05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í D-deild Alþingistíðinda. (3563)

118. mál, yfirsíldarmatsmaður á Seyðisfirði

Jón Ólafsson:

Það er ekki nema eðlilegt, að hv. 1. þm. S.-M. tali ekki af nægri þekkingu um slík mál sem það, sem hjer liggur fyrir. Hann viðurkennir það, að yfirsíldarmatsmaðurinn á Akureyri hefði átt að hafa eftirlit með síldarsöltun á Austfjörðum. En það er mikill munur á því, hvort yfirsíldarmatsmaðurinn situr á Akureyri eða t. d. á Seyðisfirði. Hv. flm. (SvÓ) kannaðist við það, að skipaðir hefðu verið undirmatsmenn á þessum stöðum. En yfirsíldarmatsmennirnir geta ekki verið á hverjum firði, og verða þeir því að setja þar trúnaðarmenn í sinn stað.

Það er oft undir því komið, að upphaflega sje vel vandað til vörunnar, sem flytja á út, en að þetta sje aðalskilyrðið, dettur engum í hug, því þegar yfirmatsmaðurinn kemur til sögunnar, þá fær síldin það mat, sem nauðsynlegt er. Undirmatsmenn segja aðeins um það, hvort síld sje skemd eða eigi en þeir kveða ekkert á um það, hvort salta megi síldina eða ekki.

Það er mjög handhægt fyrir hv. þm. (SvÓ) að segja, að Austfirðingar hafi orðið fyrir tjóni og þeir hafi ekki getað selt síldina, vegna þess, að vantað hafi matsmenn. En því er til að svara, að þeir, sem ekki seldu síldina í haust, gerðu það af alt öðrum ástæðum. Þeir drógu að selja hana í von um hækkandi verð á markaðnum, en ekki af því, að vottorð matsmanna vantaði. Það eru engar reglur til fyrir því, hver stærð eða fjöldi sílda eigi að vera í tunnu hverri. Það er samkomulagsatriði kaupenda og seljenda, en matsmaðurinn vottar, að það sje svo sem samningar standa til. Annars er það aðeins um heilbrigði vörunnar, sem matsmaður vottar.

Það er ekki rjett hjá hv. þm. Ak. (BL), að síldarmatið sje þýðingarlaust, því það hefir talsverða þýðingu fyrir kaupendurna. Hinsvegar þurfa þeir framleiðendur, sem gott nafn hafa á markaðnum, einskis mats við. Og vitanlega er matið misjöfn trygging þess, að um góða vöru sje að ræða.

Það er rjett hjá hv. flm. (SvÓ), að Austfirðingar voru illa undir það búnir í landi að taka á móti síldinni síðastliðið sumar, en með þeim samgöngum, sem eru á landi hjer, þá var hægurinn hjá að ná í nægan mannskap til þess að meta vöruna. Það nær engri átt, að menn hætti að veiða síld, vegna þess, að ekki náist til matsmanna til þess að meta hana. Það má lengi um það deila, hvort það eigi að vera sjerstakur yfirsíldarmatsmaður á Austfjörðum, en eftir því sem hæstv. atvrh. (MG) hefir upplýst, þá hefir til þessa mjög lítið verið að gera fyrir matsmann þar. Árið 1921 hafði hann 1400 kr. í ferðakostnað austur, en veiðin nam aðeins 400 tunnum. Hefði vel verið hægt að skipa einhvern til þess að annast þetta mat, en láta svo yfirmatsmanninn á Akureyri leggja yfir það síðustu blessun sína. Mjer virðist, að verið sje að líta á mál þetta með gleraugum hreppapólitíkurinnar, því þörfin er ekki sú á þessu, að ekki sje hægt að koma þessu fyrir á annan og hagkvæmari hátt en hjer er farið fram á, enda var það ekki af matsmannsleysi, að Austfirðingum mistókst að selja síldina í þetta sinn.

Jeg felst algerlega á ummæli hæstv. atvrh. (MG), að best sje að sjá til, hvort nokkur veruleg veiði verði á Austfjörðum. Ef svo verður ekki, þá verður fyllilega hægt að komast af með það fyrirkomulag, sem var á matinu þar síðastliðið sumar. Ef ekki voru hæfir menn við starfann í fyrra, þá er það aðeins bending um það, að vanda betur valið nú og fara í því efni eftir till. þeirra, sem best til þekkja.