25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í D-deild Alþingistíðinda. (3512)

114. mál, Landsbanki Íslands setji á fót útibú í Vestmannaeyjum

3512Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Fyrst vil jeg þakka hæstv. fjrh. (JÞ) undirtektir hans. — Mjer fyndist ekki illa til fallið, ef þessi till. verður samþ., að útibúið byrji einmitt síðustu dagana, sem þarna er ákveðið, því að veiðitími Vestmannaeyinga byrjar um svipað leyti.

Hv. þm. Snæf. (HSteins) hugði, að það væri ekki vilji almennings í Vestmannaeyjum, að þetta útibú kæmist á fót, vegna þess, að málið væri ekki borið fram af þingmanni Eyjanna.

Nú er það svo, sem hv. þm. Snæf. mátti vera kunnugt, að þarna eru tveir flokkar, eins og víða annarsstaðar. Það er ekki nema eðlilegt, að okkar flokksmenn snúi sjer til okkar með þau mál, sem þeir vilja láta fram bera. Við höfum orðið við áskorun þeirra. En eins og heyrst hefir á þessum þingfundi, þá hefir hv. þm. Vestm. (JJós) verið með þessu máli, og jeg hefi heyrt síðan till. kom fram, að margir stjórnmálaandstæðingar okkar sjeu því fylgjandi. Þótt málið því sje komið frá minni hl. kjósenda í Vestmannaeyjum, þá má telja, að það hafi fylgi langmests hluta kjósenda að baki sjer.

Hv. þm. Snæf. (HSteins) hefir komið með rökstudda dagskrá um að vísa málinu frá, þar sem enn er óuppfylt loforð um útibú í Stykkishólmi. Jeg fyrir mitt leyti vil ekki leggja á móti útibúi í Stykkishólmi, hvenær sem það verður hægt; en jeg vil jafnframt minna á það, að það er þó til peningastofnun í Stykkishólmi, sem sje sparisjóður. Í öðru lagi eru ekki saman berandi atvinnuvegirnir, jafnvel þótt allur Breiðifjörður sje tekinn, við Vestmannaeyjar, eins og tölurnar sýna, sem við hv. þm. Vestm. (JJós) höfum getið um. Það mun því ekki vera eins mikil þörf fyrir eitt útibú í Stykkishólmi eins og tvö í Vestmannaeyjum. Þessi brýna þörf mundi að minsta kosti sjást, ef borinn væri saman innflutningur og útflutningur í Vestmannaeyjum við aðra staði, þar sem útibú eru, t. d. á Austurlandi.

Jeg vona því, að þessi rökstudda dagskrá verði feld; því að það má ekki gera einum rjett með því að gera öðrum rangt til. Og mjer finst, að ef hv. þm. Snæf. (HSteins) óskar, að útibú komi einhvern tíma í Stykkishólmi, þá eigi hann ekki að leggja á móti þessu, þar sem hjer liggja brýnni ástæður til.

Hv. þm. Str. (TrÞ) lagði á móti þessu af þeirri ástæðu, að ef peningar væru fyrir hendi, væri rjettara að leggja þá til landbúnaðar. Nú er það svo, eins og hv. 5. landsk. (JBald) gat um, að Landsbankinn leggur töluvert mikið fram í útgerð í Vestmannaeyjum gegnum Íslandsbanka. Í öðru lagi leggur hann fram annað fje, beint til viðskiftamanna sinna þar, sem kemur ekki fram á reikningunum sjerstaklega.

Það má ekki gleyma því, að það er nokkurs virði fyrir þá, sem viðskifti eiga í Vestmannaeyjum, að þeir þurfi ekki eingöngu að snúa sjer í þetta eina bankahús; að minsta kosti er mikil áhersla á það lögð í Vestmannaeyjum. Og þó það sje æskilegt, að veitt sje fje til landbúnaðarins, þá á það langt í land, að hægt sje að veita þangað stórum peningastraumi, enda er eftirspurnin eftir peningum þar svo miklu minni en hjá sjávarútveginum. Í móti þessu getur hv. þm. Str. (TrÞ) ekki mælt, og hann getur heldur ekki mælt því í mót, að Vestmannaeyjar gefa tiltölulega mesta framleiðslu af öllum stöðum í landinu. Og þótt þar hafi orðið tap á framleiðslunni síðasta árið, þá hafa Eyjarnar venjulega gefið landsmönnum stórfje, og útgerðin þar hefir fætt fjölda manns, eigi aðeins Eyjaskeggja, heldur einnig fjölda manna, sem leitar þangað atvinnu víðsvegar að af landinu.

Það mundi áreiðanlega bera ávöxt miklu fyr, að leggja fram fje til útgerðarinnar þar, heldur en að bæta enn að nýju við miljónum í Ræktunarsjóð.