07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í D-deild Alþingistíðinda. (3516)

57. mál, sandgræðslugirðingar í Gunnarsholti

Flm. (Einar Jónsson):

Aðalástæðan fyrir því, að till. þessi á þskj. 83 er fram komin, er áhugi ýmsra kunnugra manna fyrir góðri umönnun á hinni miklu girðingu, sem um er að ræða, og hagkvæmum notum hins afgirta svæðis.

Eins og getið er um í greinargerð till. þessarar, ritaði Gunnlaugur Kristmundsson skýra blaðagrein í nóvember síðastl., þar sem hann benti á, að hagkvæmasta leiðin til þess að hafa not þessarar stóru girðingar myndi verða sú, að stofna þar barnahæli og setja upp kúabú samhliða því. Á þann hátt mætti koma í veg fyrir, að hið mikla gras, sem er þar nú árlega, rotnaði niður ónotað. Í greinargerðinni er þess og ennfremur getið, að á svæði þessu myndi mögulegt að heyja 1500–2000 hesta á ári, alt kúgæft hey, ef slegið væri árlega. Við þessi stóru grassvæði er ekkert annað að gera en slá þau, því að beit er þar bönnuð. Sauðfje fær eðlilega ekki að koma þangað, því að það eyðileggur svo mjög gróðurinn. Þegar því það er horfið, fer gróðrinum svo fljótt fram, að því trúir enginn, nema sá, sem reynir.

Að mönnum datt í hug, að þarna gæti verið hentugur staður fyrir barnahæli, er meðal annars af því, að mjög er eftirsótt að koma börnum úr kaupstöðunum upp í sveit á sumrin, þar sem þau hafa betra loft og nóga mjólk. Ef þarna væri stofnað kúabú, gæti allmörgum börnum liðið þar vel.

Eins og tekið er fram í grein Gunnl. Kristmundssonar, eru góðar samgöngur að Gunnarsholti, bílvegur þangað alla leið hjeðan. En eins og öllum er kunnugt, er það aðeins á sumrin, sem hann verður notaður. Liggur því beint við að nota þennan stað á sumrin fyrir kaupstaðina, en á veturna fyrir sveitina, og verður því best fyrir komið á þann hátt, að hafa þar barnahæli fyrir kaupstaðabörn á sumrin, en barnahóp úr sveitinni til kenslu á vetrum. Þetta gæti verið hagkvæmt fyrir okkur Rangæinga, því að við erum, sökum strjálbygðar, alveg að komast í þrot með að uppfylla þær kröfur, sem gerðar eru til barnafræðslunnar. Þannig hagar til, að það eru aðeins tvö heimili í sveitinni, sem eru svo sett, að börn geta gengið þangað frá 1 eða 2 næstu bæjum. Höfum við því neytt þessi heimili til að hafa skólann langt umfram það, sem þau hafa getað með góðu móti. En nú er svo komið, að þau sjá sjer það á engan hátt fært lengur. Erum við því orðnir alveg ráðþrota með þetta. Þegar því hin umrædda blaðagrein kom í haust, flaug okkur í hug, hvort við myndum ekki geta orðið í sambjörg við hið opinbera, að koma upp skóla fyrir okkar börn, um leið og það sæi sínum kaupstaðabörnum fyrir þægilegum sumarbústað. Jeg bið því hv. deild að athuga, að hjer er um enga áskorun að ræða, heldur aðeins að íhuga, hvort þetta myndi ekki fær leið. Jafnframt þessu ber að athuga, að í þessa stóru girðingu er búið að leggja mikið fje fram úr ríkissjóði. Væri það því óneitanlega hagkvæmara, ef hægt yrði að koma þessu fyrir á þann veg, að hann fengi að einhverju leyti vexti af því fje, sem hann hefir lagt fram. Og það mundi helst verða með því að nota girðingu þessa á einhvern hagkvæman hátt í þágu hins opinbera. Það er því eigi aðeins ósk Rangæinga einna, að Alþingi leggi til við stjórnina, að þetta verði athugað, heldur og fjölmargra fleiri.

Eins og jeg tók fram áðan, er hreppur sá, sem Gunnarsholt liggur í, mjög strjálbygður. Aðeins á tveimur stöðum hagar svo til, að börn geta gengið í skóla heiman að frá sjer. Og er það síst að undra, þar sem lengd hreppsins er um 50 km. og breidd um 40 km. Það er því afarerfitt að framkvæma barnafræðslu þarna svo í lagi sje, nema því að eins að hafa fastaskóla.

Það má nú segja, að hreppurinn geti fengið styrk úr ríkissjóði til að byggja fastaskóla. Það er aldrei nema satt, og hefir komið til tals. En þetta er heppilegri leið, bæði fyrir ríkissjóð og hreppsfjelagið.

Jeg tók ekki upp í till. þessa, hver not mætti hafa af Stóruvallagirðingunni í Landsveit, en eins og kunnugt er, er það stór girðing. Hinsvegar finst mjer sjálfsagt, að það verði athugað um leið og athugað yrði, hver not mætti hafa af Gunnarsholtsgirðingunni.

Mjer dettur í hug, að fyrirsögn till. þessarar hefði betur farið á annan veg, en slíkt ætti ekki að verða til að skemma efni hennar. Óska jeg svo, að henni verði vísað til nefndar, og þá helst allshn. Annars get jeg sætt mig við, að hæstv. forseti stingi upp á nefndinni. (JJ: Mjer finst till. eiga best heima í mentamálanefnd). Jeg fel hæstv. forseta að skera úr, til hvaða nefndar hún skuli fara.