07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í D-deild Alþingistíðinda. (3518)

57. mál, sandgræðslugirðingar í Gunnarsholti

3518Flm. (Einar Jónsson):

Flest af því, sem hv. 1. landsk. (JJ) beindi til mín að svara, liggur í hlutarins eðli að verður að bíða í eitt eða fleiri ár enn. Því nú þegar er ekki víst, hvort þetta fæst rannsakað, og því síður, hvort um nokkurn stofnkostnað verður að ræða. Meining tillögunnar er að fá þetta rannsakað. Þá fyrst, þegar það er búið, er tími til að athuga, hverjir eigi að byggja þar hlöður og peningshús o. s. frv. Þó finst mjer það liggja í hlutarins eðli, að það sje ríkissjóður, sem eigi að byggja, því hann á landið, og hann ljet girða á sinni eigin eign. Til Rangárvallahrepps hafa því engar 20 þús. kr. verið lagðar, svo sem hv. 1. landsk. heldur hjer fram.

Þá spurði hv. þm. (JJ), hversu margar kýr myndi þurfa, ef nota ætti allan heyaflann, sem þarna fæst. Að sjálfsögðu yrðu þær margar. En þær þurfa líka ekki að vera fleiri en það, sem þarf með vegna barnahælisins, því ekki er bundið við að nota allan þann heyafla, sem þarna fæst, því betra er að nota eitthvað af honum heldur en ekki neitt.

Þá var hann að reyna að skensa mig fyrir, að fyrirsögn till. væri öðruvísi en hún ætti að vera. Á þetta mintist jeg í fyrri ræðu minni, og jeg veit ekki, hvort jeg nenni að breyta því nú. Hefi enga trú á að leita ráða til hans í þessu efni.

Jeg veit ekkert, við hvað hv. þm. á með þessum hangikjöts- og þjóðnýtingarsögum; hefi aldrei heyrt þær fyr. Enda veit jeg, að hv. þm. hefir farið aðra leið en hann ætlaði að fara með því að minnast á þessa sögu, að jeg stæði á verði fyrir þessu þjóðnýtingarmáli. Jeg býst við, að það hafi verið kökurnar frá Stórólfshvoli, sem hv. flm. (JJ) hefir ætlað sjer að minnast á, því að þessa sögu hefir hv. þm. sjálfur fundið upp nú í sæti sínu, en þesskonar slúður gerir mjer ekkert til. Hv. þm. ímyndar sjer, að það sje líklegt, að börnin, sem ættu að vera á þessu svæði, gætu horfið í kaf í sandinn. Jú, jeg geri ráð fyrir, að ef barn er sett fyrir utan girðinguna, þá geti það farið í kaf, en það eru til enn þá óskemdar grasspildur, þar sem sandur er enginn. Nei, jeg held, að það sje alveg áreiðanlegt, að þau börn, sem þar yrðu geymd, kæmu svo þaðan aftur, að þau hefðu ekki grafist í sand. Það er nauðsynlegt að grenslast eftir því síðar, sem hv. 1. landsk. var að spyrja um, en hvað bústjórnina snertir, hefi jeg ekki hugsað mjer hana á annan hátt en að sandgræðsluvörður er nauðsynlegur á þessu svæði, og væri þarna maður, sem ætti að vera sandgræðsluvörður, þá mundi hann líka geta verið bústjóri, þó um nokkrar beljur væri að ræða þarna, því að jeg býst ekki við, að barnakennarinn geti það. Hvað það atriðið snertir, hve mikið við vildum leggja til, þá er óhugsandi að svara því strax, en jeg geri ráð fyrir, að við myndum komast eitthvað ljettara út af kostnaðinum, og á hinn bóginn yrði ríkissjóði líka gert nokkru ljettara fyrir með að byggja þarna barnahæli, svo að bæði ríkissjóði og Rangvellingum ætti að vera hagur að því að vera í fjelagi um þetta. En hvort þetta er eins skýr mynd af þjóðnýtingu, eins og hv. 1. landsk. komst að orði, þá er því að svara, að því skýrari sem hún er, því fúsari ætti hv. þm. (JJ) að vera til þess að nýta hana.

Að öðru leyti vil jeg engar þrætur vekja, en vil minna á það aftur, að þær fyrirspurnir, sem fram komu hjá hv. þm. (JJ), eiga helst ekki við fyr en búið er að ákveða, hvort nokkuð verði úr því, sem hjer er stungið upp á. Þá fyrst geta þær komið til orða.