24.03.1927
Sameinað þing: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (3459)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mjer heyrðist hv. 1. þm. Rang. (KlJ) kalla það krókaleið í þessu máli, að fengin var umsögn rektors mentaskólans um þáltill. Þetta kemur mjer mjög undarlega fyrir, sjerstaklega þar sem í till. standa ummæli um, að þetta framhaldsnám svari til náms í lærdómsdeild mentaskólans. Jeg tel það ekki nema sjálfsagt að fá álit mentaskólans, ekki síst þegar það er athugað, að einn þeirra, sem tekið hafa þátt í kenslunni fyrir norðan, er nú kennari við mentaskólann.

Að öðru leyti vildi jeg segja það út af orðum hv. þm. Str. (TrÞ), að mjer skilst hann gera háskólaráðinu rangt til, þegar hann heldur fram, að það hafi komið óhreint fram í þessu máli. (TrÞ: Það sagði jeg ekki). Eitthvað var hv. þm. að tala um krókaleið og rangindi af hálfu háskólaráðsins. Til þess að sýna hv. þm., að hann fer ekki með rjett mál, vil jeg benda honum á þá margnefndu 17. grein háskólalaganna, þar sem stendur, að stúdentar frá hinum almenna mentaskóla eigi kröfu á að komast í háskólann; og um aðra skóla verður að fara eftir áliti háskólaráðsins, sem samkv. 3. gr. þessara laga hefir úrskurðarvaldið í öllum þeim málum, sem snerta háskólann, samkv. reglugerð, sem konungur setur.