22.03.1927
Neðri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

73. mál, vörutollur

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg kann hv. fjhn. þakkir fyrir það, að hún er sammála um, að þetta frv. eigi fram að ganga. En jeg vil samt taka það fram, að þetta mál er stærra en nál. ber með sjer, þó að það að vísu verði ekki kallað stórmál. Það má nefnilega alls ekki ráða það af innflutningnum á þessari fóðurbætistegund, að þetta sje lítilfjörlegt mál, því að tollurinn á þessari fóðurbætistegund hefir verkað sem innflutningsbann. í staðinn hafa menn keypt fóðurblandanir og þannig komist undir kornvörutollinn. En á þann hátt verður þetta fóður dýrara. Jeg vil enn benda á það, að tolllöggjöfin á ekki að stuðla að því, að við verðum að fóðra búfjeð á óhaganlegan hátt. Vanti efni, t. d. eggjahvítuefni, í fóðrið, þá verða afurðirnar háðar því, hvað gripurinn fær af þessari fóðurtegund, svo að um hina mestu eyðslu er að ræða, ef það er sparað að nota hana. Lögin mega ekki stuðla að slíku.