22.03.1927
Neðri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

73. mál, vörutollur

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Eins og ráða má af nál. fjhn. á þskj. 168, þá þykir nefndinni lítils um þetta frv. vert. Samkvæmt verslunarskýrslum fyrir árið 1923, en yngri skýrslur eru ekki til, var innflutningur þessarar fóðurtegundar 200 tolleiningar. Nú er hver tolleining 1 kr. til tolls, svo að sú upphæð, sem farið er fram á að ljetta af, nemur aðeins 200 kr. Þessi fjárhagslega hlið málsins skiftir því bæði ríkissjóð og kaupendur fóðurbætisins mjög litlu, þar sem innflutningurinn er svo lítill. Það var meir vegna samræmis, að nefndin vildi fallast á frv. Ýmsar líkar fóðurbætistegundir eru fluttar inn, og eru tollfrjálsar. En sú tegund, sem um ræðir í frv., er talin sú besta af þessum fóðurbætistegundum. Þá er og hey tollfrjálst, og er þó minni ástæða til þess, þar sem þess er aflað í landinu sjálfu. Loks er þess að geta, að það er alment svo, að þær vörur, sem fluttar eru inn til beinnar framleiðslu, eru alment undanþegnar vörutolli.

Jeg fjölyrði svo ekki meira um þetta. Jeg býst við því, að hv. þdm. geti fallist á ástæðurnar fyrir því, að frv. nái fram að ganga.

Þá vil jeg minnast á brtt. nefndarinnar á þskj. 211, sem fer fram á að undanþiggja tolli endursendar umbúðir um útfluttar iðnaðarvörur. — Við athugun á frumvarpinu um toll á innlendum vörutegundum komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að undanþiggja bæri þessar umbúðir tolli. Nefndin hafði sjerstaklega í huga sódavatn. Við höfum betri skilyrði en flestar þjóðir til þess iðnaðar, vegna góðs vatns, og má því telja líklegt, að tekist geti að vinna markað fyrir það erlendis. En þá er rjett, að endursendar umbúðir um það sjeu undanþegnar tolli. Og þar sem lá fyrir breyting á vörutollslögunum, þá þótti nefndinni þessi brtt. eiga hjer best heima. Jeg vona, að hv. deild fallist á þessa brtt., svo að ekki sje ástæða til að fjölyrða um hana.