25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í D-deild Alþingistíðinda. (3506)

114. mál, Landsbanki Íslands setji á fót útibú í Vestmannaeyjum

Halldór Steinsson:

Jeg finn ástæðu til að segja nokkur orð í sambandi við þetta mál.

Á þinginu 1919 bar jeg fram till. þess efnis, að komið væri á fót útibúi frá Landsbankanum í Stykkishólmi. Sú till. flaug í gegnum báðar deildir og var samþ. með miklum atkvæðamun. En lengra hefir þetta mál heldur ekki komist, enda er mjer kunnugt um, að hvorki hæstv. stjórn eða Landsbankastjórnin hefir neitt gert til þess að hrinda málinu áfram öll þau ár, sem liðin eru síðan till. var samþ.

Á þinginu 1919, þegar till. mín var til umr., spurði fjhn. Nd. Landsbankastjórnina, hvert álit hennar væri um það, hvort útibú mundi geta þrifist í Stykkishólmi eða ekki, og svaraði Landsbankastjórnin því, að útibú mundi mætavel þrífast þar, og taldi þá sjálfsagt, að þetta kæmist í framkvæmd það bráðasta. En þrátt fyrir þessar góðu undirtektir hefir enn sem komið er ekkert orðið úr framkvæmdunum.

Því var það ekki ófyrirsynju, að jeg bar fram á síðasta þingi fyrirspurn til ríkisstjórnarinnar um það, hvað fyrverandi stjórnir og núverandi hæstv. stjórn hefðu gert til að koma þessu máli fram. Og jeg fekk ekki önnur svör hjá hæstv. fjrh. (JÞ) en þau, að hann skilaði frá Landsbankastjórninni, að hún hefði áhuga á að koma málinu í framkvæmd, þegar fjárhagsástæður bankanna leyfðu, en svo væri ekki enn sem komið væri.

Þegar málið liggur þannig fyrir, að liðin eru 8 ár síðan samþ. var að koma upp útibúi í Stykkishólmi, en ekkert frekar aðhafst til framkvæmda því, þá virðist mjer eins og verið sje að bera í bakkafullan lækinn að bera fram till. um að skora á hæstv. stjórn að hlutast til um, að stofnað verði í Vestmannaeyjum útibú frá Landsbankanum; yrði það auðvitað ekki fyr en eftir að útibúið í Stykkishólmi væri komið á fót.

Mjer er ekki kunnugt um hinn almenna vilja Eyjaskeggja í þessu máli nje hvað margir menn standa á bak við þessar áskoranir, sem vitnað er í. Jeg hefi heyrt sagt, að það mundu vera rúmlega hundrað manns. En hitt er mjer kunnugt um, að alþingismanni kjördæmisins hefir ekki verið falið að flytja þetta mál, og virðist það benda til, að almenningsvilji standi ekki á bak við áskorun þessa, og þá varla um almenningsþörf að ræða. Í Vestmannaeyjum eru ekki nema um 3000 íbúar, og held jeg því, að eitt útibú nægi þeim fyrst um sinn. Hinu neita jeg ekki, að framleiðsla Vestmannaeyja muni vera hlutfallslega meiri heldur en sumstaðar annarsstaðar.

Jeg mun því ekki greiða þessari till. atkv., af því að jeg þykist sjá, að hjer sje hvorki um almenningsþörf að ræða nje almenningsvilja, og ekki heldur fyrirsjáanlegt, að þetta komi til framkvæmda í náinni framtíð, þegar sýnt er, að fyrst verður Landsbankinn að efna þau loforð, sem hann hefir gefið fyrir löngu um stofnun útibús í Stykkishólmi.