09.05.1927
Efri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í D-deild Alþingistíðinda. (3593)

128. mál, sparnaðarnefndir

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg met mál hv. 1. landsk. svo mikils, að jeg læt ekki draga mig inn í Nd., þótt mjer sje brýn nauðsyn á að vera við umr. þar á sama tíma.

Hv. 1. landsk. (JJ) sagði, að þessi stjórn hefði setið mörg ár og hefði ekki komið með neinar till. bygðar á reikningum yfir opinberan kostnað. Þarna kemur enn einn misskilningur á þessu máli. Stjórnin þarf ekki að koma með neinar till. til þingsins, þegar hún vill gefa forstöðumönnum stofnana eða þeim, sem hafa opinbera starfrækslu, fyrirskipanir um það, hvað mikið þeir megi kaupa og hvað þeir megi borga. Það er fyrirkomulagsatriði, sem heyra undir stjórnina eingöngu. Hv. 1. landsk. skal varlega fullyrða, að ekkert hafi verið gert á því sviði, enda fullyrti hann það nú ekki. Hann vísaði í það, að slík rannsókn á þessu, sem hjer er um að ræða, hafi ekki verið gerð fyr, og kallaði aðgerðaleysi. Jeg hefi um þetta hugsað áður, og mjer hefir fundist, að ekki væri hægt að gera sjer von um, að slík rannsókn yrði framkvæmd með árangri, fyr en maður hefði reikninga ársins 1926 til þess að fara eftir. Jeg sá mjer ekki fært að taka reikninga stofnana fyrir 1925 og fara á þeim að byggja neinar aðfinslur. Það er vegna þess, að verðlag alt í landinu 1925 dró svo mikinn dám af því lággengi, sem var næsta ár á undan, að allar tölur 1925 hlutu að verða ósamræmanlegar við það, sem á að verða eftir því peningagildi, sem nú er og aðallega komst í sitt núverandi horf á haustinu 1925. Árið 1926 er fyrsta árið, að mjer finst, sem hægt er að líta á til rannsóknar á því, hvort forstöðumenn stofnana hefðu látið sín útgjöld fylgjast með verðlagsbreytingunni; og þá er ekki í raun og veru heldur hægt að veita neinar átölur fyrir það, þótt kostnaður á ýmsum sviðum 1926 hafi borið nokkrar menjar af því verðlagi, sem var hjer mestan hluta ársins 1925. Jeg geri sem sagt ráð fyrir því, að það rjetta í þessu máli sje það, að jafnóðum og reikningar fyrir árið 1926 koma inn — og þeir eru nýbyrjaðir að koma inn — þá eigi að taka til athugunar, hvers sje rjett að krefjast um niðurfærslu á starfrækslukostnaði. Mjer hefir aldrei komið til hugar að velja einn eða tvo menn úr hverri stjett til þess að rannsaka sjerstaklega útgjöld í þeirri stjett; með því fæst náttúrlega ekkert samræmi í starfið. Það verða yfirleitt að vera að einhverju leyti sömu „kritisku“ endurskoðendurnir, sem ganga gegnum þetta á fleiri sviðum.

Svo fór hv. þm., eins og hans er vandi, út í allra handa útúrdúra, sem ekki komu þessari till. vitund við. Hann talaði um, að þegar stjórnin vildi spara mannahald í stjórnarráðinu með því að lengja starfstímann, þá hefðu starfsmenn þar neitað að hlýða. Þetta er alveg tilhæfulaust. (JJ: Sumir!). Engir. Það var lengdur starfstími í stjórnarráðinu úr 5 st. og upp í 6, hjá þeim, sem höfðu áður á annað borð takmarkaðan vinnutíma; skrifstofustjórar og einstakir menn aðrir vinna miklu lengur á degi hverjum en þessar 5 klukkustundir, sem skrifstofumar eru opnar. En það var þingið, sem brást svo illa við till. núverandi stjórnar um þennan sparnað, að það feldi allar þær till., sem til þingsins þurftu að koma um lengingu á starfstíma opinberra starfsmanna. Og þá sagði stjórnin strax: Ef þingið vill ekki sinna þessu neitt á því sviði, sem til löggjafarvaldsins þarf að koma, þá mun stjórnin heldur ekki halda áfram þeim kröfum til starfsmanna stjórnarráðsins einna, að þeir, með þeim lágu launum, sem þeim eru goldin, bæti á sig starfstíma. Þetta vissi þingið áður en það feldi till. stjórnarinnar um að fjölga kenslustundum hjá kennurum, svo að heimtað yrði það sama af þeim og minst er heimtað í nágrannalöndunum. En þingið ljet sjer ekki segjast og feldi alt, sem var farið fram á í því efni; þar með gaf þingið stjórninni yfirlýsingu um, að það óskaði ekki eftir, að starfstími starfsmanna í stjórnarráðinu yrði lengdur með óbreyttum launum. Þá var tíminn styttur aftur í 5 stundir, og það er algerlega þingsins verk. Svona hefir farið yfirleitt með aðrar sparnaðartill., sem voru þess eðlis, að þær þurftu þingsins samþykkis. Jeg er búinn að sjá svo mikið af því, að jeg er alveg sannfærður um, að það þýðir ekkert að halda áfram að brjóta upp á einu og öðru við þingið; það verður felt. En á því sviði, sem stjórnin ræður yfir, geri jeg ráð fyrir, að hægt sje að ávinna nokkurn sparnað með þeirri aðferð, sem jeg hefi nefnt, að koma verkunum þannig fyrir, að færri menn þyrfti, eins og hv. 1. landsk. líka nefndi, en það er venjulega ekki hægt að gera nema með því að lengja starfstíma, en láta launin halda sjer. Það hefir nú verið gerð tilraun til þess af núverandi stjórn að fá þingið til þess að ganga inn á þetta, en ekki tekist. Hvað snertir skólahald, hefir verið bent á það, að eitthvað mætti ávinna með því að færa saman skóla. Þá hugmynd hefir stjórnin viljað taka upp með frv. um samskóla, sem liggur fyrir þinginu. Þar er farið fram á að sameina 4 skóla. 3, sem nú eru til, og 1, sem þarf að stofna, til þess að hægt sje að hagnýta betur kenslukraftana.

Úr því að jeg nú mintist á þetta frv., þá vil jeg aðeins segja það, að það kemur enn þá fram sami misskilningur eins og áður hjá hv. 1. landsk. (JJ), að hann heldur, að það sje dýrara fyrir ríkissjóð að ákveða laun í launalögum með dýrtíðaruppbót heldur en að kaup sje ákveðið á annan hátt. Þessu til sönnunar skal jeg aðeins nefna það, sem allir vita, að bæði í Reykjavík og annarsstaðar hafa á þessu ári, og raunar á síðasta ári líka, lækkað talsvert mikið laun allra kennara, sem taka borgun eftir launalögunum. Sá kennari, sem fekk 178 krónur 1925, fær í ár ekki nema 144 kr. Mismunurinn er 34 kr., og nemur lækkunin um 20%. En hvað er um stundakenslukaup? Jeg veit ekki annað en að það sje enn í dag það sama hjer í bænum eins og 1925.

Þetta nefni jeg bara sem dæmi til að sýna, hvað erfitt það er að fá kauplækkun á því sviði, þar sem kaup er ekki ákveðið eins og gert er í launalögunum. Sparnaður á ríkisfje er í því fólginn að halda í hófi þeim framkvæmdum, sem ætlast er til að ríkissjóður kosti; en hitt er ekki sparnaður, að setja á stofn framkvæmdir og heimta, að ríkissjóður kosti, en neita um það, að kaup sje ákveðið þannig, að það lækki með lækkandi dýrtíð.

Það getur verið, að það geti, svona rjett fyrir kosningarnar, vilt einhverja kjósendur, sem ekki fylgjast ákaflega vel með í þessum málum, þegar hv. 1. landsk. fer að klifa á því, að hinir hafi viljað stofna svo og svo mörg embætti; en „jeg og mínir menn“ stóðu á móti. En jeg veit, að eftir þessar nákvæmu útskýringar mínar, þá veit hv. 1. landsk. það, að í hvert skifti, sem hann ber þetta fram, utan þings og innan, er hann að reyna að villa mönnum sýn.

Leiðinlegt þótti mjer það — þó að það kannske sje ekki með öllu óvenjulegt — að heyra hv. 1. landsk. segja alveg ósatt frá frv., sem nú er í meðferð í nefnd, sem hann sjálfur á sæti í, um heimavistir við hinn almenna mentaskóla. Hann sagði, að í því frv. væri farið fram á að stofna eitthvert nýtt embætti. Mjer komu þessi um mæli á óvart og fór að hugsa um, hvort mjer hefði yfirsjest, las frv. og sannfærði mig um, að svo er ekki. (JJ: Handa hverjum er íbúðin?). Það stendur engin íbúð í frv. Hvað hv. Nd. hefir sett inn í frv., skal jeg ekki svara fyrir, en jeg hefi stjfrv. fyrir framan mig og veit, að þessi ummæli eru alveg tilhæfulaus. En þótt jafnvel einum kennara væri ætluð íbúð í þessu húsi, er það alt annað en stofna nýtt embætti.

Mjer þótti dálítið ósamræmi í því hjá hv. flm., þegar hann fór að tala um fækkun presta, hvað hún væri auðveld; í stað þess að benda á einhvern prest, sem hefir of lítið prestakall, þá bendir hann á einn, sem alment er altaf vitnað í, þegar talað er um of stór prestaköll, sem sje prestinn í framhluta Eyjafjarðar. En svo í næstu andránni fór hann að flytja harmatölur yfir því, að deildin hefði felt till. um að bæta einum í stjettina, sem sje póstprestinum. Mjer sýnist það sannast að segja ekki nógu hreinn sparnaðarhugur, sem kemur fram hjá hv. 1. landsk., þegar hann í miðju sparnaðartalinu getur verið að harma það, að staðið var á móti jafnalóþörfu embætti og þessi póstprestsmenska er.

Hv. þm. sagði, að stjórnin gæti lagt til menn í nefndina. (JJ: Hennar flokkur). Það er þá annaðhvort þing eða þingdeildir, sem eiga að kjósa menn í þessa nefnd. Og þó að stjórnin eigi náttúrlega að hafa mikið hlutverk í þjóðfjelaginu, þá má þó ekki gleyma því, að þegar þingið tekur rögg á sig til einhvers, þá er ekki meiningin, að það sje aðeins að nafninu til þingið, en í raun og veru sje það stjórnin, sem vinni verkið. Jeg tek það því fram, að það má ekki neinn hv. þm. samþ. þessa till. með þá hugsun, að stjórninni beri að leggja til mennina, þegar til kemur.