23.04.1927
Neðri deild: 58. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í D-deild Alþingistíðinda. (3643)

54. mál, milliþinganefnd um hag bátaútvegsins

Jón Ólafsson:

Það kemur ljóst fram í ræðu hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að hann hefir tröllatrú á milliþinganefndum, enda verður ekki annað sagt en hann hafi reynsluna í þeim efnum. En annað er að vinna verk og fá það metið. Jeg held, að litlar yrðu nytjar af starfi slíkrar nefndar, eins og útkoman hefir orðið um allar þær milliþinganefndir, sem jeg veit til að hafa setið á rökstólum, þótt ekki vanti, að þær safni sögulegum fróðleik. Hv. flm. (ÁÁ) vildi halda við upphaflegu till., að láta hvern landsfjórðung hafa sinn fulltrúa í þessari nefnd. Það er náttúrlega hrósverð hugulsemi við fjórðungana. En það er nú svo, að yfirleitt þekkir hver útgerðarmaður hag hvers landsfjórðungs hvað útveg snertir, og Fiskifjelagið veit, hvar skórinn kreppir að í hverju einstöku tilfelli, og getur því best að þessu unnið með sínum starfskröftum.

Það má segja, að stjórn Fiskifjelagsins hafi ekki fje til slíkrar rannsóknar. En jeg verð að segja það, að fjelaginu er lagt til svo mikið fje, að jeg geri ekki ráð fyrir, að nein skotaskuld yrði úr að leggja fram fje til viðbótar við þá krafta, sem fyrir eru. Ekki hefir það vakað fyrir hv. 2. flm. (ÁÁ) að spara, því að hann hefir lýst því yfir, að þetta ætti ekki að vera partur af starfi þessara manna, sem hafa þó öll skilyrði til þess að leysa það af hendi. En þar skilur okkar leiðir, og þykist jeg þó hafa þekking í þessum efnum fram yfir hv. þm. V.-Ísf.

Fiskiþingið hefir ekki skipað neina nefnd í þessu máli, heldur var það aðalfundur Fiskifjelagsins, sem haldinn var hjer í Reykjavík. Það er rjett, að þessi nefnd hefir ekki fje samkvæmt fjárlögum. En jeg geri ráð fyrir, að ef sú nefnd vildi starfa eitthvað, þá geti hún sótt sinn vísdóm, sem mjer skilst helst á hv. flm. (ÁÁ) að þurfi að sigla eftir, til forseta Fiskifjelagsins, sem hefir bæði áhuga og þekking á þessum málum og skrifaði nú nýlega um framkvæmdir til hagsbóta smábátaútveginum.En þar fylgir sá böggull skammrifi, eftir því sem ætlast er til og aðrar þjóðir hafa, að byggja verður hafnir, þar sem þær eru ekki til, og í landi stór „plön“, þar sem fiskurinn verði aðskilinn, ísaður og geymdur. Það þarf fje til, að þessi aðstaða fáist, að jeg ekki tali um „ísverk“, þar sem hægt sje að fá ís til frystingar á hvaða tíma árs sem er. Þetta felst í tillögum forseta Fiskifjelags Íslands, sem hann hefir sett fram „prívat“ og mun enn gera í gegnum þessa væntanlegu nefnd, sem skipa á samkvæmt till. Því að jeg veit fyrir víst, að væntanleg nefnd muni sækja upplýsingar um þetta atriði til þess manns, er hefir athugað það og er samkvæmt stöðu sinni skyldur til að athuga það.

Þótt segja megi, eins og hv. þm. V.-Ísf. hjelt fram, að ekki sje búið að „modernisera“ stórútgerðina svo sem vera ætti, þá verður þó ekki annað sagt, og það veit hv. þm. líka, en sú útgerð, sem kend er til togara, sje fullkomlega eins „moderne“ og t. d. hjá Englendingum, hvað snertir ísfisksölu og það að búa til útgengilega vöru úr stórfiski þeim, sem aflast.

Ef meiningin er að vinna að hjálpsemi við smáútgerðina, þá er fyrsta skrefið, eins og forseti Fiskifjelagsins hefir upplýst, að byggja hafnir, ef þær skortir. Og þó að þær sjeu til, eins og t. d. á Vestfjörðum, þá vantar byggingar yfir væntanlega umhleðslu, „rögun“ og innpökkun, og það vantar líka bryggjur, „ísverk“ allvíða og stærri skip til þess að flytja fiskvarninginn á erlendan markað. Þó að skrifuð væri heil bók, sem færi með rjettar athugasemdir um alt, sem gera þyrfti í þessu máli, þá er, að jeg held, um svo stóra fjárfúlgu að ræða í sambandi við þetta mál, að það kynni að koma annar svipur á þá, er hlut eiga að máli, og er til kæmi, yrði kannske ekki annað eftir en bókin ein. Þetta er eðlilega og sýnilega nýtt í huga hv. þm. V.-Ísf., enda kennir hjá honum mjög ókunnugleika, því að mjer skildist á honum, að nýútkomin bók hafi borist honum í hendur, og þar hafi hann hitt á ýmsan nýjan fróðleik. Nú er kunnugt, hver þessi bók er, að það er bók Matthíasar Þórðarsonar, og hafi hann af þeirri bók fengið eitthvað nýtt, virðist það benda á, að lítil hafi þekkingin verið fyrir. Í þessari bók er ekkert, sem við eldri fiskikarlarnir höfum ekki vitað fyrir löngu. Þar kann að vera ýmislegt nýtt fyrir þeim, sem lítið þekkja til okkar fiskimiða, eins og t. d. Dönum, og eðlilegt, að þeir taki fegins hendi upplýsingum þeim, sem þar er að fá. Og sama er að segja um hv. þm. V.-Ísf. Það er ekki nema eðlilegt, að hann taki slíkri bók með hrifningu og haldi hana fjársjóð fyrir okkur Íslendinga meiri en hún nokkurn tíma er.

Það er rjett, að ríkisvaldið komi til, ef ekki fást einstakir menn til að gera tilraun með þetta, svo sem eins og með því að koma upp því, sem tilheyrir slíkri útgerð, og það er frá mínu sjónarmiði það eina, sem hægt er að gera til hjálpar. En spurningin er, hvernig það borgar sig; þar rennir maður blint í sjóinn. Nú er það vitanlegt, að fiskurinn er á vissum stöðum og ekki ávalt þeim sömu, svo að eiginlega þyrfti að flytja slíka útgerð til, og því er það, að forseti Fiskifjelagsins talar um fiskihafnir sem víðast, til þess að geta flutt flotann, eftir því sem afli er á vissum tímum árs. En það finst mjer, þegar alt kemur til alls, vera okkur ofurefli enn sem komið er.

Jeg tel rjett, að upplýsingar um sjerhvað, er þetta snertir, felist forseta og stjórn Fiskifjelags Íslands, með þeim starfskröftum, er þessir aðilar hafa á að skipa. Það lítur út fyrir, að hv. sjútvn., að því er sjeð verður af nál., telji ekki svo mikinn kostnað leiða af þessari milliþinganefndarskipun, að í hann sje horfandi. En það eru þó þær krónur, sem mætti spara, og jeg álít að eigi að spara, þar sem ekki er von um neinn árangur fram yfir það, sem stjórn Fiskifjelagsins getur veitt.

Hv. flm., 1. þm. S.-M. (SvÓ), þótti mínar athugasemdir koma úr öfugri átt og kynlega fyrir. En jeg benti aðeins á þessa leið við fyrri umr., að Fiskifjelagið væri sá besti og sjálfsagðasti aðili til þess að koma með upplýsingar og bendingar í málinu, sem að gagni mættu koma, eða viðkomandi stjórnarvöld sæju sjer fært að vinna að því með fjárframlögum, ef á þyrfti að halda. Sami hv. þm. hjelt því fram, að meiri árangurs mundi mega vænta með þessari nefnd og fulltingi stjórnar Fiskifjelagsins. Það getur aðeins legið í því, að hv. þm. (SvÓ) hafi þá trú, að milliþinganefnd sje hið eina rjetta form fyrir meðferð slíkra mála. Það er aðeins yfirsvipur, sem mjer finst að hv. þm. V.-Ísf. vilji fá á þetta. En mjer finst sá svipur, sem málið á að hafa, geta orðið eins góður frá hendi „fag“-manna, sem starfandi eru nú þegar, og hjá væntanlegum „fag“-mönnum, sem gera má ráð fyrir, að skipaðir yrðu í nefndina af Alþingi.

Hv. þm. S.-M. (SvÓ) tók það heldur illa upp fyrir mjer, sem jeg sagði, að sumir starfsmenn þess opinbera hefðu ekki of mikið starf með höndum. Jeg er yfirleitt þeirrar skoðunar, að það megi gera meira en gert er að því að láta starfsmenn ríkisins hafa fult verkefni og borga þeim þá heldur ríflegar, svo að þeir geti lifað sómasamlegu lífi, en ekki iðjuleysi við sultarlaun. Það er nú reyndar ekki stórt atriði þetta — aðeins innskot, sem ekki kemur málinu við.

Þá hjelt hv. þm. (SvÓ), að landsstjórnin hefði ekki þekking á sjávarútvegsmálum. Hún þarf aðeins að vita, hvort hún á að hjálpa útveginum með fjárframlögum, eins og segir í 4. lið till., að gera bátana veðhæfari og afla ódýrara rekstrarfjár. Jeg geri ekki ráð fyrir, að hv. Alþingi sje tilbúið til nýrrar sjóðsstofnunar. En nú er þessi sjóður til, fiskiveiðasjóðurinn, þótt sama sem ekkert hafi verið notaður nú um nærfelt 12 ára skeið.

Þá þótti hv. þm.(SvÓ) jeg hafa sveigt um of að hv. sjútvn., og þótti það óþarft, þar sem hv. deild hefði felt till. hennar um sendimann í Portúgal. Það lítur þá út fyrir, að jeg hafi haft rjett fyrir mjer, úr því að hv. deild feldi till. sjútvn. í þessu máli. Annars geri jeg þetta ekki að kappsmáli, en jeg vildi aðeins gefa þær bendingar, sem jeg hefi best vit á, og jeg hefi nú sagt, hvernig jeg áliti að fara muni. Það eru ekki nema tvær leiðir í þessu máli. Önnur er sú, að einstakir menn taki sig saman og ráðist í þetta, en hin er sú, að Alþingi veiti til þess ríflega fjárfúlgu. Er jeg fyrir mitt leyti hlyntur því. Jeg mun svo ekki hafa meiri afskifti af málinu að sinni, en læt hv. nefndarmenn og tillögumenn um það, sem eftir er.