09.05.1927
Efri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í D-deild Alþingistíðinda. (3598)

128. mál, sparnaðarnefndir

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg heyrði ekki alt, sem hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) sagði, af því jeg var við umræður í Nd. En mjer skildist hann hafa eftir mjer, að ekki væri hægt að framkvæma sparnað nema með samþykki þingsins. Jeg sagði, að það hefði reynst ómögulegt að framkvæma sparnað á þeim sviðum, sem samþykki þingsins þurfti til, því að alt, sem stungið hefði verið upp á í þá átt, hefði verið felt í þinginu. Að vísu var samþykt fækkun embætta við hæstarjett, en sú ráðstöfun þykir nú orka nokkurs tvímælis. (JJ: Stjórnin bar það fram). Já, það hefir verið stjórnin, sem borið hefir fram flestar sparnaðartillögur, sem fram hafa komið, en hún hefir ekki haft þann meiri hluta hjer í þinginu, að tillögur hennar gætu orðið ofan á. Það er hv. 1. landsk. (JJ), sem stýrir mótherjunum, og hann hefir haft nægilega mikið bolmagn til þess að standa á móti sparnaðartillögum stjórnarinnar. Það getur verið, að bornar hafi verið undir þingið einhverjar breytingar í sparnaðarátt, sem stjórnin hefði kannske getað framkvæmt án lagabreytingar. En hv. þm. A.-Húnv., má ekki halda eða ætlast til, að stjórnin framkvæmi þær breytingar eftir að þingið hefir neitað að samþ. þær. Það er yfirleitt ekki gert í löndum, sem búa við þingræðisstjórn.

Það hefir komið fram till. um að vísa þessu máli til stjórnarinnar. Jeg tek enga afstöðu til þess. En ef það verður gert, mun stjórnin reyna að framkvæma það áform sitt, að taka reikninga opinberra stofnana til „krítiskrar“ endurskoðunar, í því skyni að athuga, hvort ekki getur einhversstaðar verið um sparnað að ræða.