19.05.1927
Neðri deild: 82. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í D-deild Alþingistíðinda. (3548)

59. mál, kaup á húseigninni nr. 16 við Hafnarstræti

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson:

Jeg tók eftir því, að hv. 1. þm. Rang. (KlJ) upplýsti, að fasteignamat á húseigninni í Hafnarstr. 16 væri 49.800 kr. En nú er það kunnugt, að algengt er að selja eignir fyrir tvöfalt fasteignamatsverðið, því að matið er yfirleitt altaf mjög lágt. Munurinn sýnist því ekki vera ýkjamikill, og ef nálægð lóðarinnar við landssímann er nokkurs virði, þá vantar ekki mikið upp í þessar 15 þús. kr., sem umfram eru.

Það má vera, að núverandi landssímastjóri leggi ekki eins mikla áherslu á það að fá þetta hús og fyrirrennari hans, en þó verð jeg að segja það, að enn treysti jeg betur ráðum hins látna landssímastjóra, því að hann var búinn að sýna það, að enginn var ,,praktiskari“ fyrir símans hönd en hann. (KlJ: Það er alveg rjett; jeg játa það fyllilega). En hugsun hans var að taka þetta hús til afnota smátt og smátt, og fyrsta árið ætlaði hann að nota þar aðeins eitt herbergi. Hann áleit líka, að ekkert þyrfti að gera við húsið, þó skrifstofa hans eða aðalskrifstofur símans yrðu fluttar þangað.

Því hefir verið haldið fram, að húseignin í Pósthússtræti 11 væri ódýrari, og er það rjett, ef tekið er tillit til stærðar lóðarinnar. En þess ber líka að gæta, að lóðin við Hafnarstræti 16 er öll framlóð, en í Pósthússtræti er mikið af henni baklóð. En verðið á þeim lóðum, sem vita að götunni, er altaf hærra. Það er því ekki alt upplýst með því að tala um stærð lóðanna.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að kvöð hvíldi á eigninni í Hafnarstræti 16, og hún er sú, að pakkhús eitt megi standa þar á mörkum lóðanna við Austurstræti og Hafnarstræti. Stendur annar helmingur þess á lóðinni við Hafnarstræti 16. En nú er það ekki lengur pakkhús, og má því fá það dæmt burt, ef vill.

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) áleit, að hæstv. forsrh. hefði mælt of sterkum orðum um kostnaðinn. Jeg hallast þó mjög að því, sem hann sagði þar, enda kom þar fram sama skoðunin og jeg tók fram áðan. Það kemur auðvitað að því fyr eða síðar, að byggja verður nýtt pósthús, en það er ekki sama fyrir okkur, sem höfum nú svo miklar framkvæmdir í takinu, hvort við fáum frest á því eða ekki. (JakM: Það kemur í sama stað niður). Nei, það kemur ekki í sama stað niður. Og jeg verð að segja það, að jeg treysti betur hinum látna landssímastjóra en hv. 1. þm. Reykv. í þessum efnum. Hinn látni landssímastjóri áleit, að við mundum geta komist af með þetta hús. Átti jeg oft tal við hann um það, og sótti hann það mjög fast. Jeg sagði við hann, að þeir yrðu nú ekki ánægðir með það, er til lengdar ljeti, og kæmu brátt aftur og vildu þá fá annað nýtt. En hann sagði, að þetta mundi áreiðanlega nægja.

Það er ekki rjett hjá hv. 1. þm. Reykv., að húsinu hafi ekki verið haldið við. Það hefir einmitt verið gert mikið við það. Það hefir verið sett upp við leigjendurna, að þeir gerðu við húsið um leið og þeir fluttu inn. Þannig gerði Eimskipafjelag Íslands mikið við það á sínum tíma, þegar það hafði húsnæði þar. Þegar Forberg sál. landssímastjóri skoðaði húsið í haust, þá spurði hann alla leigjendurna um það, hve mikla húsaleigu þeir greiddu, og sagði þá við þá, að þegar hann væri orðinn umráðamaður hússins, þá mættu þeir gera svo vel og borga hærri leigu. Það er því heldur ekki rjett hjá hv. 1. þm. Reykv., að það þurfi að setja leiguna niður. Leigjendurnir búast frekar við hærri leigu en áður.