09.05.1927
Efri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í D-deild Alþingistíðinda. (3592)

128. mál, sparnaðarnefndir

Flm. (Jónas Jónsson):

Hæstv. forsrh. (JÞ) er í vafa um, hver ætti að kjósa sparnaðarnefndina eftir tillögu minni. Jeg álít, að um tvent geti verið að ræða, og fari það alveg eftir því, hvað hæstv. forseta sýnist rjett að úrskurða, hvor leiðin verður valin. Að forminu til sýnist eðlilegast, að sú þingdeild, sem ályktunina gerir, framkvæmi einnig kosninguna. En þar sem um svo lofsamlegt efni er að ræða, hafði jeg hugsað mjer að biðja hæstv. forseta að úrskurða, hvort kosningin skyldi fram fara hjer eða í Sþ. Það er óneitanlega meiri virðing við málið og sýnir meiri áhuga Alþingis, að sameinað þing kjósi nefndina. En till. bar jeg fram í þessari hv. deild, sakir þess, hve sjaldan eru fundir í sameinuðu þingi.

Það var undarlegur misskilningur hjá hæstv. forsrh. að halda, að endilega þurfi að vera eintómir þingmenn í þessari nefnd. Það er ekki sagt einu orði í tillögunni, heldur getur Alþingi kosið hverja þá menn, er það hefir best traust til. Sömuleiðis var það misskilningur, að jeg hefði talað um sameiningu póststöðva og símstöðva. Jeg hefi aldrei minst á það mál, enda var það til umr. í neðri deild en ekki hjer.

Það gladdi mig að heyra, að hæstv. ráðh. (JÞ) játaði, að þörf væri á nýju skipulagi, og fyrir honum virtist vaka eitthvað mjög svipað eins og mjer. Jeg skil hann svo, sem hann vilji láta fram fara nákvæma rannsókn á landsreikningnum og fylgiskjölum hans. En ákaflega fáir hafa aðgang að þeim fylgiskjölum, í raun og veru ekki aðrir en yfirskoðunarmenn landsreikninga og stjórnarráðið. En nú hefir hæstv. landsstjórn ekki komið með neinar sparnaðartillögur, bygðar á útreikningum úr fylgiskjölunum eða rannsókn á þeim. Það taldi jeg næga sönnun þess, að hæstv. stjórn hefði lítinn áhuga á málinu. Það er einnig vitanlegt, að endurskoðunarmenn þeir, er starfa í stjórnarráðinu og nákvæmast skoða landsreikninginn og öll fylgiskjöl hans, hafa enga aðstöðu til að koma sparnaðartillögum á framfæri. Fyrir þessar sakir lagði jeg til, að Alþingi tæki sjálft að sjer forstöðuna fyrir þessu máli.

Jeg skal játa, að margt mælti með því að hafa nefndina launaða. Þá mátti ætlast til meiri vinnu af henni og að hún gæfi sjer betri tíma til starfa. Þó valdi jeg hina leiðina, mikið vegna þess, að mjer þótti óviðfeldið, að sparnaðarnefnd eyddi miklu fje, án þess að sjeð væri um eftirtekju af starfi hennar, a. m. k. í bili. Þótt Alþingi fjellist á einhverjar niðurskurðartillögur, þá eru þær oft lengi að komast í framkvæmd. Hefði því getað farið svo, að fyrst um sinn hefði nefndin aðeins orðið til að auka útgjöld ríkissjóðs.

Aðalgallinn á því fyrirkomulagi, sem mjer virðist vaka fyrir hæstv. ráðh. (JÞ), er sá, að ef skipaðir yrðu 1–2 menn úr hverri stjett, kennari til að endurskoða kennarastjettina, prestur prestastjettina o. s. frv. (JÞ: Það hefir mjer aldrei komið til hugar) — þá væri það sama eins og að ætla músunum að hengja bjölluna um háls kattarins. Og þótt þeir ættu ekki að vera úr sömu stjett, eins og nú er að heyra á hæstv. ráðh., þá mundi slíka endurskoðunarmenn vanta alt yfirlit. Það yrði alveg sami gallinn eins og þegar Sigurður Eggerz vildi fækka sýslumönnum. Það vantaði alt samræmi. Menn spurðu þá með miklum rjetti, hví ekki væri gripið niður víðar. Þegar talað var um að lengja vinnutíma hjá kennurum og hjá starfsmönnum stjórnarráðsins, var alveg sama máli að gegna. Og þá fór svo, að sumir af starfsmönnum þessarar háu stofnunar neituðu að hlýða. (JÞ: Sei-sei-nei!). Ójú; það var í atvinnumálaráðuneytinu. (JÞ: Rangt!). Nei, það er áreiðanlega rjett, enda hefir það sýnt sig, að þar er alveg komið í sama horfið og áður um vinnutíma. Þessar tilraunir hafa gengið svo illa sakir þess, hve skipulagslaust hefir verið að verkinu gengið.

Sparnaðinn verður að framkvæma þannig, að færri menn þurfi til að leysa verkin af hendi. Það er óhugsandi að spara mikið á því að breyta launakjörum hinna lægst settu embættismanna, kennara eða skrifstofumanna í stjórnarráðinu. Þar ber okkur hæstv. ráðh. (JÞ) og mjer enn á milli, því að mjer skilst, að hann álíti aðalmöguleikana fyrir minkandi útgjöldum í því að lækka laun ýmissa undirmanna við opinbera starfsemi.

Þá mintist hæstv. ráðh. lítið eitt á þau dæmi, er jeg nefndi af handahófi. Samninginn við þann bankastjóra Íslandsbanka, er 40 þús. kr. árslaun hefir, kvað hann vera gamlan og til orðinn áður en hann sjálfur kom í bankaráðið. En hann gat ekki um það, að samningurinn er aðeins gerður til nokkurra ára. Og þar sem hæstv. ráðh. er nú svo sparsamur, vil jeg leyfa mjer að spyrja hann, hvort hann hafi ekki hugsað sjer að beita aðstöðu sinni til að fá þetta lagfært, ef samningurinn rennur út, meðan hann er í bankaráðinu. Aftur á móti mintist hæstv. ráðh. ekki á 18 þúsundirnar, sem Mogensen fær í laun. Enda má víst telja, að þau laun sjeu löghelguð af stuðningsmönnum hæstv. stjórnar á Alþingi. Hv. Nd. hafði samþykt sparnaðarfrv. einmitt um þetta atriði, en þessi hv. deild kæfði það. Hinum atriðunum, um varðskipin og um það, að taka unglingafræðsluna í Reykjavík á landssjóð, svaraði hann aðeins að hálfu leyti. Ef samskólafrv. nær fram að ganga, er vitanlega óhjákvæmilegt að koma líku sniði á unglingafræðslu um alt land. Þar með starfsmönnum hins opinbera fjölgað, án þess að sett sjeu nokkur takmörk. Það, að hæstv. landsstjórn vill skapa svo fjölmenna embættismannastjett utan um unglingafræðsluna, sýnir, að hún er ekki hrædd við að sjá framan í nokkra embættismenn í viðbót. Hjer má einnig minna á frv. til 1. um heimavistir við mentaskólann. Þar er farið fram á, að stofnað verði sjerstakt umsjónarmannsembætti, að því er virðist alóþarft, því að við tvo svipaða skóla hafa forstöðumenn skólanna þessa umsjón. — Enn ber að sama brunni um launin á varðskipunum. Hæstv. landsstjórn hefir samningsbundið þau svo hjá skipstjórunum, að ekki er hægt að fá þau lækkuð, þótt verðgildi krónunnar hækki um 20%.

Jeg tók það ennfremur fram í umr. um þetta mál, að það getur farið svo, að gildi peninganna breytist þannig, að til skaða verði fyrir landið að hafa fest þessa 40–50 menn á varðskipunum á samningsbundnum launum til langs tíma. Meðal annars er það undarlegt, ef kyndarar á þessum varðskipum þurfa að vera launaðir eins hátt og prestar, þar sem önnur stjettin þarf margra ára undirbúning, en hin engan.

Hæstv. ráðh. (JÞ) bjóst við, að það þyrfti ekki mikla nefndarfundi í slíkri sparnaðarnefnd. (Forsrh. JÞ: Jeg talaði um, að það þyrfti annað en nefndarfundi). Jeg tók þetta sem dæmi, af því að þetta er að gerast, að nú situr 5 manna nefnd þingmanna á rökstólum og hefir lagt ekki óverulega vinnu — meðal annars með nefndarfundum — til þess að leiða til lykta ákveðið mál. Jeg trúi ekki öðru en stjórnin geti lagt til 1–2 menn í þessa nefnd, og þá trúi jeg ekki öðru en að andófsflokkarnir hjer legðu til 1 eða jafnvel 2.

Þótt þetta sje samþ., þá útilokar það alls ekki, að stjórnin geti þar að auki komið með allar þær sparnaðartill., sem fyrir henni kunna að vaka. Það getur á engan hátt rekið sig á. Því meiri og gagnlegri vinna sem framkvæmd er í þessu efni, því meiri von um árangur. Mjer þætti gott, ef hæstv. stjórn vildi muna vel eftir þessum tveimur dæmum, launum þessara manna við vínverslunina og till. stjórnarinnar um að koma allri unglingafræðslu yfir á ríkið, og athuga, hvort þar hafi gætt mjög mikillar umhyggju um það, hvernig ódýrast mætti koma þessu fyrir.

Það er yfirleitt venja, að hver stjett reyni að halda saman og halda því fram, að ekki sje hægt að spara hjá sjer. Þannig vil jeg ekki fara að, og nefni þá stjett, sem jeg tilheyri, en þó ekki af því, að jeg búist við, að hægt sje að spara þar meira en annarsstaðar. Og jeg tek það strax fram, að þær hugmyndir, sem jeg hefi um sparnað þarna, eins og í öðrum greinum, eru aðallega bundnar við samfærslur og fyrirkomulagsbreytingu, en ekki lækkun launa. Jeg skal benda á, að utan Reykjavíkur eru allmargir prestar, sem áreiðanlega gætu komist yfir meira verk en þeir leysa af hendi nú. Það má nefna, að einn prestur þjónar öllum Eyjafirði framan Akureyrar. Ef maður tekur önnur undirlendi landsins, þá eru kannske 2–4 prestar á álíka svæði. Og það var dálítið leiðinlegt, að það var feld nýlega till. í fjárlögum einmitt í þá átt, að úrvalsprestar gætu notið sín betur. (Forsrh. JÞ: Póstpresturinn?). Já, það er einmitt sá, sem með pósti átti að flytja það andlega verðmæti, en hæstv. ráðh. hefir ekki nægilega víðsýni til þess að sjá, að þetta er einmitt það, sem á að gera, að láta duglegu mennina, hvort sem þeir eru í prestsstöðu eða annarsstaðar, hafa nógu mikið að gera og hæfileg laun, en hafa svo ekki of marga. Jeg gæti enda trúað því, að það væri töluvert betra að hafa færri menn í stjórnarráðinu, en borga þeim betur; og ef til vill hafa stjórnirnar sýnt litla fyrirhyggju um það, hvernig þar var hagað vinnubrögðum á þeirra eigin skrifstofum.

Jeg ætla þá ekki að segja meira að sinni, ef svo stendur á, að hæstv. ráðh. ætlar að bregða sjer frá, að hann geti áður látið ljós sitt skína.