05.04.1927
Efri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (3476)

106. mál, skipun opinberra nefnda

Jón Baldvinsson:

Það er misskilningur hjá hv. flm. (IHB), að hjer sje ekki um bylting að ræða. Vitanlega er þetta endir og árjetting þeirrar byltingar, er varð, þegar konur fengu jafnrjetti við karla; það er fullkomnun þeirrar byltingar. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg sje mótfallinn till., hún er eðlileg krafa, og jeg er hlyntur þeirri hugsun, sem í henni felst. Jeg játa að vísu, að jeg er ekki allskostar ánægður með orðalag till., finst þar heimtað meira af ríkisstjórninni heldur en hún getur sjeð um, t. d. að konur verði líka skipaðar í milliþinganefndir. Flestar slíkar nefndir eru skipaðar með hlutfallskosningum, og þar ráða flokkarnir um.

En jeg skil vel, hvað felst í þessari till., þrátt fyrir orðalagið, og það er hægt að samþykkja hana, og stjórnin getur tekið hana til greina, að svo miklu leyti sem hún hefir vald til á hverjum tíma að fylgja fram því, er hún kveður á um. En í till. felst í raun og vera það, að konur eru að „demonstrera“ gegn því tómlæti, er þeim er sýnt, og vilja láta til sín taka landsins gagn og nauðsynjar.

Það er skiljanlegt, að konur sjeu ekki enn á öllum sviðum komnar jafnfætis körlum, svo stutt sem er síðan þær fengu jafnrjetti til þess að taka þátt í opinberum málum. Það er ekki við því að búast, að jafnstór hópur kvenna sem karla sje fær til að taka þátt í þeim. En það kemur kannske seinna með næstu kynslóðum.

Hitt þótti mjer undarlegt, hve háttv. ráðh. (JÞ) tók kuldalega í till.; ef til vill hefir hann sjeð vandkvæðin á framkvæmd hennar samkvæmt orðalaginu.

Út af því, sem háttv. flm. (IHB) sagði um konur, og hve fram hjá þeim væri gengið um opinber störf, þá finst mjer það aðeins hálfur sannleikur. Þar sem jeg þekki til er það ekki gert svo mjög. Í Alþýðuflokknum veit jeg ekki betur en konur taki þátt í öllum fjelagsstörfum. Og jeg vil gleðja háttv. 2. landsk. (IHB) með því, að við flokksbræður mínir höfum miklar mætur á starfsemi þeirra, því að þær sýna bæði dugnað, áhuga og samviskusemi eigi síður en karlar, nema fremur sje, enda hafa og konur verið í kjöri til kosninga af hálfu okkar flokks, nú síðast við landskjör í sumar sem leið tvær konur á lista Alþýðuflokksins. Eiga þessi ummæli háttv. flm. (IHB) því alls ekki heima um alla flokka jafnt, þótt þetta kunni að ganga allstirðlega í íhaldsflokknum.

En sem sagt, það er hægt að taka til greina þann anda, sem í till. felst, og jeg mun greiða atkvæði með henni, en móti rökst. dagskrá háttv. 1. þm. Eyf. (EÁ).

Það er ekki nema gott eitt um það að segja, að konur komi inn í ýmsar opinberar nefndir til þess að hrófla og rumska dálítið við körlunum, sem storknaðir eru orðnir í starfi sínu, t. d. í hreppsnefndum o. s. frv. Þessi till. er nú að vísu ekki um það, strangt tekið, en það er alveg sama máli að gegna um þær og ýmsar þær nefndir, sem getið er í till. — Ef menn ekki einblína um of á óheppilegt orðalag tillögunnar, má með vitund af góðum vilja taka til greina þá frumhugsun, sem liggur í till. og þær ástæður, er háttv. flm. (IHB) hefir fært fyrir henni.