25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í D-deild Alþingistíðinda. (3494)

71. mál, áfengisvarnir

Ingvar Pálmason:

Jeg býst við, að það sje í óþökk stjórnarinnar, að jeg kvaddi mjer hljóðs. Mjer skildist það nefnilega á tóninum í hæstv. forsrh. (JÞ), að það væri, frá honum sjeð, ekkert þarfaverk, sem við háttv. þm. (JG) værum að vinna með því að halda uppi umr. um þáltill. þessa. Jeg sje mjer þó ekki fært að verða við þeim tilmælum hæstv. stjórnar að láta umræðurnar falla niður, enda þótt ekki virðist blása byrlega fyrir till. hjá henni.

Það kom berlega fram hjá hæstv. forsrh. (JÞ), að hann taldi það ekki aðeins óþarft, heldur beinlínis hættulegt, að samþykkja till. þessa. En svo sem gefur að skilja, lít jeg sem flm. öðruvísi á þetta mál. Og það get jeg sagt hæstv. ráðh., að það var ekki fyrir augnabliksákvörðun, að jeg gerðist flm.till. þessari, heldur var það að yfirlögðu ráði. Er jeg því ófáanlegur til þess að taka hana aftur, heldur þvert á móti vil jeg fá atkvgr. um hana í sameinuðu þingi.

Þá vil jeg víkja að ástæðum hæstv. forsrh. (JÞ) fyrir því, að tveir fyrstu liðir till. eigi ekki fram að ganga. Honum fórust svo orð, að við yrðum að láta standa við undanþáguna frá bannlögunum, sem veitt var 1922. Þar yrði engu um þokað. Jeg hygg jeg fari rjett með, að hæstv. forsrh., sem sæti átti á þinginu 1922, hafi ásamt fleirum þáverandi þingmönnum gefið út þá yfirlýsingu, að þessi undanþága væri veitt af nauðsyn, og að þess væri vænst, að við þyrftum sem skemst við þetta að búa. Jeg býst nú við, að honum, ásamt öllum, sem þessa yfirlýsingu gáfu, hafi verið þetta alvöruorð, og að hann líti svo á, að okkur beri að komast sem fyrst undan þessu oki.

1. liður till. okkar gengur í þá átt, að skora á stjórnina að leggja niður útsölu á Spánarvínum í kaupstöðum utan Reykjavíkur. Á þetta atriði lítur hæstv. ráðh. þannig, að nú sje það orðið samningsatriði, að útsölustaðirnir sjeu ekki færri, þó að það hafi ekki verið svo í upphafi. Um þetta er erfitt að deila fyrir þá, sem ekki eru lögfróðir. En jeg tel mig hafa rjett til þess að hafa mína skoðun á þessum hlutum, eins og hæstv. forsrh., og jeg lít svo á, að þar sem þetta hefir aldrei verið samningsatriði, þá sje það ekki heldur orðið það nú. Verð jeg því að telja, hættulaust, þó að lagðar sjeu niður útsölurnar, t. d. í Vestmannaeyjum og á Siglufirði, þar sem raddirnar eru háværastar um að losna við vínútsölur þessar. Fæ jeg ekki sjeð, að það gæti komið í bága við Spánarsamningana.

Nú stendur svo á, að Siglfirðingar hafa farið fram á, að dregið væri úr útsölunni hjá þeim meðal annars með því að láta ekki selja vín á laugardögum. En til þessa hefir stjórnin ekki viljað ganga inn á það. Auk þess hefði mátt draga úr sölunni á ýmsan annan hátt. En hjer er nefnilega sá galli á gjöf Njarðar, að það er freisting fyrir hæstv. forsrh., sem líka er fjármálaráðherra, að láta ekkert draga úr vínútsölunum, til þess að rýra sem minst tekjur ríkissjóðs af þeim, og jeg er einmitt þeirrar skoðunar, að það sje ein höfuðástæðan gegn því að leggja útsölur þessar niður. En þetta er ekki rjett, því að það er enginn skattur, sem þjóðinni er ver við en sá, sem gengur til áfengiskaupa.

Þá er 2. liður till., um að leita nú þegar nýrra samninga við Spánverja á bannlagagrundvelli. Þetta taldi hæstv. forsrh. mjög varhugavert og jafnvel hættulegt, sökum þess, að ef byrjað væri á þessu, þá væri Spánverjum gefið tilefni til að segja upp samningunum. Jafnframt gaf hann í skyn, að samningarnir væru gerðir okkar vegna, en ekki vegna Spánverja. Jeg skal ekki neita því, að við eigum mikið undir samningum þessum, en hinsvegar má geta þess, að síðan þeir voru gerðir hefir ekkert verið gert til þess að minka áhrif þau, sem Spánverjar geta haft á fiskmarkað okkar með tollaákvæðum hjá sjer. Þvert á móti hefir þeim, með sendingu „legátans“ verið aukið ásmegin til þess að halda okkur í þessari klípu.

Þegar nú þjóðin þykist hörðu beitt, finst mjer ekki nema eðlilegt, að reynt sje að rýmka til, og jeg verð að telja það harla undarlegt af hæstv. forsrh., sem jafnframt er utanríkisráðh., að halda því fram, að þegar við sjeum hörðu beittir, þá sje ekki annað fyrir en beygja sig. Slíkur hugsunarháttur hefir oft verið til hjer, og þegar hann hefir orðið ofan á, hefir okkur gengið illa að vinna okkur áfram. Þessar kenningar heyrðust líka oft, þegar við áttum í sjálfstæðisdeilunum við Dani, og hefðu þær orðið ofan á þá, myndum við enn þann dag í dag eiga að búa við sama stjórnarfyrirkomulag sem við höfðum um miðja 19. öld, ef ekki verra. En sem betur fór sáu góðir menn, að slíkur undirlægjuháttur var engri frjálsborinni þjóð samboðinn. Það var ekki Spánartollurinn, sem okkur var ógnað með þá, heldur var það önnur svipa, sem að okkur var reidd. En mjer er sama, hvort slík svipa er fljettum úr dönskum eða spönskum hrygglengjum. Mjer finst sú úr spönsku lengjunum ekkert betri.

Þá virtist mjer hæstv. ráðh. (JÞ) leggja fyrir okkur flm. spurningu um það, hvort við vildum eiga það á hættu, að missa af samningunum við Spánverja fyrir samþykt þessarar till. Jeg fyrir mitt leyti verð að segja það, að ef það er tilfellið, að Spánverjar hafi svo mikil tök á okkar háa Alþingi, sem svo er kallað, en sem þá er mjög lágt, að þar megi ekki koma fram með þær tillögur, sem taldar verða landi og þjóð til gagns, vegna Spánverja, þá mun jeg fyrir mitt leyti greiða atkvæði með þessari till., hvort sem hún verður þess valdandi, að Spánverjar rifta samningnum við okkur eða ekki. Því sje það svo, að Spánverjar hafi svo mikinn rjett í þessu máli, að þeir geti bundið fyrir munninn á okkur íslensku þingmönnunum, þá er best að það komi fram strax. Jeg verð að líta svo á, að það komi fram alt of mikill undirlægjuháttur í þeim vörnum, sem hæstv. ráðh. (JÞ) ber fram, og jeg trúi því tæplega, að hann sje svo runninn hæstv. ráðh. (JÞ) í merg og bein, að hann ætlist til, að allir alþingismenn, og einnig flm. till., beygi sig svo djúpt, að þeir taki till. aftur. Nei, jeg tek það fram, og jeg krefst þess, sem einn af fulltrúum þjóðarinnar, að atkvæði gangi um þessa till.

Þá skal jeg láta þetta nægja til andsvara hæstv. forsrh. (JÞ). En jeg kemst ekki hjá því að athuga lítið eitt þau rök, sem hæstv. atvrh. (MG) færði gegn tveimur síðustu liðum till.

Það var út af 3. lið till., um lán úr áfengisverslun ríkisins, sem hæstv. atvrh. (MG) komst að þeirri niðurstöðu, að það væri nokkuð hart, ef ekki mætti lána hjeraðslæknum vín eins og lyfjabúðum, því að eins og allir sjá, þá á þessi liður till. aðeins við vín, en alls ekki við lyf. Jeg verð nú að segja rjett eins og það er, að mjer finst, þegar jeg hefi fyrir mjer ummæli ekki lakari manna heldur en þeirra lækna, sem hafa ótvírætt látið það í ljós, að vín sjeu undir flestum tilfellum óþörf sem læknislyf — get jeg vitnað þar til hv. 6. landsk. (JKr), sem nú á sæti hjer á þingi — þá fæ jeg ekki sjeð, að fyrir þessari ástæðu hæstv. atvrh. (MG) sjeu mikil rök. Jeg verð sem sje að halda því fram, að þörfin til þess að lána læknum vín sje svo ákaflega lítil, ef aðeins er að ræða um lækningar, og jeg verð einnig að halda því fram, eins og nú er ástatt um lækna hjer á landi, að þeir hafi ekki meiri þörf fyrir vín til lækninga heldur en það, sem þeim er vorkunnarlaust að greiða við pöntun. En jeg hygg, að allir sjái, að afleiðingin af þeirri ráðstöfun verði sú, að hlutaðeigendur panti þá að öllum líkindum ekki meira en þörf krefur.

Þá vjek hæstv. ráðh. (MG) að útsölunum úti um land og sagði, að þær hefðu 3 mánaða gjaldfrest, og að það sje ekki gott að komast hjá því, því að eitt af tvennu verði að gera, annaðhvort að þær fái nokkurn gjaldfrest, eða þá að þær verði að fá vínin í umboðssölu, sem hann teldi ekki gerlegt. Jeg skal viðurkenna það hjá hæstv. ráðh. (MG), að það væri alt að því ósæmilegt að láta þær fá vínin í umboðssölu, en hinsvegar sje jeg ekki, að það sje neitt brot á samningnum við Spánverja, að útsölustaðirnir fengju ekki vínin nema þeir greiddu fyrir þau við móttöku. Jeg gerði það vitandi vits að hafa þetta svo í till., því að jeg veit, að ekkert verkaði betur til að draga úr sölunni úti um land, og jeg held því fram, að það verði ekkert brot á samningnum, að ríkissjóður láni ekki vín.

Þá er spurningin um það, hvort ekki mætti taka mikið til fyrir söluna úti um land, og álít jeg það skyldu hæstv. stjórnar að reyna þessa leið, ef henni er nokkur alvara með að draga úr sölunni. En það er auðsjeð, að það hættulega liggur hjer á bak við, að ríkið hefir gert sjer þetta að tekjugrein, og að það er þessi tekjugrein, sem ekki má rýra. „Þar liggur hundurinn grafinn“.

En hvernig sem jeg lít á þetta, þá finst mjer það vera lítt verjandi af hæstv. atvrh. (MG) að taka þessa till. eins óstint upp og hann gerði, því að það gerir ekkert annað en að sýna það berlega, að það er aðalatriðið hjá hæstv. stjórn í þessu máli að hafa sem mestar tekjur af vínunum. Því að hæstv. ráðh. (MG) datt heldur ekki í hug að berja því við, að það væri brot á Spánarsamningnum, ef gjaldfrestur væri afnuminn.

Hæstv. ráðh. (MG) sagði, að það væri ekki hægt að ætlast til þess, að vínsalar úti um land greiddu við móttöku eða pöntun, en að það væri ekki mikill skaði skeður, þó að þeir gerðu það ekki. En jeg vil þá spyrja: Væri nokkur skaði skeður, þó að engin sala væri? Jeg býst nú alveg eins vel við því, að hæstv. stjórn eigi eftir að koma upp enn þá og sýna fram á, hvaða tjón ríkissjóður hafi af þessari óhæfilegu ráðstöfun. En jeg er við því búinn, því að jeg sje ekki, að það komi nein skynsamleg fjármálapólitík fram í því að fá í ríkissjóðinn eina krónu, en kasta fyrir hana mörgum í sjóinn, eða kannske miklu verra en það.

Þá andmælti hæstv. atvrh. (MG) allmjög 4. lið till., og var jeg sannast að segja alveg hissa á því. Hann fór að fræða okkur flm. um það, að til væru skýrslur um þetta alt, og að það þyrfti ekki að kosta einum eyri til að safna þeim saman, en að birta þær, það væri goðgá, og fanst það svo óviðeigandi, að hann lagði á móti till. af þeirri ástæðu. En jeg skil ekki, hvers vegna hæstv. ráðh. (MG) vildi ekki birta skýrsluna, en fór að gefa í skyn, að það væri ekkert óhreint við það mál. Það vona jeg líka, og því er þá ekki sjálfsagt að birta þessar skýrslur, til þess að uppræta þann grun á læknum landsins, að þeir noti þessa heimild óleyfilega? Jeg sje ekki, að það gæti gert neinn skaða, þegar ekki þarf að kosta neinu til nema pappír og prentsvertu í Lögbirtingablaðið. Og það er auk þess undarlegt, að það skuli vera lagst svo mjög á móti því að birta þessar skýrslur, ef það gæti leitt í ljós, að allir læknar landsins sjeu saklausir af að misnota þessa tilhögun. Hitt vekur grun, þegar okkur er vísað til forstöðumanns áfengisverslunar ríkisins og sagt, að þar getum við fengið allar upplýsingar. En það vill nú svo undarlega til, að þeim, sem t. d. hafa lækni austur á landi og hafa hann grunaðan um, að hann geri töluvert mikið að því að selja áfengi, verður það nokkuð dýrt að ferðast til Reykjavíkur til þess að rannsaka málið. En ef við þurfum ekki annað en að fá Lögbirtingablaðið lánað hjá hreppstjóranum til þess að athuga skýrsluna, þá er nokkuð öðru máli að gegna.

Jeg fæ ekki skilið, hvers vegna hæstv. atvrh. (MG) legst á móti þessari till., því að hún er svo sanngjörn, að honum ætti að vera það ljúft að birta þessar skýrslur, til þess að það kæmi skýrt fram, að hjer væri ekkert misgert. Hæstv. ráðh. (MG) gat þess, að hann sæi ekki, að þetta rjeði neina bót á misnotkun á áfengi í landinu eða dragi úr áfengisnautninni. Það má vel vera, að hann sjái það ekki. En hvað leiðir það misjafnt af sjer? Er nokkuð að athuga við það, þó að það komi fram og verði sannað svart á hvítu, að ekki einn einasti af læknum þessa lands misnoti það leyfi, sem honum er gefið til lyfseðlaútgáfu ?

Í sambandi við þetta væri hægt að minnast á þetta svokallaða læknabrennivín. En jeg álít, að það eigi ekki við, því að till. snertir það ekki. En hinsvegar er það ekki alveg augljóst af landsreikningunum, að það sje rjett, sem hæstv. atvrh. (MG) gaf í skyn, að þessi nær ½ milj. kr., sem sagt var að áfengisverslun ríkisins ætti útistandandi, væri alt hjá hjeraðslæknum og lyfjabúðum. Jeg hefi meira að segja töluverðan grun um það, að allmiklar upphæðir sjeu hjá alt öðrum mönnum. En það voru aðallega læknar og lyfjabúðir, sem hæstv. ráðh. (MG) bar fyrir brjósti, þegar hann var að tala um, að það væri ekki sanngjarnt að krefjast greiðslu fyrirfram.

Jeg teldi nú, að þar sem ekki er um óverulegri upphæð að ræða en milj. kr., væri full ástæða til fyrir Alþingi að taka í taumana og blátt áfram banna, að vínin væru lánuð, því að það er áreiðanlegt, að það er ekki að tilefnislausu, að sá liður till. er fram kominn.

Jeg mun nú láta þetta nægja að sinni til andsvara hæstv. stjórn. Jeg finn ekki ástæðu til að svara hv. 2. þm. Rang. (EJ) miklu út af ræðu hans, vegna þess, að mjer fanst hún beinast öllu meira að meðflm. mínum en að till., og geri jeg ráð fyrir, að hann svari hv. þm. (EJ).

Hv. þm. (EJ) sagði, að ef Goodtemplarareglan hefði haft völdin í höndunum árið 1922 og síðan, þá myndi öðruvísi hafa farið. Jeg skal segja það rjett eins og það er, að þessum hv. þm. (EJ) alveg ólöstuðum, að þetta er það viturlegasta, sem jeg hefi heyrt hann segja á þessu þingi. Það er enginn vafi á því, að ef Goodtemplarareglan hefði haft völdin um þetta mál, þá hefði öðruvísi farið, og hv. þm. (EJ) sannar það, að það erum við, flytjendur þessarar till., sem ættum að hafa völdin; það er okkar stefna, sem ætti að hafa völdin, vegna þess, að hún er nákvæmlega í samræmi við stefnu Goodtemplara.

Jeg vænti þess, að hv. þm. (EJ) hafi ekki meint það til mín, þar sem hann var að tala um „fanatiska“ vínhatara. En jeg verð samt að segja það, að þó svo að hv. þm. (EJ) hefði meint það til mín, þá teldi jeg það ekki lastmæli, því að auðvitað er það sameiginlegt hjá báðum flokkum, bannmönnum og andbanningum, að hvorirtveggja geta farið út í öfgar. En það var auðheyrt hjá hv. þm. (EJ), að hans megin voru öfgar.

Jeg held þá, að jeg láti sitja við þetta að sinni, og skal ekki vera langorðari, til þess að ekki verði með rjettu sagt, að jeg hafi teygt umr. úr hófi. En hitt tek jeg skýrt fram, að svo lengi sem jeg hefi rjett til að tala í þessu máli, þá mun jeg gera það óhikað, ef jeg finn verulega ástæðu til þess.