21.03.1927
Neðri deild: 35. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í D-deild Alþingistíðinda. (3539)

59. mál, kaup á húseigninni nr. 16 við Hafnarstræti

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Eins og segir í greinar gerðinni fyrir till., komst stjórnin að því á síðastliðnu hausti, að selja átti húseignina nr. 16 við Hafnarstræti hjer í bænum. Það var hinn nýlátni landssímastjóri, sem benti á, að festa bæri kaup á húseign þessari, þar sem þröngt væri orðið í landssímahúsinu og plássið þar væri ekki lengur nægilegt. Hann benti ennfremur á, að 50 þús. kr. mundi kosta að flytja stöðina, vegna þeirra jarðsíma, sem liggja að henni. Hefir nú verið leitað samninga um kaup á eigninni, og fæst hún fyrir 115 þús. kr. Stjórnin gerði svo samninga á þessum grundvelli, með því fororði auðvitað, að Alþingi samþykti. Er nú hjer með farið fram á það.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um málið, en legg til, að því verði vísað til fjhn. Mun jeg svo leggja þar fram kaupsamninginn, sem gerður er um húseignina, og gefa þær upplýsingar, sem nefndin telur þurfa. Eins mætti líka fresta þessari umr., ef deildin vill, á meðan nefndin athugar málið, og fengi það þannig þrjár umr. En jeg sje þó ekki ástæðu til þess.