07.05.1927
Efri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í D-deild Alþingistíðinda. (3576)

192. mál, umboðsmaður sáttasemjara á Austurfjörðum

Flm. (Jón Baldvinsson):

Austfirðir eru sá hluti landsins, sem erfiðast eiga með símasamband við Reykjavík. Það má yfirleitt heita ógerningur, að þaðan sje hægt að tala hingað, nema því að eins, að vel standi á og allar línur sjeu í ákjósanlegasta lagi. Að þessu leyti eru Austfirðir verst settir gagnvart starfsemi sáttasemjara í vinnudeilum. Alstaðar annarsstaðar á landinu getur sáttasemjari svo að segja á hvaða tíma sem er haft samband við aðilja og fengið þá til þess að fara eftir þeim bendingum, sem hann telur rjettar, og fengið menn til þess að miðla málum í kaupþrætum.

Fyrir þessa erfiðleika, sem Austfirðir eiga við að búa, þá telja verkamannafjelögin á Austurlandi rjett, að sáttasemjari hafi þar umboðsmann, sem gæti gripið inn í í vinnudeilum, þegar ástæða þætti til. Það er álitið hentugra, að hann hafi umboðsmann fyrirfram, því að altaf er dálítið erfiðara að setja slíkan mann, þegar deilur eru byrjaðar; þá eru menn viðkvæmari um slíkt val og hættara við, að viðleitni umboðsmanns komi síður að gagni.

Nú býst jeg ekki við, að þetta þyrfti að kosta neitt verulegt; og þó að í lögum um sáttasemjara í vinnudeilum sje ekki beinlínis tekið fram, að hann setji umboðsmenn, þá er þó gengið út frá því í umræðunum um það mál á þinginu 1925. Það var beinlínis tekið fram af hendi framsögumanns í Nd., að svo sje til ætlast, að þar, sem sáttasemjari ekki nái til á landinu, geti hann sett umboðsmann fyrir sína hönd.

Nú hefi jeg átt tal við hæstv. atvrh. (MG) um þessa till., áður en jeg bar hana fram, og skildist mjer hann ekkert hafa við hana að athuga; hann vildi reyna að hlutast til við sáttasemjara, að hann framkvæmdi það, sem till. fer fram á.

Það getur haft allmikla þýðingu að hafa mann, sem getur gengið á milli í vinnudeilum, því að það er kannske örðugasti hjallinn í þessum deilumálum, að báðir málspartar nálgist hvor annan í samningum; því að sá, sem byrjar á samningum, á það á hættu, að hinn aðilinn telji hann veikari fyrir, og telji sjer því óhætt að halda sínu striki. En ef þriðji aðilinn getur gengið þarna á milli, geta í mörgum tilfellum samningar tekist, jafnvel þótt sá aðili hafi ekki vald til þess að segja, að samningar skuli gerðir.

Jeg vænti þess vegna, að till. þessi verði samþ. og hæstv. stjórn hafi ekki á móti að framkvæma hana, að svo miklu leyti sem í hennar valdi stendur.