25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í D-deild Alþingistíðinda. (3495)

71. mál, áfengisvarnir

Bernharð Stefánsson:

Það er aðeins 1. liður þessarar till., sem jeg ætla að minnast á. Þó þarf jeg ekki að hafa um það mörg orð, og það því síður, sem hv. 2. þm. S.-M. (IP) hefir tekið sumt af því fram, sem jeg vildi sagt hafa.

Í þessum lið er farið fram á það að leggja niður útsölustaði vína, utan Reykjavíkur, ef íbúar þeirra staða óska þess. Hæstv. forsrh. (JÞ) hefir nú mótmælt þessum lið, eins og till. í heild sinni, og sagði í því sambandi, að við yrðum að hafa þessa tilhögun, sem nú er á sölu vínanna, vegna Spánarsamningsins. Jeg hefi nú reyndar heyrt þetta fyr, en jeg verð að kannast við það, að hæstv. ráðh. (JÞ) hefir ekki getað sannfært mig um, að þetta sje svo, að minsta kosti ekki um það, að þetta komi í bága við lögin og reglugerðina frá 1922. Þar er að vísu tekið fram, að ekki megi gera þær ráðstafanir til hindrunar sölu vínanna, sem geri undanþáguna að engu. En jeg sje nú ekki, að þessi undanþága frá banninu, sem gerð var árið 1922, sje gerð að engu, jafnvel þó að útsala sje ekki nema hjer í Reykjavík einni. Því að þó að sú tilhögun væri, þá er í raun og veru opinn vegur fyrir alla landsmenn til að geta eignast vín, þó að með meiri fyrirhöfn sje, heldur en ef vínsölustaðurinn er rjett hjá þeim.

Það er að vísu í reglugerðinni talað um útsölustaði í kaupstöðunum, en það er ekki tekið fram þar, eða ekki man jeg eftir því, að þessir útsölustaðir skuli vera í öllum kaupstöðunum. Hitt er annað mál, að það má kannske líta svo á, að verslunarsamningurinn frá 1924 sje þannig, að þessi 1. liður till. komi frekar í bág við hann. En þá er það aðeins af því, að gengið hefir verið lengra í honum heldur en lögin frá 1922 gáfu heimild til.

Að jeg er að tala um þetta atriði till., er af alveg sjerstökum ástæðum. Það er nú svo, að jeg býst við, að flestir kaupstaðir, utan Reykjavíkur, sem hafa vínútsölu, óski þess að vera lausir við hana. En hitt er jafnvíst, að þörfin á, að þetta sje tekið til greina, er ekki jafnmikil alstaðar. Held jeg því hiklaust fram, að á Siglufirði valdi vínsalan mestum skaða og því sje mest þörfin að leggja hana niður þar. Ekki sökum þess, að borgarar þess bæjar kunni ver með vín að fara en aðrir menn hjer á landi, heldur af því, að á sumrin safnast þangað fjöldi aðkomufólks um síldveiðitímann, og þegar þar er opin leið fyrir þessa aðkomumenn, útlenda og innlenda, til að fá vín, þá eru margir, sem nota sjer það að kaupa þau og drekka sig fulla af þeim, og af þessu leiðir, að borgarar bæjarins verða fyrir sífeldu ónæði af þessum mönnum. Það kveður stundum svo ramt að þessu, að borgarar bæjarins hafa ekki frið til að ganga um göturnar óáreittir, og jafnvel að húsfriði manna er raskað. Þetta er alveg óþolandi, og þó sjerstaklega vegna þess, að það skuli vera ráðstöfunum ríkisins að kenna, að ástandið er orðið svona.

Í sambandi við þetta vil jeg leyfa mjer að gera þá fyrirspurn til hæstv. stjórnar, hvort það sje rjett, sem jeg hefi heyrt, að frá Siglufirði hafi komið ósk um það, að ef ómögulegt væri að fá því framgengt, að vínsalan yrði lögð niður, þá að þessi vín væru ekki seld á laugardögum, eða að minsta kosti ekki síðari hluta laugardags, og að þetta hafi ekki fengist. Skip eru þar inni einna helst um helgar, og líka kjósa sjómenn helst að fá sjer í staupinu um helgar, vegna þess, að þá hafa þeir bestan tíma til þess, og þess vegna myndi mjög úr þessum vandræðum draga, ef þeir gætu ekki fengið vín um helgar.

Jeg skil nú ekki, að það gæti komið í nokkum bága við Spánarsamninginn að hafa ekki búðina opna fram á kvöld einn dag vikunnar. Jeg skil ekki, að það gæti orðið til skaða eða orsakað það, að Spánverjar segi upp samningnum. Jeg verð að vænta þess, að 1. liður þessarar till. verði samþyktur, og að þá verði fyrst og fremst lögð niður vínsalan á Siglufirði.

En ef svo fer, að landsstjórn og Alþingi sjá ekki fært að verða við þessari kröfu Siglfirðinga, og haldi vínsala þar áfram, þá hefir ríkið sjálft áfengi á boðstólum handa útlendum og innlendum aðkomumönnum og á því að bera fulla ábyrgð á afleiðingunum. Jeg sje þá ekki annað en það sje hrein og bein skylda ríkisins að kosta nægilega sterka lögreglu á Siglufirði, yfir síldveiðitímann, til að halda þar uppi reglu og vernda borgara bæjarins fyrir uppivöðslusemi ölvaðra aðkomumanna. Siglufjörður er vitanlega ekki stórbær og hefir ekki mikið fjármagn, en hann hefir nægilega sterka lögreglu yfir aðra árstíma. En yfir síldveiðitímann er ekki að vænta þess, að jafnlítill bær geti haldið uppi svo sterkri lögreglu sem þarf til þess að halda í skefjum fleiri hundruðum af drukknum útlendingum. En það getur komið fyrir á Siglufirði, að þess þurfi.

Jeg vænti þess, að enginn misskilji mig svo, að jeg sje að ráða til þess að koma upp varalögreglu á Siglufirði, í líkingu við það, sem stungið var upp á hjer á þinginu 1925, heldur vil jeg krefjast þess, að ríkið sendi þangað nokkra lögreglumenn og kosti þá þar yfir síldveiðitímann, ef það á að halda áfram að hafa vínsölu þar.

Þrátt fyrir þær upplýsingar, sem jeg hefi fengið um Spánarsamningana, þá tel jeg það forsvaranlegt að samþ. 1. lið, og mun jeg óhikað gera það. Legg jeg sjerstaklega áherslu á það vegna vandræða þeirra, er orðið hafa á Siglufirði vegna vínsölunnar þar.