05.04.1927
Efri deild: 45. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í D-deild Alþingistíðinda. (3480)

106. mál, skipun opinberra nefnda

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Jeg verð fyrst að svara hv. 1. þm. Eyf. (EÁ). Hann talaði um, að jeg hefði farið með brigsl og áreitni í sinn garð. Sjálfur kvaðst hann hafa sneitt hjá þessháttar, enda vænti jeg slíks af honum. Það var ekki heldur ætlun mín að veitast að þessum hv. þm. persónulega, og hafi honum fundist jeg gera það, hefir afstaða hans til málsins valdið því. En jeg finn ekki ástæðu til að taka neitt aftur af því, sem jeg hefi sagt. Hann talaði um „verðmæti“ í ræðu sinni, sem jeg hefði ekki náð á pappírinn. Það má vel vera, að einhver verðmæti úr hans löngu ræðu hafi farið fram hjá mjer. En jeg reyndi að svara því, sem jeg náði, og fanst máli skifta.

Hv. þm. (EÁ) sagði, að jeg hefði gengið frá till. minni. Jeg mótmæli því. Það var ekki að hvika frá till., þótt jeg segði í sambandi við skipun milliþinga nefndar í landbúnaðarmálum, að jeg byggist ekki við, að kona yrði skipuð í þá nefnd, af því till. kæmi svo seint fram og í nefndinni yrðu ekki nema 3 menn, 2 skipaðir af Alþingi og 1 stjórnskipaður. Jeg hefi ekki búist við, að kona yrði skipuð í þá nefnd, enda þótt fær kona á því sviði geti verið til. Jeg sagði þetta því vitandi vits, en ekki að mjer yrði mismæli eða væri í nokkru að hvika frá till.

Þá talaði hv. þm. um, að 12 ár væri ekki langur tími á vissu skeiði mannsæfinnar, og vildi gefa í skyn, að farið væri að halla undan fæti fyrir mjer. Það skiftir nú reyndar ekki miklu máli hjer. Jeg tók fram, að nútíðin væri meir hraðfara en fortíðin, og því yrði að krefjast fljótari framkvæmda nú en fyrir mannsaldri síðan. Hv. þm. taldi farsælast, að breytingin kæmi smátt og smátt. Hjer er ekki á ferðinni neitt ofurkapp eða byltingakrafa. Það er ekki verið að reyna að hrinda karlmönnunum úr vegi, heldur mælst til friðsamlegrar samvinnu við þá.

Þá kannaðist hv. þm. (EÁ) við, að konur væru eins vel af guði gerðar og karlmenn og því jafnhæfar til nefndarstarfa. Hann kvaðst líka jafnan hafa staðið á verði um það, að konur fengju að njóta rjettinda sinna. Jeg skal nú ekki lengja umræðurnar með því að rekja þau afskifti hans, en satt að segja hefi jeg aldrei orðið vör við þá hlið málaflutnings hans. Hann benti á, að í fyrra hefði hann viljað losa konur við það að vera teknar nauðugar til nefndarstarfa, sem ekki voru við þeirra hæfi. Þetta hefir nú kannske ekki verið sprottið af vantrausti á konunum. En jeg gat þess þá, að ekki væri ástæða til að ætla, að konur yrði teknar nauðugar frá heimilum sínum til þessara hluta, ef þær ættu ekki heimangengt.

Loks taldi hv. þm. þinglegri leið að samþ. dagskrána heldur en till. Jeg er nú búin að láta í ljós skoðun mína um það. Auk þess get jeg bent á, að hæstv. ráðh. (MG) tók till. mjög vingjarnlega og ljet svo um mælt, að stjórnin sæi ekki neitt við það að athuga, að nefndir væru sumpart skipaðar konum, að því leyti sem stjórnin ætti um það íhlutunarrjett. Jeg er þakklát hæstv. atvrh. (MG) fyrir ummæli hans, því að hann tók mun sanngjarnlegar og hlýlegar undir málið en hæstv. forsrh. (JÞ, sem að vísu var ekki á móti því, en fór þó ekki um það sjerlega vingjarnlegum orðum.