05.05.1927
Neðri deild: 67. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í D-deild Alþingistíðinda. (3567)

118. mál, yfirsíldarmatsmaður á Seyðisfirði

Halldór Stefánsson:

Þessi tillaga hefir mætt andmælum fyrir þá sök, að talið er, að ekki sje þörf á yfirmatsmanni á Austfjörðum. Það er vitanlegt, að síldveiði hefir um tíma verið lítil við Austfirði, en það er líka viðurkent, að hún fari vaxandi hin síðustu árin. Við vitum frá undanförnum tímum, að síldargöngur breytast mjög. Þær hafa verið mestar fyrir Norðurlandi og við Vestfirði, en nú lítur út fyrir, að þær sjeu að færast austur með landinu. Við vitum líka, að um eitt skeið var mikil síldveiði fyrir Austurlandi. Þegar á það er litið, að síldveiði virðist fara vaxandi við Austfirði, sýnist óvarlegt að hafa þar ekki síldarmatsmenn. Þessar ástæður gera það líka skiljanlegt, hvernig á því stendur, að Austfirðir voru ekki fullvel undir það búnir að taka á móti síldinni, þegar síldin fór að leggjast þar að á ný. Nú kemur það fram annarsvegar, að sumir, sem kunnugir eru síldarverkun, eins og t. d. hv. þm. Ak. (BL), telja síldarmatið mjög gagnslítið. Jeg get ekki blandað mjer inn í þá deilu. En ef það er svo, þá á afleiðingin ekki að vera sú, að ekki eigi að vera síldarmatsmaður á Austfjörðum, eins og öðrum stöðum, heldur á þá að afnema þá alveg. En þetta álit hv. þm. Ak. er enn ekki viðurkent, heldur er þetta atriði nú undir rannsókn eftir því sem hæstv. atvrh. hefir skýrt frá. Meðan ekki er úr þessu skorið, verður að halda því fram, að rjett sje að hafa yfirmatsmann á Austfjörðum. Jeg verð að segja það, að yfirmatsmaðurinn á Norðurlandi hefir ekki mikið að gera, ef það á að vera trygt, að Austfirðir geti haft hans full not hvenær sem er. Að veiðitíminn sje stuttur og ekki ástæða til að hafa fastan starfsmann, má vera, en um það gegnir alveg sama máli á Austurlandi og á Norðurlandi. Mjer dettur ekki í hug að bera þær ásakanir á stjórnina, að hún hafi látið niður falla skipun síldarmatsmanns á Austfjörðum í því skyni að gera Austurlandi tjón. Það dettur sjálfsagt engum í hug að bera það fram. En hitt er annað mál, hvort það hefir ekki bakað Austfirðingum tjón, að ekki var skipaður þar síldarmatsmaður.