13.05.1927
Sameinað þing: 10. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í D-deild Alþingistíðinda. (3697)

52. mál, byggingar- og landnámssjóður

Flm. (Jónas Jónsson):

Hæstv. forsrh. (JÞ) talaði aðallega um 1. lið till. og komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri viðeigandi, að milliþinganefndin gerði till. í skattamálum.

Í því sambandi vil jeg minna hæstv. ráðh. á það, að í viðskiftum okkar í vetur út af útflutningsgjaldinu kom nokkuð svipað fyrir. Þá barst talið að því, að fyrir fáum árum setti Búnaðarfjelagið nefnd til þess að gera till. um Ræktunarsjóðinn. Sú nefnd kom síðan fram með ákveðnar till. um það hvernig tekna skyldi aflað handa sjóðnum, og þeim till. hefir, í aðalatriðum, verið farið eftir. Það er þess vegna sögulega rangt hjá hæstv. ráðh., að fordæmi vanti. Það eru dæmi til, að saman fara tillögur um útgjaldaaukningar og tillögur um skatta.

Við erum sammála um það, hæstv. ráðh. og jeg, að það eigi að fylgjast að ný og varanleg útgjöld og tekjuauki. Þegar landhelgissjóðurinn var stofnaður, voru ákveðnar tekjurnar og eyðslan. Það er hinn mesti skaði, þegar lagt er út í einhverjar framkvæmdir án þess að hugsa sjer einhvern tekjuauka. Mjer finst það ástæðulaust að vantreysta milliþinganefndinni í landbúnaðarmálum til þess að rannsaka jafneinfalt mál sem þetta, og sjerstaklega situr það illa á hæstv. forsrh. að vantreysta henni, þar sem hún verður þannig skipuð, að flokkur hans ræður einn manninn og stjórnin annan, en þeir eru þrír, sem nefndina skipa. Annars virðist vera skoðanamunur milli ráðherranna tveggja í þessu máli. Hæstv. atvrh. (MG) virðist geta gengið inn á aðalhugmynd frv., en hæstv. forsrh. (JÞ) er á móti allri hugmyndinni. Stjórnin er því klofin, og getur það vel orðið landnámsmálinu til tjóns, ef hæstv. forsrh. verður yfirsterkari.

Hæstv. forsrh. sagði, að það væri ógætilegt að bera okkur saman við aðrar þjóðir, þó að þær legðu mikið fje til nýbýla; við værum svo miklu fátækari en þær, og auk þess ættum við mörg önnur verkefni óleyst, og tók hann sem dæmi vegi og spítala. En við verðum að gæta þess, að þó að við sjeum fátækir og smáir, þá erum við lausir við stærsta útgjaldaliðinn, sem aðrar þjóðir hafa, útgjöldin til hermálanna. Við erum því betur staddir að þessu leyti.

Jeg hefi orðað tillöguna þannig, að hægt væri að miða þessa skatta við sambærilega skatta hjá Englendingum. En hæstv. forsrh. hefir ekki viðurkent, að skattstiginn er sífelt á hreyfingu hjá Englendingum. Ef miðað hefði verið við ástandið í Englandi, þá hefði hæstv. ráðh. fyrir fáeinum árum orðið að borga um 80% í skatt af eignum og tekjum. Jeg vil ekki að svo komnu leggja til, að hjer sjeu hærri gjöld á hátekjunum en í Englandi. Það er og eitt grundvallaratriði í þessu máli að fá betra eftirlit með framtalinu. Hjer eru mörg fyrirtæki, sem komast langt upp fyrir þær tekjur, sem hæstv. forsrh. (JÞ) talaði um. Það er t. d. fullyrt af kunnugum mönnum, að óskabarn stjórnarinnar, Krossanesverksmiðjan, hafi haft yfir eina miljón króna í hreinar tekjur eitt árið. Það er því algerlega villandi, er hæstv. ráðherra vill láta líta svo út sem hjer sje aldrei nema um smátekjur að ræða.

Þá sagði hæstv. forsrh., að allur grundvöllur væri hruninn undan tillögunni, ef ekki væri gengið inn á gróðaskatt. Þessu verð jeg að mótmæla. Tillagan er í þremur liðum, og þeir eru allir sjálfstæðir. Það er hægt að samþykkja síðari liðina, þótt hinn fyrsti verði feldur. Hæstv. forsrh. óttast, að það verði lagt meira á hátekjumennina með þessu móti, og því vill hann ekkert við þessar framkvæmdir eiga. En þar sem fátækir menn á Íslandi borga með tollunum tiltölulega miklu meira til landssjóðs heldur en fátækir menn á Englandi, sýnist sanngjarnt, að efnamenn landsins beri hlutfallslega jafnþungar byrðar eins og efnamenn á Englandi. Ef það er nú svo, að hæstv. ráðh. vill hafa tiltölulega miklu þyngri skatta á fátæklingunum, en ljettari á stóreignamönnunum, þá virðist svo sem hann sje á móti þessu máli af tveimur mjög svo óviðurkvæmilegum ástæðum. Í fyrsta lagi vill hann ekki unna þjóðinni þeirrar blessunar, sem leiðir af aukinni ræktun landsins, og í öðru lagi tímir hann ekki, að hann sjálfur og efnalegir jafningjar hans borgi þá skatta, sem þeim ber að borga hlutfallslega við fátæklinga landsins. En jeg býst við, að hæstv. forsrh. sje það ljóst, að það muni reynast erfitt að fá tollmálalöggjafa Englands til þess að leggja samsvarandi byrðar á öreigana eins og hjer er gert.

Út af ræðu hæstv. atvrh. (MG) vil jeg geta þess, að hann virðist bera óþarflega mikla umhyggju fyrir hv. 1. þm. N.-M. (HStef), og meiri en sá þm. gerir kröfu til. Aðaluppistaðan í ræðu hans var sú, að reyna að sannfæra hv. 1. þm. N.-M. (HStef) um það, að hann gæti ómögulega verið með þessari till., af því að hún væri eins og frv. það, sem hann bar fram. Hv. 1. þm. N.-M. hefir látið í ljós aðrar skoðanir á sumum atriðum þessa máls; hann hefir kosið að ýta því áfram, án þess að koma að hinum veika punkti, hvar eigi að taka peningana, hverjir eigi að borga. En áður en lýkur, kemur að skuldadögunum, og einhversstaðar verður að taka peningana, og hjer í þessari till. er stungið upp á leið til að afla fjárins, og sú leið virðist ekki ósanngjörn.

Þá vildi hæstv. atvrh. (MG) láta vísa þessu máli til stjórnarinnar. Mjer þykir það nú næsta undarlegt, er stjórnin stingur sjálf upp á því að gera sig að líkkistu. Það sæmir betur öðrum að koma á stjórnina þeim óþægindum, sem fylgja því að drepa góð mál, en hitt er ofrausn, að biðjast eftir slíku. Jeg ber kvíðboga fyrir því, að hæstv. atvrh. (MG) sje líkt farið og hæstv. forsrh. (JÞ), að hann sje ekki mjög hrifinn af þessu máli, þegar kemur til fjárútlátanna við að rækta land og fjölga heimilum. Hann er kannske með þessu nú fyrir kosningamar, en það verður gaman að sjá hönd hans rjettast upp málinu til stuðnings, þegar greitt verður atkv. um tekjuauka þann, sem með þarf.

Hæstv. atvrh. sagði, að það væri of bindandi, ef einn eða fleiri liðir þessarar till. yrðu samþyktir. Þessu verð jeg að mótmæla. Ef þessir liðir verða samþyktir, þá lít jeg á þá sem aðallínur við rannsókn málsins. Ef fyrsti liðurinn verður samþyktur, þá á milliþinganefndin að gera tillögur um gróðaskatt, samkv. öðrum liðnum verða mönnum trygð svo hagkvæm lán til þessara hluta, að þeir geta staðist að taka þau, og samkv. þriðja liðnum er það í aðaldráttunum trygt, að jarðirnar hækki ekki óeðlilega mikið í verði.