25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í D-deild Alþingistíðinda. (3492)

71. mál, áfengisvarnir

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg ætla aðeins að segja fáein orð um tvo síðari tillöguliðina á þskj. 105. Fyrri liðurinn er um ráðstafanir til þess, að hætt verði að lána út vín úr áfengisverslun ríkisins. Hjer hlýtur að vera átt við annaðhvort hjeraðslækna landsins eða lyfjabúðir. Aðrir geta ekki fengið keypt áfengi, nema með því að borga strax. Jeg hugsa því, að hjer sje átt við greiðslufrest hjeraðslækna og lyfjabúða. Þessir aðilar hafa haft tveggja mánaða gjaldfrest, en útsölur úti um land þriggja mánaða gjaldfrest. Það ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að fyrirkomulaginu á útsölum úti um landið verði breytt þannig að þær hafi vínið í umboðssölu.

Það bætir ekki úr nema síður sje. En það er ekki hægt að skylda útsölumenn úti um land til að borga alt fyrirfram. Það mundi líka verða skoðað sem tilraun til þess að fara í kringum samninginn. En gjaldfrestur hjeraðslækna og lyfjabúða er ekki lengri en svo að tæpast er hægt að stytta hann nema því aðeins að nema hann alveg í burtu og heimta andvirðið þegar í stað. Gagnvart læknum og lyfjabúðum finst mjer örðugt að heimta þetta. Um læknana skal jeg taka það fram, að gjaldfrestur þeirra gildir ekki einungis um vín, heldur einnig um öll meðul, af því að læknar hafa ekki heimild til að láta úti vín nema eins og hver önnur lyf. Þess vegna gilda sömu reglur um hvorttveggja. Ef farið væri að gera greinarmun á þessu tvennu, er af hálfu þess opinbera verið að gefa í skyn, að læknar noti vínið á annan hátt en önnur lyf, en það er samkvæmt gildandi lögum ekki heimilt.

4. liður till. er um það, að birta skuli í Lögbirtingablaðinu skýrslu um það, hve mikið áfengi hver lyfjabúð og læknir hafi fengið á undangengnum þrem mánuðum. Jeg veit ekki, hvort hv. flm. er það ljóst, að þeim skýrslum, sem hjer er gert ráð fyrir að safna, er þegar safnað, og altaf er hægt að fá upplýsingar um þetta atriði hjá áfengisverslun ríkisins. Þetta er einmitt einn hluti af starfi áfengissölustjórans. Jeg get um þetta vísað til reglugerðar frá 1. júlí 1925. Það eina, sem nýtt er í till., er það, að skrána eigi að birta í Lögbirtingablaðinu þrisvar á ári. Það má vera, að ýmsum sýnist það mikils virði en jeg geri ekki mikið úr því. Aðalatriðið er, að haldnar sjeu skýrslur og skrár um þetta og að þeir, sem málið varðar, taki í taumana, ef misbrúkun á sjer stað. Nú, eftir gildandi reglum, er fastákveðið, hvað hver læknir má fá fyrir hvern íbúa síns læknishjeraðs. En ef hv. þm. þykir svo mikils um vert að fá skýrslurnar birtar í Lögbirtingablaðinu, er rjett af þeim að samþ. þennan lið. Aðeins vil jeg benda á, að vel er hægt að fá upplýsingar um áfengisnotkun lækna á annan hátt.