23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í D-deild Alþingistíðinda. (3640)

54. mál, milliþinganefnd um hag bátaútvegsins

Jón Ólafsson:

Jeg sje, að hv. sjútvn. hefir ekki viljað fallast á þá skoðun mína í þessu máli, sem jeg setti fram við fyrri umr., að heppilegast væri, að stjórn Fiskifjelagsins væri falið að rannsaka þetta mál í samráði við lögfræðilega aðstoð frá ríkisstjórninni.

Það einkennir annars þetta þing, að menn vilja setja hverja milliþinganefndina eftir aðra. Það er nú búið að fella eina slíka tillögu. Svo á að setja milliþinganefnd til að rannsaka landbúnaðarlöggjöfina, og það tel jeg að vísu rjett, því að þar er um að ræða víðtækt mál og margþætt, sem þurfa mun sjerþekkingu til, að góð lausn fáist á. En það er alt öðru máli að gegna um það, sem hjer liggur fyrir. Jeg veit annars ekki, hvernig þessari nefnd er ætlað að starfa. Eftir nál. að dæma er henni ætlaður stuttur tími, en eftir till. sjálfri allvíðtækt starfssvið. Ef hún á að grafa fyrir ræturnar í þessu efni og koma með ráð, sem duga mega til að bæta hag útgerðarinnar, held jeg, að starf hennar yrði mikið og ekki á færi fárra manna að ljúka því á stuttum tíma, enda um sum atriði svo háttað, að ekki er á neinna manna færi að koma þar með ráð, sem duga. Það er spurning, hvort við höfum nokkuð með það að gera að fá skrifaða raunasögu ísl. útgerðarinnar, og ef til vill einhverjar tilgangslausar tillögur, ef þær yrðu þá nokkrar.

Í fyrsta lið till. er mikið lagt upp úr því, að finna þurfi ráð til þess að draga úr áhættunni við útgerðina og gera hana kostnaðarminni. Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) ætti að vita eins vel og jeg, að hver einasti maður, sem fæst við útgerð, er altaf á verði um þetta, reynir að draga úr útgerðarkostnaðinum með því að lækka kaup manna. reynir að komast að hagkvæmum innkaupum á því, sem til útgerðarinnar þarf o. s. frv. Jeg býst ekki við, að hv. 4. þm. Reykv. (HjV) vilji samþykkja, að settur sje lágur taxti um kaupgreiðslu á þessum bátum, en það er það eina, sem hægt er að spara á. Við getum ekki ráðið því, hvaða verð er á veiðarfærum og öðrum útlendum vörum, sem til útgerðarinnar þarf. Að því er snertir breyttar og bættar veiðiaðferðir, býst jeg ekki við, að orðið geti nein bylting. Fiskifjelagið hefir verið á verði í þeim efnum og reynt að greiða fyrir útgerðarmönnum með því að benda á, hvað best mætti fara Annað mál er það, hvort eftir þeim bendingum hefir verið farið. Því getur valdið bæði efnaskortur og svo vantrú útgerðarmanna á þau ráð, sem gefin kunna að hafa verið. Eins mundi fara um tillögur og ráðgjafir frá þessari milliþinganefnd. Útgerðarmenn mundu skoða í sinn eigin barm og leggja niður fyrir sjer, hvort það mundi borga sig að fara eftir skriffinsku þessarar nýju nefndar. Nýjum tilraunum fylgir altaf nokkur áhætta. Þær veiðiaðferðir munu nú yfirleitt notaðar hjer, sem bestar eru taldar á Norðurlöndum. Jeg geri ráð fyrir því, að þótt þessi nefnd settist á rökstóla, hefði hún ekki annað að bjóða en orð, orð, innantóm, eins og hv. sjútvn. þessa þings.

Þriðja atriðið, hvernig hagnýta megi fiskúrgang, hefir verið athugað á fiskiþinginu og af erindreka fjelagsins, en það mál strandar á því, að við höfum ekki hjer svo stórar fiskstöðvar, að það borgi sig að setja upp verksmiðju til þeirra hluta, nema ef það væri í Vestmannaeyjum og Sandgerði. Þetta hefir verið reynt á Vestfjörðum, en fallið niður, líklega af því að það hefir ekki borgað sig. Það má líka leita upplýsinga um þetta og gera áætlanir, sem byggja megi á, án þess að skipa milliþinganefnd til þess. Það mætti t. d., blátt áfram sagt, fela Fiskifjelagi Íslands alla þessa rannsókn og að það leggi till. sínar fyrir næsta þing.

Jeg skal t. d. nefna 4. lið till., þar sem rannsaka á, hvernig hægt sje að útvega bátaútveginum rekstrarfje, jafnhliða því að gera bátana veðhæfa. Þetta er vitanlega aðalatriðið í till. En það er alveg eins hægt að segja það strax eins og síðar, að eins og stendur, eru bátamir óveðhæfir og hafa verið það síðan 1914, að lögin um sjóveð voru sett. Því það gengur fyrir öllu, svo sem kunnugt er. Jeg býst ekki við, að það vaki fyrir hv. 4. þm. Reykv. (HjV) að taka þetta af bátaútveginum. En eftir minni hyggju ætti að ljetta þessu af honum, svo að þessi útvegur geti blómgast sem best.

En nú er svo komið, að fiskiveiðasjóður getur engin lán veitt, enda ekki hægt að veita lán, nema gegn tryggingu. Það hefir líka komið á daginn, að óhlutvandir útgerðarmenn hafa látið allan útgerðarkostnaðinn lenda á þeim, sem lánuðu fje til skipsins. Og á meðan svo stendur, eru lítil líkindi til, að þessi útvegur blómgist eða beri sig. En það þarf enga milliþinganefnd til þess að skipa fyrir um þetta atriði. Það er Alþingis sjálfs að gera það, eftir till. hæstv. stjórnar og Fiskifjelags Íslands.

Annars er mjer óskiljanlegt, að þessi leið skuli farin, þegar alt er gert til þess að spara ríkissjóði óþarfa útgjöld. Það er líka skoðun ýmsra, að sumir starfsmenn ríkisins sjeu ekki það störfum hlaðnir, að þeir geti ekki bætt þessari rannsókn á sig. En burtsjeð frá því, höfum við stofnun, sem hefir sjerþekkingu á þessum hlutum, og það er Fiskifjelag Íslands, og hvers vegna þá ekki að nota þá krafta?

Jeg hefi rekið útgerð alt frá róðrar bát og upp í togara, og jeg get ekki sjeð, að neinar ástæður mæli með því, að skipið sje sjerstök milliþinganefnd á ríkislaunum til þess að rannsaka þetta efni. Á meðan reykurinn stendur upp í loftið og alt gengur sinn vanagang, þarf ekkert að gera. En þegar menn lenda í vandræðum og bátaútvegurinn lendir á glapstigum, þá á að grípa tækifærið og skipa milliþinganefnd til þess að bjarga úr vandræðunum. Það er alt annað að vekja svona öldu eða slá á hana, og það hjá mönnum, sem ekkert þekkja til málsins.

Um 5. liðinn, hverjar söluleiðir fyrir afurðirnar mundu álitlegastar, þá held jeg, að nægi að vísa til styrks þess, sem samþ. var hjer við 3. umr. fjárlaganna að veita í þessu skyni, og hv. þdm. ætti að vera í fersku minni.

Þó að jeg geti í raun og veru bent á margt fleira, sem mælir móti því, að þessi till. nái fram að ganga, þá ætla jeg þó ekki að telja fleira að sinni. En rök mín benda þó á, hvað mál þetta er lítið hugsað og illa undirbúið. Og jeg get ekki orða bundist að telja það mjög leiðinlegt að þurfa hvað eftir annað að fá mál frá þessari hv. nefnd, sjútvn., jafnvanhugsuð og illa undirbúin og þetta.