05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í D-deild Alþingistíðinda. (3562)

118. mál, yfirsíldarmatsmaður á Seyðisfirði

Björn Líndal:

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) virðist treysta meira á síldarmatsmennina heldur en þm. Ak., og hygg jeg, að það sje fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að sá hv. þm. (SvÓ) þekkir minna til starfs þeirra og þýðingar þess fyrir síldarsölu.

Það er nú svo komið, að það er lítið eða ekkert gert með verk þeirra og vottorð á útlendum markaði. Það má heita hreinasta undantekning, ef hægt er að selja síld eftir vottorðum íslenskra síldarmatsmanna, og eina gagnið, sem við getum hugsað okkur af þeim mönnum, er það, að þeir getu stundum skorið úr ágreiningi, sem verður á milli kaupanda og seljanda á nýrri síld, og þegar það kostar kr. 1,50 að fá metna hverja síldartunnu, þá verður það nokkuð dýr dómstóll. Það er vitanlega gott, að við stjórnum þessu mati á okkar vísu, en okkar höfuðskiftavinir, Svíar, gera ekkert úr þessu mati; þeir taka síldina upp og meta hana eftir eigin geðþótta fyrir því, en fara alls ekkert eftir því, sem íslenskir síldarmatsmenn segja eða gera.

Jeg á dálítið erfitt með að trúa því, að hv. þm. (SvÓ) fari rjett með það sem hann segir, að ekki hafi verið hægt að salta síld á Austfjörðum síðastl. sumar, af því að enginn matsmaður hafi verið þar. Þetta gerum við oft, og fáum hana svo metna á eftir, og þess vegna getur það alls ekki verið rjett hjá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að þessi vöntun hafi dregið úr veiðunum. Það er firra, sem ekki þýðir að telja mjer trú um, því að jeg þekki of mikið til síldarsöltunar til þess.

Jeg verð að taka undir það með hæstv. ráðh. (MG), að það er dálítið einkennilegt að heyra mann, sem þykist berjast fyrir fækkun embætta og hverskonar sparnaði, vera að berjast fyrir að koma upp yfirsíldarmatsmanni á stað, þar sem vitanlegt er, að mjög lítið hefir fiskast af síld.

Það er vitanlega alveg rjett hjá hv. þm. (SvÓ), að yfirsíldarmatsmaður stendur ekki yfir hverri söltun, heldur gera undirmatsmenn þeirra það, en það hefir kannske ekki ætíð tekist sem best með valið á þeim. En það, sem yfirsíldarmatsmanninum er ætlað að gera, er að velja þessa menn, og það getur hann eins vel gert, hvort sem það á að vera vestur á Ströndum eða austur á Austfjörðum, eða hvar annarsstaðar á landinu sem er.

Jeg tel alveg rjett að fresta aðgerðum í þessu máli, þar til betur byrjar með síldveiðina á Austfjörðum, og jeg er á móti þessari till., og bið hjer með hæstv. forseta (BSv) að bera þá ósk mína til hæstv. stjórnar, að það verði ekkert gert í þessu máli fyrst um sinn.