13.05.1927
Sameinað þing: 10. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í D-deild Alþingistíðinda. (3696)

52. mál, byggingar- og landnámssjóður

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg get að ýmsu leyti tekið í sama strenginn og hv. 1. þm. N.- M. (HStef) hefir gert, að því er snertir samanburð á till. þeirri, sem hjer liggur fyrir, og frv. því, sem samþ. var í hv. Nd. og síðan vísað til stjórnarinnar, til þess að hún legði það fyrir væntanlega milliþinganefnd. Það var aðeins niðurlagið í ræðu hans, sem mjer kom einkennilega fyrir sjónir, þar sem hann lýsti því, að hann gæti greitt till. atkv., eða 2 síðustu liðum hennar, því að þá kæmu bæði frv. og till. til athugunar. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. (HStef) hefir tekið eftir því, að í upphafi till. er það tekið fram, að frv. það, sem milliþinganefndin semur, skuli bygt á grundvallaratriðum till. Ef till. verður samþ., er því þar með slegið föstu, að milliþinganefndin sje bundin við meginhugsun till. En nú hefir hv. þm. (HStef) sjálfur sýnt fram á muninn á till. hv. 1. landsk. (JJ) og frv. því, sem hann (HStef) flutti og fekk svo góðar viðtökur í hv. Nd., og því þykir mjer það einkennilegt, að hann skuli nú vilja yfirgefa þær till., sem hann gerði í frv., og skipa nefndinni að leggja alt aðrar till. til grundvallar.

Það er vitanlega gott, að till. úr sem flestum áttum komi til athugunar, en hitt nær engri átt, að binda nefndina fyrirfram við ákveðnar till.

Jeg verð að álíta það rjettast að láta nefndina hafa óbundnar hendur í sem flestum efnum. Hún á svo að vinna úr þeim till., sem fram koma, og taka það, sem henni þykir best, eða leggja til frá sjálfri sjer, ef hún hefir betra að bjóða.

Jeg get því ekki fallist á till., eins og hún liggur fyrir. Jeg geri ráð fyrir, að rjettast væri, að henni væri vísað til stjórnarinnar, til þess að hún legði hana fyrir milliþinganefndina, en jeg vil þó ekki koma fram með neina till. um það.

Brtt., sem fram er komin við 1. lið. hefir sama galla og aðaltill., sem sje þann, að hún bindur nefndina við ákveðinn grundvöll, sem bygt skuli á.

Í niðurlagi aðaltill. er gert ráð fyrir því, að jörðin, ásamt mannvirkjum og ábúðarrjetti, skuli sett að veði fyrir láni úr sjóðnum. Mjer skilst, að ef jörðin er veðsett, þá hljóti ábúðarrjetturinn líka að vera það. Eignarrjettinum hlýtur að fylgja ábúðarrjettur, og sá, sem verður eigandi að jörð, hlýtur að öðlast ábúðarrjett um leið, þegar jörðin var áður í sjálfsábúð.