07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í D-deild Alþingistíðinda. (3523)

57. mál, sandgræðslugirðingar í Gunnarsholti

Flm. (Einar Jónsson):

Jeg er ánægður yfir því, hve hv. 1. landsk. (JJ) er hjer sjálfum sjer samkvæmur í því að koma aldrei fram með nein rök, heldur ber hann höfðinu við steininn og endurtekur rakalausar staðhæfingar, hversu oft sem honum hefir verið sýnt fram á, að þær sjeu tóm lygi. (Forseti: (hringir): Þetta er óþinglegt orð). Jeg veit það. En það verður ekki hjá því komist, þegar maður talar til þessa sætis.

Hv. þm. (JJ) er að óska þess, að jeg lesi hitt eða þetta. En jeg sækist ekki eftir því, af því að jeg veit, að í því muni vera eitthvað eftir hann sjálfan, og þá veit jeg, að jeg græði ekkert á því. — Hver hefir sagt, að jeg sje beinlínis sendur á þing til þess að berjast á móti þjóðnýtingu? Það hefir enginn heyrt nema hv. 1. landsk. (JJ). Og þó svo væri, hvað hefi jeg þá brotið af mjer? Hv. 1. landsk. segir, að jeg hafi fallið í faðm hv. 5. landsk. (JBald). Ef hjer er nokkuð um það að ræða, að við höfum fallist í faðma, þá hefir hv. 5. landsk. (JBald) fallið í faðm minn, og met jeg hann ekki minna fyrir það, þótt hann hafi betri skilning á þessu máli en hv. 1. landsk. Að öðru leyti hirði jeg ekki frekar að elta ólar við útúrsnúninga hans (JJ).