01.03.1927
Efri deild: 17. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í D-deild Alþingistíðinda. (3683)

51. mál, ungmennaskóli í Reykjavík

Flm. (Jónas Jónsson):

Það er öllum kunnugt, að höfuðstaðurinn hefir orðið útundan um ungmennafræðslu, þó að það megi undarlegt heita, þar sem skólarnir eru hjer svo margir. Nú hefir komið til mála að hefjast handa til þess að bæta úr þessu, en þar sem það er fyrirsjáanlegt, að slík stórbygging, sem skólinn heimtaði, yrði mörg ár á leiðinni, og auk þess ekki alveg víst, að hægt yrði að byrja á henni á næstu árum, hefir mjer dottið í hug, að það væri ómaksins vert að athuga, hvort ekki væri hægt að byrja skólann — án mikils tilkostnaðar — þegar í haust. Þess vegna flyt jeg þáltill., sem þarf að ganga í gegnum báðar deildir, af því að henni fylgja nokkur fjárútlát.

Svo er ástatt hjer í bænum, að hjer er eiginlega ekki nema einn ungmennaskóli, sem sje mentaskólinn. Hann er að vísu nokkuð stór og fer vaxandi, en þess ber að gæta, að það er ekki tilgangur þess skóla að veita almenna unglingafræðslu, nje heldur getur komist í hann nema örlítill hluti þeirra, sem fræðslu þarfnast. Eins og menn vita, hefir einn kennari mentaskólans kynt sjer eitt og annað, er að skólamálum lýtur, og gert tillögur um stofnun sjerstaks skóla, en hann hefir þann ágalla, að vera mjög dýr. Byggingin ein kostar miljón króna, og eru engin líkindi til, að hægt verði að sinna þessu nú, þar sem bærinn er að láta byggja óvenjulega stóran og vandaðan barnaskóla.

Jeg hugsa mjer því, að væri sönnu næst að fela hæstv. stjórn, með aðstoð fræðslumálastjóra, að gera þegar í haust ráðstafanir til þess að byrja hjer almenna unglingafræðslu. Aðalhugmynd mín er að nota á eftirmiðdögunum landsskólana þrjá og auk þess stóran samkomusal, sem hægt er að fá fyrri hluta dags með mjög vægum kjörum. Hann er upphitaður allan daginn og tekur hátt á fimta hundrað manns. Þar yrðu engin bein útgjöld, nema til ræstingar. Jeg vil taka það fram, eiganda salarins, Bjarna Jónssyni frá Galtafelli, til verðugs lofs, að hann hefir oft látið í ljós, að hann væri fús á að lána hann bænum eða landinu, ef hægt væri með því að greiða fyrir fræðslumálum. Jeg mun síðar víkja að því, að þetta eru sjerstök hlunnindi.

Það veltur mikið á því að hafa heppilegan forstöðumann, og þess vegna yrði að borga þeim manni eins og gerist við aðra fasta skóla hjer. Þó að ekki sje enn kunnugt um neinn sjerstakan mann, sem gæti tekið það starf að sjer — eini maðurinn, sem hefir látið til sín taka í þessu máli, er fastur kennari við mentaskólann — þá mundi sjálfsagt takast að fá góðan mann. Að öðru leyti mundi vera auðvelt að fá tímakennara. Hjer er einmitt fjöldi af mentamönnum, sem eiga erfitt uppdráttar og sækjast eftir að fá tímakenslu. Það er sem sje hægt að velja úr mönnum til þess að kenna hverja þá grein, sem yfirleitt er hægt að kenna hjer á landi. T. d. með kennara í ýmsum sjergreinum, svo sem teikningu og vinnubrögðum, er hjer um auðugan garð að gresja. Það er sjálfsagt fyrir landið að nota sjer það að fá hjer góða kenslu fyrir minna verð en annarsstaðar.

Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. stjórn taki ekki til þess, þó að í tillögu minni sje tekið fram á tveim stöðum, að fræðslumálastjóri skuli vera með í ráðum. Mjer er ekki kunnugt um, að stjórnin hafi haft eða hafi innan sinna vjebanda menn, sem hafa áhuga fyrir uppeldismálum, og er því um engan að ræða, nema fræðslumálastjóra.

Jeg býst við, að þetta mál kunni að mæta einhverri mótstöðu frá aðiljum skólanna, sem nota á til kenslunnar. Það þykir „flottara“ að hafa húsrúmið autt síðara hluta dags. En er ekki meiri þörf á að nota þetta húsrúm handa því unga fólki, sem að öðrum kosti yrði útundan um kenslu? Jeg er ekki í nokkrum vafa um, að það er rjettara að meta meira manneskjumar en hitt, að húsin standi auð.

Það er tekið fram í aths., að með því að nota skólahúsin svona mikið, verður að gera sjerstakar ráðstafanir til ræstingar og lofthreinsunar. Alveg án tillits til þess, hvort skólarnir eru notaðir svona mikið eða ekki, er sjálfsagt að hafa alstaðar vatnshelda gólfdúka, sem auðvelt er að hreinsa. En það, sem menn reka sig fyrst á, er það, að loftræstingin er ófullnægjandi á þann hátt, sem hún er nú gerð. Þó er hægt með mjög litlum tilkostnaði að koma við rafmagnsloftræstingu, eins og t. d. er á öllum fullkomnum skipum.

Jeg býst við, að nægja mundi fyrst um sinn að nota ½–2/3 af bekkjarúmi hvers skóla. Það þyrfti aldrei að reka sig á, þó að nemendur hefðu fundarhöld eða annað slíkt, og kent væri í nokkrum stofum frá kl. 5–7 eða 4–7.

Sem dæmi get jeg tekið það, sem gert var undir svipuðum kringumstæðum, þegar Möðruvallaskólinn brann. Í 2 vetur fór kenslan fram í barnaskólanum á Akureyri á eftirmiðdagana. Auðvitað var það óþægilegt fyrir fullorðna menn að sitja á sömu bekkjum og börnin, en þetta varð svo að vera, af því að landið var fátækt. Jeg var í skólanum annan veturinn og hafði ekki neitt ilt af því.

Einhverjum kann að finnast við fyrstu sýn, að örðugt muni vera að hafa sama skólann í mörgu lagi. En þetta er alls ekki óalgengt. Í sumum stærstu lýðháskólum frændþjóða okkar er stór fyrirlestrarsalur, þar sem einnig eru sýndar skuggamyndir og kvikmyndir, en þegar til hinnar eiginlegu bekkjakenslu kemur, skifta menn sjer í minni hús og bekki. Þetta er hrein og bein umbót. Enginn skóli á hjer aðgang að jafnvönduðum og ágætum fyrirlestrasal og þessi fyrirhugaði unglingaskóli. Jeg hefi hugsað mjer, að fyrst um sinn væru sumar námsgreinarnar, t. d. Íslandssaga, bókmentasaga, mannkynssaga, landafræði og náttúrufræði, kendar með fyrirlestrum, og væru þá notuð þau ágætu tæki, sem salnum fylgja, bæði kvikmyndir og skuggamyndir. Þessi kensla gæti farið fram fyrri hluta dags, með fyrirlestrum, því að þá er salur þessi altaf auður, en síðari hluta dags færi aftur fram í landsskólunum tungumálakensla, reikningur, teikning og kensla í öðrum þeim greinum, þar sem ekki mega vera fleiri í bekk en 20–25 manns. Það yrði þá frá kl. 5–7 síðd., og þá hefðu nemendur bæði kvöldið og svo allmikið af fyrri hluta næsta dags til þess að búa sig undir tímana. Ef dugandi skólamaður stæði fyrir þessari kenslu, þá yrði það engum vandkvæðum bundið að hafa yfirumsjón með þessu, og það þó að alt að 2–300 manns væri í þessum skóla. Í þessu sambandi vil jeg benda á, að það er talað um það hjer í bænum, að bæjarstjórn og skólanefnd ætli sjer að hafa sama skólastjórann fyrir báðum skólunum, þó að þar verði um 2–3000 nemendur. Það er litið svo á, að sami maður geti vel litið þar eftir, þótt kent verði á tveim stöðum í einu. Ef hjer yrði stofnaður fastur unglingaskóli, myndi verða stofnað töluvert af föstum embættum, sem þá yrði allþungur baggi á bænum eða ríkinu. En jeg sje ekki, að á meðan skólinn er einskonar reynslustofnun, þyrfti að vera nema einn fastur maður, og jeg hefi lauslega reiknað út, að með því skólagjaldi, sem hjer tíðkast, mundi þessi skóli geta komist af með, svona fyrstu árin, 12–15000 krónur á ári. Það er aðallega skólastjórinn, sem jeg hefi hugsað mjer að væri borgað sjerstaklega, og svo dálítill aukakostnaður við fyrirlestra, en önnur bókleg kensla, ræsting og smáútgjöld, yrðu kostuð af skólagjöldum. Þegar það er athugað, að kvennaskólinn í Reykjavík borgar 8000 kr. í húsaleigu, og svo ljós og hita sjerstaklega, þá er það alveg ljóst, að hjer er hægt að komast af með tiltölulega miklu minni kostnað, þar sem húsaleiga getur að langmestu leyti fallið niður, og jeg þori að minsta kosti að fullyrða, að skóli með þessu fyrirkomulagi mundi verða miklu ódýrari en nokkur annar skóli hjer á landi, vegna þess að hann fær svo ódýrt húsrúm og getur orðið svo stór og ætti að njóta þess.

Hvaða fyrirkomulag ætti nú að vera á þessum skóla? Jeg hefi ekki reynt í þáltill. eins og þessari að fara nákvæmlega út í það atriði, og býst líka við, að jeg hafi dálítið aðrar skoðanir í því efni heldur en þeir menn, sem nú hafa verið að reyna að undirbúa till. um unglingaskóla hjer í Reykjavík. Jeg býst við, að fyrir þeim vaki svipuð kensla og er í gagnfræðaskólanum á Akureyri og í Hafnarfirði. Gagnfræðakensla þessara skóla er miðuð við þriggja ára nám, er að mestu leyti bókleg og leggur langmesta áherslu á að glæða hugmyndir þeirra um þau fræði, sem þeir geta lagt á minnið. Reynslukensla er nær engin, enda er aðallega verið að undirbúa þessa ungu menn undir andlegt líf, þar sem hugsun og heili starfar, en ekki hendurnar. Þetta er mikill galli á þessum skólum, vegna þess, að líf vort hjer er þannig, að meiri hluti borgaranna getur ekki lifað án þess að reyna bæði á líkama og sál; fæstir geta lifað á gagnfræðinni einni saman, og það stafar meira að segja bein hætta af þessu skólafyrirkomulagi, af því að það býður opinn faðminn móti því, sem menn kalla böl aldarandans, nefnilega þeim hugsunarhætti, að unga kynslóðin reynir og vonast eftir því að geta komist hjá erfiðri vinnu fyrir sjálfa sig, og dreymir um það, að geta búið að einskonar andlegri vinnu. En það er þó öllum ljóst, að það getur ekki náð nokkurri átt, að þessi bær hagi þeirri fræðslu, sem þetta unga fólk, sjómenn, trjesmiðir, verkamenn og tilvonandi húsfreyjur, á að njóta, þannig, að hún beini hugum þeirra frá þeim störfum, sem það síðar verður að leggja fyrir sig, en að einhverjum mikilsverðum, andlegum lærdómi. Það er þess vegna, sem jeg held, að það mundi áreiðanlega fult svo hentugt fyrir þennan bæ, að því væri ekki algerlega slegið föstu, að þessi skóli ætti að vera eingöngu sniðinn eftir neðri deild mentaskólans, heldur að reynt yrði að sníða þennan skóla svo, að hann uppfylti og bætti úr þeim rjettmætu kröfum, sem þarf að gera til uppeldis starfandi fólks í þessum bæ. Þess vegna tek jeg til leiðbeiningar tvo alþýðuskóla hjer á landi; er annar þeirra orðinn nokkuð gamall, en hinn er ennþá ungur. Það eru þeir skólar, af þeim sem jeg þekki til, sem hafa gert mest að því að forðast að fjarlægja menn frá lífinu. Á báðum þessum stöðum hefðu kennararnir viljað ganga lengra í þessa átt, ef húsrúmið hefði leyft það. Jeg vil sjerstaklega taka það fram, að við skólann á Núpi er það álitið af öllum, sem kunnugir eru, að þessi mentastefna hafi mest og best verið samrýmd við andlegt uppeldi, án þess þó að fjarlægja menn frá starfslífinu, og þess vegna er það fullkomlega rjett að taka tillit til þeirrar reynslu, sem hjer er fengin í þessa átt.

Síðasti liðurinn er um það, að skora á landsstjórnina að láta gera áætlun og teikningu fyrir hæfilega stórt skólaeldhús og verkstæði, og jeg vil taka það fram, að það lýtur sjerstaklega að þessari stefnubreytingu; jeg lít nefnilega þannig á, að það væri miklu heppilegra og betra fyrir ungar stúlkur að vera ekki í þessum skóla nema tvö ár, þar sem þær læra bæði nokkuð bóklegt og talsvert í íþróttum, og hafa svo kenslu í matreiðslu, og sömuleiðis væri það betra fyrir unga menn að stunda bóklegt nám í tvo vetur og geta svo verið einum vetri meira við verklegt nám, trjesmíði eða steinsmíði eða aðra þá iðju, sem reynslan sýndi, að hentaði mönnum hjer í bæ.

Jeg geri ráð fyrir, að allir, sem sjá þessa þáltill., reyni að skoða þetta mál frá þessu sjónarmiði. Jeg álít, að það eigi alls ekki að byrja á því að byggja hinn almenna skóla; það er hægt að komast af án þess enn um stund; mest nauðsyn er á, að menn fái tækifæri til að stunda verklegt nám, og svo væri hugsanlegt fyrir bæinn og landið í sameiningu að þoka þessu áfram smátt og smátt. Eftir 10–15 ár verður skólinn kannske búinn að eignast fullkomin hús, því að vitanlega dettur mjer ekki í hug, að þetta skólaform leysi varanlega skólamálið hjer. En eftir fjárhagsástæðum bæjarins og landsins býst jeg ekki við, að hugsanlegt þyki, að slík bygging verði bygð bráðlega, því að mjer hefir skilist af manni, sem vel þekkir til um fjárhag bæjarins, að það muni þykja fullmiklir örðugleikar á, að hann geti lokið við barnaskólann, og ekki hægt að segja, hve fljótt honum verður fært að standast þann kostnað að byggja skóla yfir 3–400 manns.

Jeg geri ráð fyrir, að það mundi þykja full ástæða til, ef ekki væri nein hulin og ókunn mótstaða gegn málinu þar, að vísa þessari till. til mentmn.