05.04.1927
Efri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (3472)

106. mál, skipun opinberra nefnda

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Þessi þáltill. á þskj. 288 er, eins og í greinargerð segir, flutt samkvæmt áskorun fjölmenns fundar kvenkjósenda hjer í bæ, og þar stendur að baki mikill meiri hl., ef ekki allar kosningabærar konur þessa lands. Till. fer fram á, að færar konur — jeg undirstrika það, færar konur — fái sæti í hinum ýmsu nefndum, sem skipaðar kunna að verða í ýms mikilsvarðandi mál, t. d. öll fræðslumál, heilbrigðismál, byggingarmál o. s. frv., eins og sjá má í till. Till. er eins gætilega orðuð og mest má vera. Með vilja eru nefndar aðeins færar konur. Það er ekki verið að fara fram á að draga nein völd úr höndum karlmanna yfir til kvenna, heldur aðeins verið að gera tilraun til þess, að sjerþekking þeirra fái að njóta sín á ýmsum sviðum. Þetta má vel verða til þess, að málin verði athuguð frá fleiri hliðum en verið hefir, því „betur sjá augu en auga“.

Till. nefnir nokkrar nefndir, sem konur ættu að fá sæti í. Það eru fyrst nefndir, er fjalla um fræðslumál. Ekki alls fyrir löngu var skipuð milliþinganefnd um þau mál, og þar átti engin kona sæti. Þó eru fræðslumálin þau mál, sem taka til allra kvenna ekki síður en karla. Það er engu síður áhugamál mæðra en feðra, að fræðsla barna og unglinga sje í lagi. Og þar var ekki hægt að afsaka sig með því, að ekki væri nóg til af færum konum, því að til eru margar konur, sem hafa kynt sjer skólamál ekki lakar en karlar.

Þá eru heilbrigðismál nefnd í till. Það liggur í augum uppi, að þar sem landið á því láni að fagna að eiga fjölmenna stjett ungra og áhugasamra hjúkrunarkvenna, er hlotið hafa hinn besta undirbúning undir starf sitt, að gott er að geta notið aðstoðar þeirra og sjerþekkingar í heilbrigðismálum.

Þá eru byggingarmál. Ríkið lætur árlega reisa margar byggingar, skóla, sjúkrahús, sjúkraskýli o. s. frv. Um það er snertir tilhögun innanhúss eru augu kvenna að mörgu leyti glöggskygnari en augu karla. Konur hafa meiri þekkingu og reynslu en karlar í því, sem spara má innanhúss í húsrúmi og öðru. Af þeirri ástæðu er sjálfsagt að skipa konur í byggingarnefndir.

Þá eru fátækramál, atvinnumál og tollmál. Þessi 3 mál má taka öll í einu. Í þessi mál hafa oft verið skipaðar nefndir, að vísu helst á stríðsárunum, en það getur altaf komið fyrir, að þörf gerist að skipa þær að nýju. Þá virðist mjer sjálfsagt, að konur fái þar sæti. Þessi mál varða konur ekki síður en karla, og jafnvel varða þau frekar konur. Því að hver fer með það, sem bóndinn aflar, frekar en kona hans? Hún verður því að þekkja bæði verðlag og vörugæði o. s. frv. En tollmálin eru einmitt undirstaða verðs á öllum nauðsynjavörum. — Loks eru nefndar móttökunefndir við hátíðleg tækifæri og undirbúningsnefndir. Hjer er átt við þau tækifæri, þegar íslenska þjóðin minnist mikilla viðburða úr sögu sinni, eins og t. d. 1000 ára afmælis Alþingis, einnig konungsheimsóknir o. s. frv. Þá efnir þjóðin öll til hátíðahalda, og er ekki sanngjarnt, að aðeins helmingur hennar, karlarnir, setji sinn svip á þau.

Þótt í slíkar nefndir hafi að undanförnu auðvitað verið skipaðir þeir karlmenn, sem hafa mentun og kunnáttu og þekkingu til þess að bera, hefir það þó þrásinnis komið í ljós, að vantað hefir þá íhlutun, sem konur einar hafa getað lagt til. Ef sú íhlutun hefði átt sjer stað, hefði margt farið betur úr hendi og óefað sparast tugir þúsunda. Þetta þykir ef til vill nokkuð djarflega mælt, en jeg hika ekki við að segja það. — Á landsfundi kvenna, sem háður var á Akureyri s. 1. sumar, var beinlínis samþ. till. í þá átt, að konur fengju sæti í öllum nefndum sem skipaðar verða til þess að undirbúa og starfa að væntanlegum hátíðahöldum árið 1930. Jeg býst við, að konur sjeu þegar búnar að bera ráð síu saman um, hvað þær geti lagt til þeirra mála. Eins og kunnugt er, var á síðasta þingi skipuð nefnd, er undirbúa skal væntanleg hátíðahöld árið 1930. En mjer er í öllu falli ekki kunnugt um árangur af þeirri nefndarskipun.

Jeg ætlaði ekki að vera langorð um þáltill. þessa. Jeg vil aðeins taka það fram, að þessi till. er ekki fram borin sem byltingartilraun eða til þess að trana konum fram. Jeg þarf ekki að afsaka framkomu þeirra í því efni, síðan þær fengu jafnrjetti fyrir nærfelt 12 árum. Tillagan er sprottin af þeirri rjettmætu tilfinningu, að rjettindum fylgi skyldur — og af því, að við konur, sem erum fullur helmingur þjóðarinnar, höfum hug og vilja á að láta þá reynslu og þekkingu, sem við höfum til brunns að bera, koma fram, þar sem lögð eru á ráð um úrlausn á opinberum málum.

Eins og jeg sagði áðan, eru liðin nærfelt 12 ár síðan konur fengu jafnan kosningarrjett á við karlmenn. Í öll þessi ár — jeg bið deildarmenn að taka eftir því — hafa þær verið að bíða eftir því að verða kallaðar til samvinnu í fleiru en því einu að ganga að kjörborðinu. Konum er farið að leiðast að vera aðeins þar taldar jafnokar karlmannanna; og það getur verið, að þær fari að trjenast upp á því að neyta rjettar síns á svo alt of takmörkuðu sviði. Konur hafa beðið eftir því, að karlmennirnir kölluðu þær til samvinnu um vandamál þjóðarinnar. Sú leið hefir reynst árangurslaus til þessa, og þess vegna er tillaga þessa fram borin. Ef karlmenn hefðu á þessum nærfelt 12 liðnum árum skilið það rjettilega — og þá sjerstaklega þingmenn — hvað fólgið var í rjettarbótum vorum frá 1915, þá mundum vjer ekki hafa þurft að bera þessa till. fram. — Konum er það áhugamál, að karlmenn skilji, að þær óska jafnrjettis, en engra sjerrjettinda. Sjerrjettindi eru stundum nefnd í sambandi við jafnrjetti; en þau sjerrjettindi, sem jeg hefi heyrt þannig nefnd, met jeg að litlu. Jafnrjetti til starfa, jafnrjetti til þess að láta krafta sína og reynslu og þekkingu njóta sín í samvinnu við karlmennina og ásamt þeim, finna ýmsar leiðir til heillavænlegra úrlausna þeirra mála, sem varða allar konur og karla þessa lands. Það er þetta, sem tillagan fer fram á. Það er þetta, sem jeg vil biðja alla hv. deildarmenn að athuga og taka ekki sem glamur, heldur taka það sem vilja helmings þjóðarinnar, sem nú lætur sjer ekki lengur lynda orðin tóm, heldur vill sjá það á borði, sem löngu er samþ. í orði.

Jeg vona því fastlega, að hv. deild sjái sjer fært að samþ. till., eins og hún liggur fyrir.