07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í D-deild Alþingistíðinda. (3522)

57. mál, sandgræðslugirðingar í Gunnarsholti

Jónas Jónsson:

Hv. flm. till. var alveg búinn að rjetta frá sjer alla anga, síðast þegar hann talaði. Hv. þm. játaði, að hann vissi ekkert um það, hve mikið hreppurinn vildi gera í þessu máli, svo að því leyti er hv. þm. búinn að sanna það, sem hann sagði, að staðið hefði í einhverri bók, að til sjeu bjánar í þessari sýslu, og mintist ennfremur á það, að dregið hefði verið í efa um gáfur einhvers sýslumanns og prests þar eystra. Jeg býst við, að best væri fyrir hv. þm. (EJ) að slá upp í einkunnabókum mentaskólans, til þess að sannfærast betur um þetta, ef hann vill. En jeg býst ekki við, að hv. þm. (EJ) hafi mikla ánægju af að athuga þar einkunnahæð fyrverandi prófasts og núverandi sýslumanns. Munu þessi rök nægja til, að ekki verði framar reynt að hæla þeim tveim mönnum fyrir mikla greind.

En viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði, að hann stæði ekki að þeim rógburði, sem væri um Framsóknarflokkinn þar eystra, þá eru það þó hans samherjar, og eitt af skáldum landsins hefir nýlega sett ofan í við íhaldsflokkinn fyrir þá aðferð, sem hann notaði til þess að níða niður Framsóknarflokkinn við kosningar í haust. Jeg vildi biðja hv. þm. að athuga, hvort þessi maður, sem skrifað hefir í eitt aðal-íhaldsmálgagnið, væri ekki íhaldsmaður, og hvort ætla má, að hann beri á flokk sinn ósannar sakir. En verst er þó fyrir hv. þm., þegar hann rekur augun í það, að sá eini þm. í þessari hv. deild, sem kosinn er á þing til þess að berjast fyrir þjóðnýtingu, býður út faðminn á móti þessari uppástungu. Hv. þm. (EJ) getur þá sjeð, að hann hefir vilst frá þeirri einu sönnu frjálsu samkepni og er hjer að skoðunum til kominn í eina sæng með hv. 5. landsk. (JBald).