fylgismenn Akureyrarskólans slá hendinni algerlega móti þessari miðlunartill., sem hjer er komin fram, þá vilji þeir tefla málinu í mikla tvísýnu fyrir nemendur skólans; því að það er alveg óvíst, að prófið fyrir norðan verði til nokkurs gagns fyrir þá. Ef þeir vilja fella þessa till., þá verð jeg að segja, að mjer virðist þeir sækja sitt mál af meira kappi en forsjá.