18.03.1927
Efri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í D-deild Alþingistíðinda. (3677)

90. mál, flugvél til póstflutninga

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi látið stutta greinargerð fylgja þessari till. og þar tekið fram þau meginatriði, sem sögð verða til stuðnings þessu máli. Fyrsta atriðið er það, að við höfum sennilega einna ófullkomnastar póstgöngur, sem mögulegt er að gera ráð fyrir í nokkru mentuðu landi á 20. öld. Það er ekki svo vel, að það fari hjeðan póstur yfirleitt út um landsins bygðir einu sinni á mánuði. Í sumum hjeruðum er það enn sjaldnar. Jeg veit með vissu um einn fjörð á Austurlandi, þar sem landpóstur kemur aldrei á sumrin. Þeir, sem þar búa, verða að sækja póst sinn til næsta fjarðar. Ofan á þetta bætist, að það virðist vera eitthvert dæmalaust sleifarlag á póstflutningum að öðru leyti. Mjer er skrifað frá Reyðarfirði með Esju, þegar hún kom hingað frá útlöndum, að einn bóndi þar hjá kaupstaðnum hafi ekki sjeð eitt einasta Reykjavíkurblað frá því í nóvember. Blöðin, sem send voru með landpósti, hafa verið skilin eftir og voru ekki komin í febrúar. Þetta ástand póstmálanna er þannig, að jeg þykist mega fullyrða, að þjóðin uni því ekki til lengdar. Jeg sje ekki neinar líkur til þess, að hægt verði að bæta úr þessu á þann hátt, að póstgöngum verði komið í svipað horf og gerist erlendis, nema með flugvjelum. Þess verður eflaust langt að bíða, að akvegir komi um land alt, enda eru þeir ekki bílfærir nema á sumrum.

Fyrir nokkrum árum hefði verið talið fjarstæða að láta sjer detta í hug að flytja póst í flugvjelum. En nú er nokkru öðru máli að gegna. Nú er fluglistin komin á það stig, að flugvjelar mega heita jafnalgeng flutningatæki og bílar voru svo sem 10 árum eftir að þeir voru fundnir upp. Svo örar eru framfarirnar á þessu sviði, að telja má víst, að innan fárra ára verði hættulaust eða að minsta kosti hættulítið að fljúga. Jafnvel nú þegar er svo komið, að slys eru að tiltölu litlu tíðari en á skipum og járnbrautum.

Jeg hefi að svo stöddu ekki álitið tímabært að leggja til að byrja flugferðir til farþegaflutnings. Áður en langt líður mun þó að því reka, að svo verði gert, því að þörfin þar er sú sama og um póstinn, sökum stærðar landsins og strjálbýlis, og enginn þektur vegur er greiðari en loftið. Ert flugið er svo dýrt, að ekki mundi þykja forsvaranlegt að greiða svo há fargjöld sem þyrfti til að láta það bera sig.

Öðru máli er að gegna um póstflutning, t. d. brjefapóst, þar sem hægt er að koma hundruðum eða þúsundum brjefa í rúm eins farþega. Jeg geri því ráð fyrir, að flug á Íslandi byrji með því að flytja póst.

Auk þess sem þetta er fyrst og fremst viðskiftaúrræði, getur það orðið stórkostlegt menningarmeðal. Jeg held, að þær umbætur, sem verða á póstmálum með flugvjelunum, verði góður liður í þeirri viðleitni, að gera fólki kleift og viðunandi að búa í dreifbýli, því að með fjölgun póstferða minkar einangrunin. Það er víst, að ein aðalhvötin til þess, að fólk flytur í kaupstaðina, er einmitt tilfinningin fyrir því, hve erfitt er að ná til annara, einangrun, fásinni, frjettaleysi.

Um kostnaðinn er ekki gott að segja. Það stendur til, að málið gangi gegnum 2 umr. í hvorri deild, og verður því eflaust athugað í nefnd, hvort kleift sje að ráðast í þennan kostnað, eins og nú háttar. Jeg vil geta þess, að ný ríki álfunnar, eins og t. d. Tjekkó-Slóvakia, láta árlega byggja 5–600 flugvjelar.

Það munu þegar liggja fyrir umsóknir ungra Íslendinga um að læra að fljúga, og þar kemur, að Íslendingar verða ekki eftirbátar útlendinga í þeirri list. En jeg hefi þó gert ráð fyrir, að fengnir verði svo sem 2 erlendir menn til þess að standa fyrir flugum fyrst í stað. Okkur ríður sem sje á að fá sem öruggasta og fullkomnasta stjórn, til að fyrirbyggja slys, meðan verið er að safna reynslu. Þá mun þess ekki langt að bíða, að hjer rísi upp ötul og örugg flugmannastjett, með hæfileikum slíkum sem bifreiðastjórar vorir og sjómenn, sem geta sjer góðan orðstír. Hjer er síst vant góðra manna.

Það er ekki hægt að segja, hversu örar ferðirnar skulu vera. Það leiðir af sjálfu sjer, að í því efni verður að feta sig áfram. En þegar þess er gætt, að fara má austur til Hornafjarðar á parti úr degi, er sýnilegt, að mikið er hægt að gera og koma pósti á skömmum tíma yfir alt landið.

Jeg geri ráð fyrir, að rjett sje að fara hægt í vetrarferðir, gera tilraunir fyrst að sumrinu og feta sig áfram og safna reynslu.

Að umræðum loknum legg jeg til, að málinu sje vísað til samgmn.